07.01.1988
Efri deild: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3806 í B-deild Alþingistíðinda. (2703)

Tilhögun þingfunda

Júlíus Sólnes:

Hæstv. forseti. Það er rétt að í dag var haldinn samráðsfundur með forseta Nd. og þingflokksformönnum stjórnarandstöðuflokkanna þar sem var rætt um þinghaldið. Á þeim fundi kom fram að við forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna á þingi mótmæltum því þinghaldi sem hér fer fram þessa dagana. Við bentum á að það er löngu orðið tímabært að þingstörf verði með eðlilegum hætti, þ.e. að þingfundir fari fram á eðlilegum fundatíma Alþingis. Það er núna komið vel fram á nýár, við erum komnir langt fram í janúar, og við sjáum enga ástæðu til þess að keyra áfram með fundahald utan venjulegs þingfundatíma Alþingis. Við lögðum á það mikla áherslu í dag að það yrði strax farið í að haga þinghaldinu miðað við venjulegan fundatíma Alþingis og ég lagði það m.a. til að í dag kl. 2 lyki fundastörfum á Alþingi og til næsta fundar yrði boðað með venjulegum hætti kl. 2 á mánudegi. Hins vegar látum við þetta yfir okkur ganga því að hér ræður að sjálfsögðu hnefarétturinn. Stjórnarliðar hafa miklu meiri þingstyrk en stjórnarandstaðan, sem öllum er kunnugt um, og þar af leiðandi geta þeir ráðið þinghaldinu, en við mótmælum þessu háttalagi eftir sem áður.