07.01.1988
Efri deild: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3811 í B-deild Alþingistíðinda. (2707)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 1. minni hl. sjútvn. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Það er að sumu leyti að maður sé hálffeiminn að koma í ræðustól á hv. Alþingi eftir að aðalfjölmiðill okkar, Sjónvarpið, hefur lýst því yfir að umræðan á hv. Alþingi sé fyrst og fremst á þann veg að það sé verið að endurtaka sömu hlutina dag frá degi og ekki aðeins að Sjónvarpið sé að lýsa því yfir heldur er það svo smekklegt að viðkomandi fréttamaður hefur það eftir starfsmanni Alþingis að hlutirnir séu á þann veg hér á hv. Alþingi. Að koma í ræðustól og hafa fengið slíkar trakteringar frá slíkri stofnun, eins og við hljótum að ætlast til þess að ríkissjónvarpið okkar sé, er einkennileg tilfinning.

Ég veit að ef hv. þm. og formaður þingflokks Alþfl. hefði verið í útvarpsráði áfram mundi hann hafa tekið þessa umræðu upp á þeim vettvangi og ég vænti þess að einhverjir aðrir geri það, að við eigum það ekki yfir höfði okkar að starfslið Alþingis sé tengt saman við skoðanir einhverra fréttamanna. Ég vildi láta þetta koma fram í upphafi minnar ræðu í sambandi við kvótamálin, en einmitt þessi traktering sjónvarpsfréttamannsins tilheyrði umsögn hans um umræðu um kvótamálið eða fiskveiðistefnuna í Nd. í gær. Ég hef ekki í annan tíma að mínu mati séð ómerkilegri frétt á skjá sjónvarpsins en þá frétt sem ég horfði á frá Alþingi í gær.

Nú þegar frv. um stjórn fiskveiða hefur hlotið þá afgreiðslu að fara á milli deilda og er komið til einnar umræðu í hv. Ed. er ekki úr vegi að fjalla lítillega um frv. og umfjöllun um það bæði á undirbúningsstigi og á hv. Alþingi. Öll hefur meðferð málsins frá hendi ríkisstjórnarinnar borið með sér að um það hefur ekki verið samstaða milli ríkisstjórnarflokkanna, hvorki við upphaf umræðna í september, við umfjöllun í þinginu og afgreiðslu milli deilda þingsins né við lokaafgreiðslu, kannski allra síst, þótt atkvæði séu greidd frv. með hangandi hendi til að þóknast ráðherragengjum flokkanna og sú afstaða jafnvel réttlætt með því að allt sé komið í tímaþröng og þess vegna vonlaust með allar grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórninni, því verði að samþykkja frv. frekar en ekkert.

Það er um það bil hálft ár, sex mánuðir liðnir frá því að núv. ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum. Undanfari stjórnarskiptanna voru kosningar til Alþingis. Framsfl. og Sjálfstfl. töpuðu fylgi. Þriðji stjórnarflokkurinn, Alþfl., bætti við sig fylgi. Það má a.m.k. segja að svo hafi verið með Alþfl. að nafninu til. Það er því eðlilegt að tekið sé tillit til kosningayfirlýsinga Alþfl. nokkuð umfram þær meiningar sem tapflokkarnir komu með sem arf frá fyrri ríkisstjórn. Ég tel því rétt að lofa hv. deildarþm. að heyra hverju lýst var yfir í Vestfjarðakjördæmi fyrir kosningarnar í vor, yfirlýsingu Alþfl. þar sem frambjóðendur Alþfl. lofuðu því að styðja enga ríkisstjórn sem mundi standa að framlengingu þeirra kvótalaga sem nú er verið að samþykkja á hv. Alþingi. Ég mun, með leyfi hæstv. forseta, lesa þessa auglýsingu Alþfl. sem birtist í 13. tölublaði Vestfirska fréttablaðsins. Hún er á þann veg: Efst stendur „Alþýðuflokkurinn“ og þar er mynd af hinni víðfrægu kratarós:

„Góðu Vestfirðingar!

Sá þáttur stjórnarstefnunnar sem valdið hefur Vestfirðingum þyngstum búsifjum er kvótakerfið. Sjálfstfl. og Framsfl. lögfestu þetta kerfi og hafa staðið vörð um það síðan. Matthías Bjarnason og Steingrímur Hermannsson greiddu kvótakerfinu báðir atkvæði. Þorv. Garðar Kristjánsson og Ólafur Þ. Þórðarson hafa í fjögur ár stutt kvótamálaráðherrann. Það þýðir ekkert fyrir þessa menn að ætla nú að koma ábyrgðinni af sínum herðum með því að afneita sinni eigin fortíð. Þeir bera fulla ábyrgð á kvótanum og afleiðingum hans. Kvótamálaráðherrann þeirra berst nú fyrir því að lögleiða kvótastefnuna áfram næstu þrjú ár.“ — Þeir voru framsýnir þeir alþýðuflokksmenn.

„Hann telur sig hafa stuðning við þá stefnu í flokki sínum, Framsfl., og telur sér áframhaldandi stuðning vísan í Sjálfstfl. Þannig ætlar hann að ganga frá málinu þegar eftir kosningar.

Alþfl. á Vestfjörðum er alfarið andvígur kvótakerfi íhalds og framsóknar. Til þess að taka af öll tvímæli og til þess að afstaða okkar liggi skýrt og ótvírætt fyrir áður en gengið er til samninga um stjórnarmyndun að kosningum loknum lýsum við því yfir að Alþfl. á Vestfjörðum mun enga þá ríkisstjórn styðja sem ætlar sér að framlengja kvótakerfi ríkisstjórnarinnar. Þessi afstaða er einföld, skýr og afdráttarlaus. Til staðfestingar á henni ritum við hér undir nöfn okkar.

