07.01.1988
Neðri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3782 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

181. mál, stjórn fiskveiða

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég tel mjög miður að engar þeirra brtt. sem fluttar voru á þskj. 479 af hv. 1. þm. Vestf. skyldu ná fram að ganga við 2. umr. og síðar við þessa umræðu eins konar varatillögur sem fram komu á þskj. 495. Með samþykkt á sumum þessara tillagna hefði mátt bæta úr nokkrum þeirra ágalla sem við blasa á því viðamikla stjórnkerfi sem hér er verið að lögfesta. Eigi að síður ber að meta að frv. hefur tekið verulegum breytingum til bóta í meðförum Alþingis, fyrst í hv. Ed. og síðar í þessari hv. deild. Þetta á þó einkum við um réttindi og hagsmuni smábáta, en um þau mál hafa verið samþykktar brtt. sem m.a. komu fram eftir að ég lauk ræðu minni í gær við 2. umr.

Þrátt fyrir að ég hafi áhyggjur af ýmsum þáttum þessa máls, þar á meðal þriggja ára gildistíma laganna, tel ég eftir atvikum rétt að styðja frv. við lokaafgreiðslu þess. Þetta er gert af minni hálfu með tilliti til þeirra lagfæringa sem orðið hafa á frv. í meðförum Alþingis, með tilliti til yfirlýsinga hæstv. sjútvrh. um að gætt verði hagsmuna vinnslustöðva við setningu reglugerðar um veiði á úthafsrækju og með tilliti til þess að tæplega kemur til greina að leggjast gegn því að lög séu sett um stjórn fiskveiða. Þess vegna segi ég já.