13.01.1988
Neðri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3967 í B-deild Alþingistíðinda. (2766)

Frumvarp um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að vekja athygli hæstv. forseta og þingdeildarinnar á því að hér er staðið að málum með nokkuð óvenjulegum hætti. Ég hafði ítrekað beðið um fund í félmn. um þetta mál, þ.e. frv. til laga um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og varð loksins orðið við þeirri beiðni þann 7. jan. sl. Þar lagði ég fram þá ósk sem minni hl. hafði áður sett fram að málið yrði sent til umsagnar sveitarstjórna og fleiri aðila. Ekki náðist samstaða um það að svo yrði gert.

Nú hafa orðið veðrabrigði til hins betra. Hér hefur formaður félmn., hv. 1. þm. Vesturl., óskað eftir að taka frv. aftur til umfjöllunar í félmn. Ég vil lýsa ánægju minni með þessa stefnubreytingu þótt auðvitað hefði verið betra að vinna málið betur áður en það var komið til 2. umr. hér í hv. deild.

Herra forseti. Nú gefst tækifæri til að skoða málið betur og senda það til umsagnar og ég reikna með að sveifarstjórnir muni bregðast vel við og senda okkur umsagnir sínar þótt tími verði sjálfsagt ekki mikill til efnislegrar umræðu á þeirra vettvangi. Eftir það má vænta þess að málið komi betur undirbúið til frekari umræðu hér í þinginu.