Ísafirði, 30. mars 1987.

Karvel Pálmason.

Sighvatur Björgvinsson.

P.S. Ef þú styður þessa stefnu skaltu styðja okkur.

Þú tryggir ekki eftir á.“

Það er aðeins að maður hugsi til þeirra nafna sem hv. frambjóðendur og núv. þm. Alþfl. nefna í þessari yfirlýsingu sinni. Þeir nefna þar nöfn hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, Þorv. Garðars Kristjánssonar og Ólafs Þ. Þórðarsonar og benda á að þetta séu stuðningsmenn kvótamálaráðherrans. Ég vil ekki segja það um Karvel Pálmason, en hvað er hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og allur Alþfl. að gera annað en að styðja frv. sem hér liggur fyrir til umræðu nú, hefur stutt það hér í deildinni og hefur stutt það í Nd.? Stóru orðin sem í þessari yfirlýsingu eru og voru hafa þeir ekki staðið við.

Kosningayfirlýsingarnar um fiskveiðistefnuna voru nokkrar og fleiri en þessar og flestar á þann veg að ýmsu þyrfti að breyta frá stefnu síðustu fjögurra ára. Þar voru yfirlýsingar sumra frambjóðenda Alþfl., núverandi þm. flokksins, ákveðnastar. Þeir voru ekki margir frambjóðendur sem lýstu yfir stuðningi við kvótakerfið. Það þótti ekki vænlegt til atkvæðisöflunar. Það kom líka í ljós við myndun ríkisstjórnarinnar að óbreytt fiskveiðistefna naut ekki stuðnings hinna nýkjörnu þm. Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. Ekki hefur annað heyrst en fullkomin samstaða hafi verið í þingmannaliði ríkisstjórnarinnar um þann kafla malefnayfirlýsingar stjórnarinnar sem fjallar um fiskveiðistefnuna og sá kafli hafi jafnvel verið sá hluti starfsáætlunarinnar sem hvað mest ánægja var með og sá kafli sem almenningur taldi líklegast að staðið yrði við af stjórnarflokkunum.

Í starfsáætluninni er tekið fram að fiskveiðistefnan verði tekin til endurskoðunar í nefnd og sú endurskoðun skuli beinast að því hvernig og hverjum veiðiheimildir skuli veittar, hvernig taka megi meira tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnu, hvernig auka megi svigrúm til endurnýjunar í sjávarútvegi og nefndin skuli einnig endurskoða og taka afstöðu til hvers konar reglur skuli setja um færslu veiðiheimilda milli aðila og hve lengi meginreglur um stjórn fiskveiða skuli gilda.

Það vantaði ekki að það voru fyrirheit um miklar lagfæringar á fiskveiðistefnunni sem í gildi var. Það átti að taka á þeim þáttum fiskveiðistefnunnar sumum hverjum sem reynst höfðu illa. Það átti að fjalla um hver ætti fiskinn á miðunum, hvernig gæta mætti byggðasjónarmiða, hvernig tryggja mætti endurnýjun og framþróun um færslu veiðiheimilda milli aðila og um gildistíma allra ákvæðanna. Það var beðið. Júlí leið, ágúst leið og það var komið fram í september. Þá fréttist af því að sjútvrh. væri að undirbúa skipun nefndar til að fjalla um fiskveiðistefnuna. Hinn 16. sept. kom þessi nefnd saman til fyrsta fundar. Sjútvrh. setti þennan fund. Gat hann þess að samkvæmt starfsáætlun ríkisstjórnarinnar skuli fiskveiðistefnan endurskoðuð og stefnan mörkuð er taki gildi í upphafi næsta árs. Þá nefndi ráðherra þau atriði gildandi laga um fiskveiðistefnu sem ráðuneytið og þá trúlega hæstv. ráðherra sjálfur teldi að þyrfti að ræða sérstaklega. Ég bið hv. þm. að taka vel eftir því hvað það var sem ráðherra nefndi þegar hann fór að telja upp hverju þyrfti að breyta í fiskveiðistefnunni.

Það voru reglur um sóknarmark, úthafsrækju, fjölgun smábáta, gámafisk, millifærslur og aflakvóta og gildistíma laganna. Stefna ráðuneytisins og ráðherra var sem sagt ekki sú sama og ríkisstjórnarinnar. A.m.k. nefndi ráðherra ekki að nefndin ætti neitt að ræða hvernig og hverjum veiðiheimildir skuli veittar, hvernig gæta skyldi byggðasjónarmiða eða hvernig tryggja mætti endurnýjun og athafnafrelsi og svigrúm í sjávarútvegi.

Eftir að ráðherra hafði farið nokkrum orðum um hugmyndir og stefnu ráðuneytisins gaf hann Jakobi Jakobssyni orðið og var það sem eftir var fundartíma notið upplýsinga frá fiskifræðingum um ástand fiskistofna. Strax á fyrsta fundi svokallaðrar ráðgjafarnefndar hafði því hæstv. sjútvrh. sjálfur gefið vísbendingu í þá átt að stefna hans og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar væri tvennt ólíkt. Fleira skrautlegt átti eftir að heyrast, þó ekki fyrr en á 3. fundi nefndarinnar, 30. sept.

Annar fundur var hálfgert plat. Í ljós kom að verkefni fyrir fundinn voru ekki tilbúin, en þau höfðu átt að vera skýrsla Þjóðhagsstofnunar, viðskiptadeildar Háskóla Íslands og Raunvísindastofnunar Háskólans um efnahagsleg áhrif gildandi stjórnar fiskveiða. Vinna við þessa skýrslu hafði dregist. Einnig var Hafrannsóknastofnun ekki tilbúin með skýrslur um hörpudisks- og úthafsrækjustofna.

