22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

Sala Útvegsbankans

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þau svör sem hann gaf áðan sem ég verð að játa að mér fannst ekki vera nein svör. Hann lýsti því nánast yfir að það væri nógur tími. Ástæðulaust að vera að drífa sig neitt við að afgreiða þetta mál og ég hygg að það sé útilokað annað en að túlka svör hæstv. viðskrh. þannig að hann sé með þeim að hafna báðum þeim tilboðum sem fyrir liggja í Útvegsbankann. Hann ætli sér að fara aðra leið út úr þessu máli án þess að hann hafi gert grein fyrir því með hvaða hætti hún á að vera.

Hv. 1. þm. Reykv. gagnrýnir að þetta mál skuli vera tekið hingað inn. Auðvitað varð að fá það á hreint einmitt í utandagskrárumræðu hér úr þessum ræðustól hvernig þetta mál stendur. Í framhaldi af því er auðvitað sjálfsagt að flytja þingmál af ýmsu tagi til þess að knýja á um niðurstöðu í þessu alvarlega máli. Varðandi hins vegar ummæli hans um að alltaf hafi verið gert ráð fyrir mikilli valddreifingu og hinir ýmsu menn, sparifjáreigendur í þjóðfélaginu, litli maðurinn væntanlega og fleiri mætir menn, kæmu hlaupandi og keyptu hlut í þessum banka.

Í lögunum um Útvegsbankann er beinlínis gert ráð fyrir því í undanþáguákvæði að einn aðili geti átt meiri hluta í bankanum. Þetta ákvæði er ekki ákvæði til bráðabirgða, sett meðan verið er að vinna sig út úr málinu, heldur er þetta beint og skýrt undanþáguákvæði, tillaga sem var flutt af ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. og engin athugasemd kom fram við í þinginu á sínum tíma. Þetta eru auðvitað rök með þeim sambandsmönnum í málinu þó að ég hirði út af fyrir sig ekki um að halda þeirra málum til haga sérstaklega umfram aðra en rétt er að nefna.

Varðandi afstöðu hæstv. fjmrh. er alveg óhjákvæmilegt að segja við hann: Orð hans voru ekki í því samhengi sem hann rakti. Ég lagði á mig að lesa allt það sem hann og fleiri ráðherrar sögðu um þetta mál í sumar. Hann sagði í viðtali við Morgunblaðið 15. ágúst, með leyfi forseta: „Málið verður rætt í ríkisstjórninni á þriðjudaginn en mér finnst yfirgnæfandi rök hníga að því að þessu tilboði eigi að taka.“ Þ.e. hinu tilboðinu að hafna. Ráðherrann snýr við blaðinu. Hann er eins og vindmylla í þessu efni og hrekst undan hótunum formanns Sjálfstfl. um stjórnarslit sem er auðvitað hið alvarlega í málinu og snúningspunktur þessa máls í ágústmánuði 1987.

Ég vil einnig benda á í þessu sambandi, herra forseti, hvað mikið er í húfi að á þessum málum sé tekið af myndarskap. Vaxtamunur bankanna er sennilega 5% meiri hér á landi en í grannlöndum okkar. Þar liggja milljarðar króna sem þjóðin verður að borga fyrir rándýrt bankakerfi. Það er kjarni þessa máls að hæstv. núv. viðskrh., herra forseti, hefur ekki notað það tækifæri sem gat verið til staðar til þess að knýja fram endurskipulagningu á bankakerfi. Þar hefur hæstv. ráðherra því miður brugðist. Þess vegna er engin önnur leið til í málinu í dag en sú að taka málið af ráðherranum og flytja það inn í þingið á nýjan leik.