14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4017 í B-deild Alþingistíðinda. (2800)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég er einn þeirra manna sem eiga sæti í stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins og þar af leiðandi ætla ég að geyma mér að skýra afstöðu mína til þessarar hættuskýrslu, sem nú liggur fyrir um Áburðarverksmiðju ríkisins, þar til stjórn verksmiðjunnar hefur fjallað um hana.

En það eru tvö atriði, sem ég vildi koma hér sérstaklega að, sem hafa blandast inn í umræður um Áburðarverksmiðju ríkisins. — Og ég vildi gjarnan biðja hæstv. fjmrh. líka að taka eftir því, en ég hef reyndar á öðrum vettvangi orðið þess var að hæstv. fjmrh. hefur ekki sérstaklega mikinn áhuga fyrir starfsemi Áburðarverksmiðju ríkisins. — Það hefur m.a. komið fram í blöðum að Áburðarverksmiðjan héldi uppi verðlagi hér ílandinu og þá er það að sjálfsögðu skýrt með því að framleiðsla hennar sé dýrari en hægt væri að fá hana með öðrum hætti. Mér þykir vert að það komi hér fram að svo er ekki. — Á ég ekki að gera hlé á meðan Kvennalistinn heldur fund hér? — Það hefur verið gerð athugun á því hvert verðlag á áburði frá Áburðarverksmiðjunni er miðað við verðlag á Norðurlöndum. Þetta var gert á sl. vori og þá kom það skýrlega fram að áburðarverð hér stenst fyllilega samanburð, er jafnvel heldur lægra, heldur hagstæðara en á Norðurlöndum. Og þrátt fyrir það að þar sé stórveldið Norsk Hydro, sem er búið að leggja stóran hluta af áburðarframleiðslunni í Evrópu undir sig, þá er það þó staðreynd að norskir bændur verða að greiða eins hátt eða jafnvel hærra verð fyrir sinn áburð en íslenskir bændur.

Hins vegar þarf ekki að dylja það að Áburðarverksmiðjan átti orðið við mikla rekstrarerfiðleika að etja. Út af fyrir sig þarf það ekki að vera mikill vandi að reka ríkisstofnanir af þessu tagi ef menn setja verðið jafnóðum út í verðlagið eins og gjarnan vill verða. Hins vegar voru teknar um það ákvarðanir af Áburðarverksmiðju ríkisins að leitast við að halda verðlagi áburðarins innan almennra verðlagsmarka í þjóðfélaginu. Þetta hefur verið gert um nokkurra ára skeið og hefur verksmiðjan notið til þess nokkurs stuðnings af opinberu fé. En Áburðarverksmiðjan setti sér ýmsar aðrar forsendur, m.a. þær að bæta fjárhag verksmiðjunnar. Og það hefur einmitt gerst á síðustu árum að fjárhagur Áburðarverksmiðjunnar hefur stórlega batnað.

Það var af þessari ástæðu sem mér fannst ástæða til að vekja sérstaka athygli á ummælum hæstv. fjmrh. hér áðan. Þau komu hér reyndar eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Hins vegar á ég von á því að það verði kannski engin setning sem verður eins borin út af fjölmiðlum, Ríkisútvarpi, Ríkissjónvarpi og blöðunum, og sú fullyrðing ráðherrans að verksmiðjan skuldaði 460 millj. um þessi áramót. Þetta er sett fram án nokkurra skýringa og fyrir þá sem fara lipurlega með staðreyndir þykir mér sérstök ástæða til að skýra þessa tölu aðeins því að út af fyrir sig væri þetta mikil skuld ef engin verðmæti stæðu á bak við önnur en fasteignir. En þannig er mál með vexti að Áburðarverksmiðja ríkisins er um þessar mundir nokkurn veginn á miðju sínu framleiðslutímabili, það er nokkurn veginn jafnlangur tími liðinn frá því að hún hætti að selja áburð og þar til hún byrjar að selja áburð á næsta vori. Og langsamlega stærsti hlutinn af þessu fjármagni, eða 350 millj., er bundinn í birgðum verksmiðjunnar. Skuldir Áburðarverksmiðjunnar umfram birgðir eru samkvæmt þessu u.þ.b. 110 millj. kr.

Þetta hefði hæstv. fjmrh. náttúrlega átt að láta fylgja með fyrst hann sá ástæðu til að ræða um skuldir verksmiðjunnar, ef hann vildi að hér væri farið með sannar og réttar niðurstöður.

Það er svo annað mál og úr því hefur Áburðarverksmiðja ríkisins verið að leitast við að bæta, að eigið fjármagn hennar er of lítið. Það er auðvitað of lítið. Það væri afar þýðingarmikið að eigið fé verksmiðjunnar yrði með þeim hætti að það þyrfti ekki að fjármagna birgðirnar að jafnstórum hluta og raun ber vitni með erlendum lánum. En það haggar ekki því að þessi skuldastaða er ekki með neinum hætti óeðlileg og þegar á það er litið hvað stór hluti af þessum skuldum er valdaður með framleiðslu verksmiðjunnar, þá er fullkomlega óeðlilegt af hæstv. fjmrh. að vera með sama hætti og kom fram í ræðu hans hér áðan að láta að því liggja að af því mætti draga þær ályktanir að Áburðarverksmiðjan væri hálfgert vandræðafyrirtæki með tilliti til reksturs og efnahags.