Þriðji fundurinn fór í að fjalla um þessi verkefni. Það kom sem sagt í ljós að fyrir nefndina átti ekki að leggja skýrslur til athugunar um þá þætti fiskveiðistjórnunar sem taldir voru upp í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar og þar talið að þyrfti að endurskoða heldur voru nú lagðar fyrir nefndina skýrslur um þau atriði fiskveiðistefnunnar sem ekki var teljandi ágreiningur um og skiptir engum sköpum í framkvæmd fiskveiðistefnu. Þeir þrír mánuðir sem nú voru liðnir frá birtingu starfsáætlunar ríkisstjórnarinnar höfðu ekki verið notaðir til að skoða áhrif og afleiðingar þeirra þátta fiskveiðistefnunnar sem átti að endurskoða samkvæmt starfsáætluninni heldur voru fyrir forgöngu hæstv. sjútvrh. og að hans ósk fyrrgreindar stofnanir fengnar til að gera útreikninga og semja skýrslur um allt aðra hluti. Skýrslur ráðherra hafa svo verið óaðskiljanleg fylgiplögg lagafrv. ríkisstjórnarinnar um næstum óbreytta framlengingu á fiskveiðistefnu síðustu tveggja ára.

Þessi vinnubrögð vöktu nokkra undrun hjá mörgum, jafnt stjórnarsinnum sem stjórnarandstæðingum. Og tíminn leið. Sá tími sem nota átti til endurskoðunar var raunverulega liðinn. Þeir sem breyta ætluðu fiskveiðistefnunni höfðu verið hafðir að flónum. Þeir sem höfðu tekið mark á starfsáætlun ríkisstjórnarinnar um að fiskveiðistefnan yrði endurskoðuð fundu fyrir því að þeir höfðu verið of auðtrúa. Það var aldrei meiningin að breyta neinu. En kannski var enn þá von.

Hinn 7. okt. vísaði fulltrúi þingflokks Alþfl. til starfsáætlunar ríkisstjórnarinnar og verkefnis endurskoðunarnefndar stjórnarflokkanna. Í framhaldi af þessari tilraun fulltrúa Alþfl. í ráðgjafarnefndinni, sem var reyndar enginn annar en formaður þingflokks Alþfl., hv. 3. þm. Vesturl. Eiður Guðnason, var önnur nefnd skipuð. En hafi ráðgjafarnefndin gert lítið annað en láta tímann líða gerði þessi seinni nefnd enn minna.

Verklag þessara tveggja nefnda var þannig að ekki var gert ráð fyrir neinni niðurstöðu, engum verkalokum. Umræða var sett á svið að því er best varð séð aðeins til þess að geta sagt að umræða hafi átt sér stað, samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila.

Fyrst svona fór í nefndum og endurskoðunin gleymdist, var þá ekki allt í lagi? Voru nokkrir gallar á kvótakerfinu? Ekkert sannar betur en að svo er og svo var en starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. Jafnvel þegar verið var að mynda ríkisstjórn var reynt að fela vandamál og erfiðleika frekar en að gera meira úr þeim. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar fór mjög varlega í það að nefna ókosti kvótakerfisins og hvað það væri sem þyrfti að endurskoða, enda var það svo að tveir stjórnarflokkanna báru ábyrgð á fiskveiðistefnunni frá fyrri ríkisstjórn. Í starfsáætluninni var því ekki nefnt nema það allra nauðsynlegasta, en það var þó þetta:

1. Það þurfti að endurskoða hverjum veiðiheimildir væru veittar. Efast er um að rétt sé að veita eigendum fiskiskipa veiðiheimildir. Með því sé verið að ráðstafa sameign þjóðarinnar til fárra aðila sem síðan leiðir af sér margháttaða annmarka. Hér er sem sagt fyrsti ágalli kvótakerfisins sem ríkisstjórnin taldi endurskoðunarverðan. En þetta var ekki rætt. Engin skýrsla var um þennan þátt með frv. sjútvrh.

2. Kvótakerfið hafði leitt af sér margháttuð byggðavandamál. Ríkisstjórnin taldi að taka þyrfti tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnu. Vandamálin blöstu við, Suðurnes, Grundarfjörður, Patreksfjörður, og einnig byggðamál tengd smábátaútgerð víða um land, í Grímsey, Bakkafirði, Borgarfirði og víðar. Byggðasjónarmið skulu tengjast mótun fiskveiðistefnu, var annar punktur í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. Svo mörg voru þau orð og endurskoðun lengdist.

3. Auka athafnafrelsi og svigrúm til endurnýjunar. Kvótakerfið gerir ekki ráð fyrir athafnafrelsi né svigrúmi til endurnýjunar og því er sleppt að endurskoða það. (HBl: Þessu „ekki“ var nú ofaukið.)

4. Færslur veiðiheimilda milli aðila. Þarna höfðu verið margháttuð vandamál. Undirtektir með þau, hv. þm.: Enga endurskoðun.

5. Hve lengi meginreglur um stjórn fiskveiða skuli gilda. Vandamálið rætt án niðurstöðu. Ja, án niðurstöðu segi ég. Sjálfstfl. hafði lýst því yfir að hann hefði komist að niðurstöðu og það skyldu verða tvö ár, en Sjálfstfl. samþykkir í dag þrjú ár. Trúlega er það endurskoðun á fyrri afstöðu.

Fjórir af fimm ágöllum kvótakerfisins sem ríkisstjórnin taldi þörf á að endurskoða 8. júlí í sumar eru enn til staðar í því frv. um stjórn fiskveiða sem hér er til einnar umræðu eftir umfjöllun í hv. Nd. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. frá því að það var lagt fram eru smávægilegar og snerta ekki þá þætti sem nefndir eru í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. Og ágallar kvótakerfisins voru fleiri en þeir sem taldir eru upp í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar eru af skiljanlegum ástæðum ekki nefndir þættir eins og þeir að höfuðmarkmið fiskveiðistjórnar, að forðast ofveiði, nýta fiskistofna á sem hagkvæmastan hátt, hefur mistekist.

Þar er heldur ekki nefndur sá þáttur ráðherrans sjálfs, hið mikla vald sem hann sækist eftir og útfærir mörk þess eftir eigin vild. Hvorugur þessara þátta er nefndur sem endurskoðunarverkefni á vegum ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, enda kannski ekki von þar sem þá hefði verið erfitt um vik að leyfa sumum hæstv. ráðherrum að sitja áfram í sínum fyrri ráðherrastólum.

Í umræðum um efnahagsmál er ekki reynt að leyna því að draga þarf úr sókn í þorskstofnana árið 1988. Það er því staðreynd að eftir að framfylgt hefur verið þeirri sömu fiskveiðistefnu og enn er lagt til að búið verði við næstu þrjú ár hefur ekki tekist að byggja upp veiðistofn þorsksins þannig að hægt sé að halda fram jafnri veiði milli ára, hvað þá auka hana sem eðlilegt væri. Þetta gerist við bestu líffræðilegar aðstæður í hafinu umhverfis landið. Meðalþungi þess þorsks sem veiðist á Íslandsmiðum og landað er hér á landi er kominn niður fyrir það sem áður hefur þekkst. Á fiskislóð þar sem áður var árvisst að veiddist stór gæðaþorskur á vetrarvertíð er nú næstum ördeyða.

Vald ráðherra hefur verið að aukast ár frá ári. Á vegum sjútvrn. eru starfandi eftirlits- og rannsóknarmenn til þess að fylgjast með framkvæmd laga og reglugerða. Það er ekki auðvelt að gera sér grein fyrir því hve vald ráðherra er margþætt. Ég skal þó nefna nokkra þætti, en ég tek fram að sú upptalning er ekki tæmandi.

1. Ráðherra ákveður hvað veiða skal mikið af hverjum fiskstofni innan ákveðins tímabils.

2. Ráðherra úthlutar veiðileyfum til skipa eða vinnslustöðva. Hann hefur áður samið og gefið út reglugerð um hvernig sú úthlutun skuli eiga sér stað.

3. Ráðherra lætur fylgjast með hverjum veiðileyfishafa, hvort farið sé eftir ákvæðum veiðileyfis um aflamagn, veiðiaðferð o.s.frv.

4. Ráðherra getur svipt viðkomandi veiðileyfishafa veiðileyfi ef veiðileyfishafi gerist brotlegur að mati ráðherra.

5. Ráðherra getur gert ólöglega veiddan sjávarafla upptækan. Í lögunum er það tekið fram að sannanir þurfi að liggja fyrir um að afli sé ólöglegur til þess að ráðherra geti beitt þessu valdi sínu. Ég er ekki alveg viss um hvort sá bókstafur laganna blífur hjá ráðherra nú orðið.

6. Ráðherra hefur hafið rannsókn um meinta ólöglega veiði sjávarafla án þess að nokkur vísbending hafi átt sér stað um að um slíkt hafi verið að ræða.

7. Ráðherra ákærir fyrir brot og meint brot um ólöglega veiði, þ.e. ráðherra ákærir jafnvel þótt sannanir liggi ekki fyrir.

8. Ráðherra úrskurðar um upptöku andvirðis ólöglegs afla eða meints ólöglegs afla, þ.e. ráðherra úrskurðar um upptöku jafnvel þótt sannanir liggi ekki fyrir.

9. Ráðherra úrskurðar kærur vegna úrskurðar hans sjálfs.

10. Ráðherra getur krafist fjárnáms og aðfarar til greiðslu á úrskurðuðu andvirði ólöglegs sjávarafla áður en sakborningur hefur möguleika á að fá málið afgreitt frá dómstólum.

Og ráðherra getur eftir að hafa fengið samþykkt það frv. sem hér er til lokaafgreiðslu krafið viðkomandi aðila um að láta ráðuneytinu í hendur allar þær upplýsingar sem unnt er að láta í té og nauðsynlegar eru taldar vegna eftirlits með framkvæmd þeirra laga sem úr þessu frv. eiga að verða.

Hér læt ég ótalið annað um vald ráðherra. Þó er ekki úr vegi að minna á að undir sjútvrh. heyra nokkrar stofnanir, t.d. Hafrannsóknastofnun og Ríkismat sjávarafurða.

Þessi tíu atriði um valdsvið sjútvrh., sem ég hef hér nefnt, eru svo hvort fyrir sig allvíðfeðm og mjög teygjanleg. Reglugerðarákvæðum getur ráðherra breytt. Úthlutun veiði- og vinnsluleyfa er með þessum takmörkunum í þetta skipti, með öðrum takmörkunum næst o.s.frv. Núv. sjútvrh. hefur sífellt fengið meira og meira vald í hendur og hann hefur sett upp heilmikið eftirlits- og rannsóknarkerfi til stuðnings því valdi sínu. Hluti af þessu liði hefur í fjölmiðlum fengið á sig nafnið kvótalögregla. Það er því ekki nema von að spurt sé hvort það sé ekki vafasöm þróun í lýðræðisríki og hvort réttarkerfið sé ekki að verða svolítið skrýtið þegar pólitískur ráðherra hefur í þjónustu sinni lið, hvort sem það er kallað kvótalögregla eða eftirlitsmenn, lið sem er án skilgreiningar á valdsviði þess, rétti þess eða skyldum. Réttur ráðuneytisins og vald er aukið sí og æ, en minna og í sumum tilfellum alls ekkert er hugsað um rétt þess sem undir þetta vald er settur eða þarf að hafa viðskipti við það. Og ekki nóg með að löggjafinn tryggi nógu vel rétt þeirra sem undir pólitískt framkvæmdarvald þurfa að sækja heldur gerir slíkt ofurvald gagnvart heilli atvinnugrein það að verkum að viðkomandi aðilar, sem hafa verið misrétti beittir af slíku valdi, veigra sér við að leita réttar síns gagnvart því af ótta við að eiga erfiðara með að leita eftir rétti sínum á öðrum sviðum hjá þessu sama valdi. (Gripið fram í.) Á ég að endurtaka? Ég skal með ánægju gera það, hv. þm., og endurtaka þetta til að undirstrika vald ráðherra gagnvart þessum stóra hóp manna: Það er ekki nóg með að löggjafinn tryggi ekki nógu vel rétt þeirra sem undir pólitískt framkvæmdarvald þurfa að sækja heldur gerir slíkt ofurvald gagnvart heilli atvinnugrein það að verkum að viðkomandi aðilar, sem hafa verið misrétti beittir af slíku valdi, veigra sér við að leita réttar síns gagnvart því af ótta við að eiga erfiðara með að leita eftir rétti sínum á öðrum sviðum hjá þessu sama valdi.

Ég er ekki í neinum vafa um að þeir sem voru sammála um að koma fyrrnefndum fjórum endurskoðunarákvæðum um fiskveiðistefnuna inn í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar töldu ekki síður nauðsynlegt að endurskoða þá tvo þætti sem ég hef verið að fjalla um. Það voru í fyrsta lagi mistökin í sambandi við sóknina og uppbyggingu veiðistofns þorsksins og í öðru lagi hið síaukna og mikla vald sjútvrh.

Áður en ég hverf frá þessum þáttum langar mig að leggja spurningar fyrir hæstv. sjútvrh. Ég taldi rétt fyrir umræðuna að lofa sjútvrh. að sjá þessar spurningar þannig að ég væri ekki svo seint að kvöldi að laumast neitt að ráðherranum með þær spurningar sem ég er hér að koma með þannig að ég vænti þess að í lok umræðu muni ráðherra geta svarað þessum spurningum mínum.

1. Hefur ráðherra í hyggju að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir til að stöðva eða draga verulega úr sókninni í smáþorskinn, t.d. með stækkun á möskva í trolli og snurvoð eða eftir öðrum leiðum?

2. Mun ráðherra verða við óskum sjómanna og útgerða og fiskvinnslu við Breiðafjörð að heimila ekki minni möskva í þorskanetum á Breiðafjarðarmiðum en 7 tommu frá 1. janúar til 1. maí?

3. Hefur ráðherra áformað einhverjar aðrar aðgerðir til að tryggja stærð veiðistofns þorsksins og sem jafnasta en frekar aukna veiði úr þeim fiskstofni?

4. Mun ráðherra, ef og þegar þetta frv. verður að lögum, tryggja að útgerðarmenn, skipstjórar, kaupendur afla svo og umboðsmenn og útflytjendur fái frá ráðuneytinu allar þær upplýsingar sem þeir óska eftir og telja sér nauðsynlegar vegna stöðu sinnar gagnvart ráðuneytinu í sambandi við framkvæmd laga og allt það sem hér er nefnt verði afhent ókeypis og án óeðlilegra tafa frá sjútvrn.? Þessi fsp. er raunveruleg endurtekning á 17. gr. frv., en snýr að þolendum gagnvart ráðuneytinu.

Þar sem ég tel sjálfgefið að þessi síðasta spurning mín fái jákvætt svar hef ég hug á að vita hvort ráðherra veit nokkuð um tvö bréf sem ég minntist á við 2. umr. í hv. deild. Annað bréfið var frá ráðuneytinu, hitt til ráðuneytisins. Ég geng reyndar út frá því sem vísu að ráðherra muni hér og nú upplýsa mig um það sem ég spyr um.

Þá spyr ég hæstv. ráðherra um bréf sent frá ráðuneytinu 10. nóv. 1987. Þar lætur ráðuneytið frá sér fara eftirfarandi m.a., sleppt er nafni báts úr tilvitnuninni. Tilvitnunin er ekki í beinum tengslum við annað efni bréfsins og hefst nú lestur úr bréfi ráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Varðandi það erindi að ráðuneytið láti yður í té afrit af bréfum varðandi kvótaúthlutun til útgerðar mb. .. . vill ráðuneytið taka fram að öll bréf sem varða úthlutun á kvótum til einstakra skipa eru send eigendum þeirra. Því munuð þér hafa undir höndum öll þau bréf sem varða kvótaúthlutun vegna mb.“

Spurningin er: Mega þeir sem viðskipti eiga við sjútvrn. og hafa af einhverjum ástæðum glatað bréfum varðandi lögbundna kvótaúthlutun eða öðrum gögnum frá ráðuneytinu eiga von á því að fá svipað svar?

Þá spyr ég hæstv. sjútvrh. um hvenær megi vænta svars við bréfi sem sent var ráðuneytinu 30. okt. sl. og beðið var um ljósrit af nótu sem ráðuneytið hafði upplýst um í bréfi að væri í gögnum þess, en sú fullyrðing féll ekki heim og saman við bókhald þess fyrirtækis sem nótuna átti að hafa gefið út. Ég spyr: Hvenær má viðkomandi fyrirtæki eiga von á því að fá ljósrit af þessari nótu sem ráðuneytið telur sig hafa undir höndum? Afrit af þessum tveimur bréfum bauð ég ráðherra áðan, en hann skilaði þeim aftur. En ég endurtek að ég vænti þess að ég fái fullkomin svör við þessum fsp.

Herra forseti. Ég mun halda áfram að ræða um umfjöllun og undirbúning frv.

Mikil umræða hefur verið á undanförnum mánuðum og reyndar árum um fiskveiðistjórnina og þó sérstaklega um ókosti kvótakerfisins. Ýmsar tillögur hafa komið fram um breytingar. Ég hef haldið því fram og það er skoðun mín enn, þótt ég beri hana ekki fram í tillöguformi nú við þessa umfjöllun um fiskveiðistefnuna, að sókninni í þorskinn og botnfiskinn eigi eingöngu að stjórna með takmörkun á úthaldi veiðiskipa og veiðarfæranotkun út frá gæðasjónarmiðum og afla. Horfið verði frá þeirri kraftasókn, sem allt byggist á nú, til mannlegra vinnubragða til jafns við aðrar atvinnugreinar. Fyrst og fremst verði stefnt að því að halda hráefnisgæðum okkar góðu fisktegunda óskertum við veiðar og vinnslu alla leið til neytandans. Slík stjórn á fiskveiðum mundi forða okkur frá ofveiði, skapa aukin verðmæti og treysta markaðsstöðu okkar á bestu og eftirsóknarverðustu mörkuðum.

Eftir að ríkisstjórnin gaf út sína starfsáætlun fór svo fyrir mér, sjálfsagt eins og flestum öðrum, að ég taldi sjálfsagt að bíða með tillögugerð og umfjöllum þar til sæist hvað úr endurskoðun ríkisstjórnarinnar kæmi. Ég þori að fullyrða að því hafi verið almennt treyst að allsherjarendurskoðun færi fram á kvótakerfinu og að leitað yrði breiðrar samstöðu um nýtt eða breytt kerfi. Ég hef þegar lýst þeim vinnubrögðum sem gerðu þær vonir að engu. Einmitt af þeirri ástæðu að treyst var á endurskoðun á fiskveiðistefnunni undir forustu ríkisstjórnarinnar er líklegt að ýmsir aðilar hafi verið verr undirbúnir til að opna umræðu um endurskoðun en annars hefði verið og fyrirheit ríkisstjórnarinnar hefðu ekki legið fyrir.

Á fundum ráðgjafarnefndarinnar komu fram tillögur um breytingar á úthlutun veiðiheimilda frá þeim aðilum sem kallaðir eru hagsmunaaðilar á þessum vettvangi. Með leyfi forseta vil ég lesa nokkrar tilvitnanir úr fundagerðum ráðgjafarnefndarinnar. (Forseti: Ég , hafði hugsað mér að gefa matarhlé milli 7 og 9. Á ræðumaður svo lítið eftir af ræðunni að það taki því að ljúka því nú eða má ég biðja ræðumann að gera hlé á máli sínu þar til kl. 9?) Það verður að sjálfsögðu orðið við óskum forseta.

— [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar fundi var frestað hér til að gefa matarhlé í hv. deild, þá var ég í ræðu minni að segja frá afstöðu ýmissa fulltrúa á fundum ráðgjafarnefndarinnar til þess að vekja athygli á því að ekki hafi allir hagsmunaaðilar endilega verið sammála þeirri fiskveiðistefnu og talið þá fiskveiðistefnu rétta sem við höfum búið við og þá líklegast ekki þá stefnu sem nú stefnir að því að verði samþykkt. Ég vil, með leyfi forseta, koma með nokkrar tilvitnanir og þá fyrst í fulltrúa Sambandsfrystihúsa.

Árni Benediktsson, sem var fulltrúi Sambandsfrystihúsa, taldi mikilvægt að sporna við tilhneigingu til stækkunar flota sem færi sívaxandi. Miklar breytingar hefðu átt sér stað á flestum sviðum sjávarútvegs, þar á meðal flutningum á fiskmarkaði í Evrópu. Því yrði að grípa til aðgerða til að finna jafnræði milli vinnslu og veiða.

Hann taldi rétt, ég bið þm. að taka eftir, hann taldi rétt að hafa gildistíma laganna ótímabundinn þannig að menn gætu treyst því að halda sinni hlutdeild í leyfilegri veiði þó svo að þeir færðu kvóta á milli skipa. Enn fremur taldi hann að bátar undir 10 brl. ættu að fá ákveðið meðaltal sem hlutdeild af heildarveiði ákveðinna ára. Síðan yrði Landssambandi smábátaeigenda falið að ákveða og útfæra skipulag veiðanna.

Að síðustu kom hann fram með hugmynd þess efnis að fulltrúar fiskvinnslu fengju einn fulltrúa í samráðsnefnd.

Allar eru þessar ábendingar Árna á þann veg að um beina breytingu hefði verið að ræða á því frv. sem við erum að fjalla um núna.

Bjarni Lúðvíksson, fulltrúi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, flutti nefndinni eftirfarandi samþykkt stjórnar Sölumiðstöðvarinnar, með leyfi forseta:

„Á undanförnum missirum hefur stöðugt vaxandi óróa gætt vegna þess fyrirkomulags við stjórnun veiðanna að öllum kvótanum er nú úthlutað til útgerðar. Skapast hefur ójafnvægi milli veiða og vinnslu sem m.a. kemur fram í vaxandi átökum um ráðstöfun afla og eykur launamismun sjómanna og fiskvinnslufólks. Sú mikla hagkvæmni sem að var stefnt með því að taka upp stjórnun fiskveiða hefur ekki náðst sem skyldi og enn fer fiskiskipaflotinn stækkandi.

Brýna nauðsyn ber til að ná samstöðu um fiskveiðistefnu sem taki fullt tillit til hagsmuna fiskvinnslu og fiskvinnslufólks ekki síður en útgerðar og sjómanna. Ný fiskveiðistefna tryggi jafnframt að hagsmuna þjóðarinnar verði gætt í samskiptum við erlendar þjóðir og að stefnt verði heils hugar að því að vinnsla sjávarafla færist ekki úr landi. Innlend fiskvinnsla verði þannig efld.

Stjórn SH skorar á alla hlutaðeigandi hagsmunaaðila að láta nú þegar af innbyrðis togstreitu og snúa bökum saman um að tryggja jafnræði veiða og vinnslu, enda verður með þeim hætti betur tryggð sú hagkvæmni í sjávarútvegi sem þjóðinni er nauðsynleg til að viðhalda viðunandi lífskjörum.“

Þetta var samþykkt Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna sem Bjarni Lúðvíksson flutti ráðgjafarnefndinni og kveður þar við nokkuð annan tón en í þeim lögum sem nú stendur til að samþykkja hér innan tíðar. Þar mætti einnig Friðrik Pálsson, forstjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Með leyfi forseta vil ég lesa upp úr fundargjörð:

„Friðrik Pálsson, forstjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, taldi nauðsyn á að ræða af fullri alvöru tillögur um skiptingu kvóta á milli vinnslu og veiða. Benti hann á að mestur hluti ísfisks til Englands héldi uppi vinnslu hjá vinnslustöðvum sem byggju við hagkvæmari rekstrarskilyrði en vinnsla hér á landi og væru í beinni samkeppni við afurðir okkar. Taldi hann að 60–70% gámafisks færi í vinnslu í skjóli tollmúra EBE.“

Hér kom áhersluaukning frá forstjóra Sölumiðstöðvarinnar til viðbótar við samþykkt Sölumiðstöðvarinnar sjálfrar. Enn vil ég halda áfram lestri, með leyfi forseta, og þá lesa það sem Þröstur Ólafsson lagði til á fundunum:

„Þröstur Ólafsson lýsti yfir að umbjóðendur hans vildu ekki framlengja núverandi kerfi óbreytt. Ekki væri fýsilegt að viðhalda úthlutunarkerfi sem minnti um margt á lénsskipulag. Það fæli ekki í sér nægilega hagkvæmni og væri um margt óréttlátt gagnvart vinnslu í landi. Þótt kerfið gæti verndað fiskistofna með nokkrum undantekningum hefði það ekki bætt fullvinnslu sjávarafurða. Vinnslustöðvar væru farnar að vinna úrgangsfisk og vinna hefði minnkað víða um land. Kjör fólks hefðu víða versnað að sama skapi. Hér væri um ranglæti að ræða sem ekki væri hægt að una við og taldi hann nauðsynlegt að kvótanum yrði skipt milli fiskvinnslu og útgerða eða tryggt með öðrum hætti að vinnsla fengi aukinn hlut. Taldi hann og að finna þyrfti reglur til þess að láta kerfið fela í sér hvata til meiri hagkvæmni og fækkunar skipa. Jafnframt þyrfti að opna nýjum og dugandi mönnum aðgang að veiðum.“

Að lokum úr fórum ráðgjafarnefndar úr ályktun sambandsstjórnar Sjómannasambands Íslands, með leyfi forseta, þriðji liður þeirrar samþykktar:

„Fundurinn lýsir andstöðu við þann hluta 12. gr. frv. sem fjallar um sölu á aflakvótum. Fundurinn telur að sala á óveiddum afla eigi ekki að viðgangast þar sem slíkt bjóði aðeins upp á misrétti og gróðabrask með afla sem ekki er vitað hvort náð verður. Hins vegar getur fundurinn fallist á þann hluta greinarinnar sem fjallar um tilfærslu á kvóta milli skipa innan sömu útgerðar og innan sama byggðarlags. Þeir sem af einhverjum ástæðum geta ekki nýtt þann aflakvóta sem þeim er úthlutaður eiga að skila honum til sjútvrn. aftur. Ráðuneytið á síðan að úthluta aflakvóta sem þannig er skilað í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi.“

Ég taldi nauðsynlegt að það kæmi hér fram á hv. Alþingi að krafa um endurskoðun væri ekki aðeins ríkisstjórnarsamþykkt og tillaga allra stjórnarandstöðuflokka heldur einnig hagsmunaaðila í sjávarútvegi þó að öðru hafi verið haldið fram. Með vinnubrögðum sjútvrh. var komið í veg fyrir þessa endurskoðun og því stöndum við hér nú frammi fyrir því að samþykkt verða lög um fiskveiðistjórn sem verða ranglátari en þau sem voru fyrir, miðstýringin aukin, framlengdur ráðstöfunar- og eignarréttur á fiskimiðunum, byggðasjónarmið í engu tekin til greina, þrengt að útgerð báta undir 10 tonnum, jafnvel svo að þær aðgerðir geta komið til með að valda byggðaröskun. Svona má lengi telja.

Þegar umfjöllun lauk í undirbúningsnefndum og málið kom hér inn á hv. Alþingi þótti sumum að nú væri von um að laga mætti eitthvað og sumir voru jafnvel svo bjartsýnir að halda að ná mætti nokkrum friði um málið milli flokka, ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðu. Formenn sjútvn. beggja deilda, þeir hv. Vestfjarðaþm. Karvel Pálmason og Matthías Bjarnason, beittu sér fyrir því að svo gæti orðið. Tillögur þeirra voru að vísu mjög hógværar og til þess ætlaðar fyrst og fremst að taka af frv. sjútvrh. mestu ágallana. Þar var ekki um að ræða nema smávægilegar breytingar frá fyrri lögum. Aðallega voru brtt. þeirra félaga um breytingar á nýmælum frá fyrri lögum sem í frv. eru.

Ekki þarf að rekja gang þessara mála í sjávarútvegsnefndum þingsins né fjalla um umræður og atkvæðagreiðslur hér í þinginu. Þær eru öllum hv. alþm. kunnar, en sýna vel hvernig ráðherragengi stjórnarflokkanna hefur gefist upp á því að standa við gefin fyrirheit í starfsáætlun stjórnarinnar og um leið hvernig ráðherragengið fær flest flokkssystkini sín til að gefast upp líka og segja já og amen við þeirri fiskveiðistefnu óbreyttri sem loforð voru fyrir hendi um að skyldi tekin til endurskoðunar. (HBl: Annaðhvort væri að ráðherragengið hefði stjórnað sínum mönnum.) Ja, sumum finnst það nú ekki. Sumum finnst betra að hafa það á hinn veginn. Hverjum gefist var upp fyrir veit hv. þm. ofurvel. Það voru ekki svokallaðir hagsmunaaðilar. Það var ekki fyrir kröfu almennings eða fyrir kröfu hv. kjósenda. Ég skal ekki nefna neitt nafn. En það er auðvelt að sjá hverjir hafa gefist upp. Þeir eru nokkuð flóttalegir og líta tíðum undan eða í gaupnir sér þegar rætt er um hvað er að gerast hér á hv. Alþingi með samþykkt stjfrv. um stjórn fiskveiða. Sumir bera sig að vísu furðuvel. Það skal ekki á móti því borið að einn og einn sést þannig að hann er enn þá nokkuð uppréttur.

Herra forseti. Við erum væntanlega í lokaumræðu um þetta frv. hér í hv. Ed. Umræðan í þinginu hefur orðið meiri og betri en stjórnarliðar og sjútvrh. stefndu að með því að reyna að koma þessu máli út úr þinginu fyrir jól. Umræðan hefur þó einkennst af því að stjórnarliðar að undanskildum sjútvrh. hafa ekki mikið lagt til málanna aðrir en þeir sem fella sig ekki við frv. Ekki man ég eftir því að þm. úr Framsfl. annar en ráðherra hafi hér í hv. Ed. haft nokkuð um málið að segja.

En hvað um það. Þrátt fyrir það að gagnrýnendur frv. hafi fjallað um þetta frv. á mjög málefnalegan hátt hefur sú sérstaka tímapressa, sem á málinu hefur verið, orðið til þess að reynt hefur verið í sumum fjölmiðlum að láta líta svo út að stjórnarandstaðan hafi verið að tefja málið. Þetta er frekar á hinn veginn. Sá tími sem farið hefur í umræðu um þetta mál hefur verið of stuttur og umræðutíminn stundum ekki verið sem heppilegastur.

Almenn umræða um fiskveiðistefnuna hefur ekki getað átt sér stað sem er mjög miður. Umræðan hefur snúist fyrst og fremst um mestu ágalla frv. og þá fyrst og fremst um þann ágalla sem er nýmæli í frv. frá fyrri lögum, þ.e. breytingarnar á veiðum smábáta. En vera má að tillögurnar um skerðingu á veiðum smábáta hafi aldrei átt að gera annað en að þjóna þeim tilgangi að draga athyglina frá allsherjarendurskoðun fiskveiðistefnunnar og umræðum um aðra þætti kvótakerfisins. Hafi sú verið meiningin hefur það því miður tekist. Á sama hátt hefur tekist að fresta enn um sinn að við Íslendingar hverfum frá fiskveiðistefnu sem mun vera einsdæmi í veröldinni, fiskveiðistefnu sem hefur í för með sér efnahagsröskun, byggðaröskun, auðlindaröskun, þ.e. beina umbreytingu á okkar þjóðfélagi.

Ég vona að gæfa okkar fólks sé þó slík að stórslysi verði forðað. Sú von byggist á því að aldrei aftur verði til umfjöllunar hér á hv. Alþingi frv. sem að lögum verði sem hefur ákvæði á sama hátt og er í því frv. sem hér er fjallað um, t.d. um veiðiheimildir, um framsal veiðiheimilda, vald ráðherra o.fl. o.fl.

Herra forseti. Að lokum þetta. Ég spái því að þegar kemur fram á 21. öldina og farið verður að skoða á hlutlausan hátt stjórnmál og efnahagsþróun áratugsins 1980–1990 þá verði niðurstaða þeirrar athugunar sú að þrátt fyrir ýmis mistök landsfeðranna, mikla verðbólgu, ranga vaxtastefnu, álagningu matarskatts í upphafi árs 1988 o.fl. o.fl., þá verði ekkert sem komist nálægt mistökunum í stjórn fiskveiða þegar fáeinum aðilum var veittur réttur til að hagnýta sér fiskimiðin án nokkurrar ábyrgðar gagnvart byggðum eða fiskvinnslufólki. Fiskveiðistefnan varð þess valdandi að veiðistofn þorsksins minnkaði og trúlega hefði ekki þurft nema eitt til þrjú óhagstæð ár í hafinu til þess að minnka þorskveiðina stórlega. Vald sjútvrh. var það mikið að hann réð næstum yfir hverri hreyfingu hvers þess er að sjávarútvegi vann.

Herra forseti. Hv. alþm. Tökum því þátt í áframhaldandi umfjöllun um þetta lífsnauðsynjamál okkar þótt það hverfi nú um sinn af dagskrá þessarar hv. deildar. Almenn og breið umræða um þetta mál á næstu mánuðum og missirum mun án efa leiða til breyttrar og betri fiskveiðistefnu og ættum við þá í vonum betri umsögn eftirkomendanna um áratuginn

1990–2000 en þá umsögn sem ég tel að áratugurinn sem nú er að líða muni fá.