14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4046 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

170. mál, veiting atvinnurekstrarleyfa til erlendra ferðaskrifstofa

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykv. hefur á þskj. 184 flutt þrjár fsp. til samgrh. Fyrsta spurningin: „Hve margar erlendar ferðaskrifstofur fengu atvinnurekstrarleyfi hér á landi árin 1986 og 1987?"

Samkvæmt lögunum um skipulag ferðamála nr. 79/1985 veitir samgrn. leyfi til ferðaskrifstofureksturs, enda sé stjórn hennar innlend og aðsetur hér á landi. Það er hins vegar ekki á valdi samgrn. að veita erlendum ferðaskrifstofum atvinnurekstrarleyfi hér á landi.

Síðan spyr hv. þm.: „Á hvern hátt fylgist samgrn. með því að þær ferðaskrifstofur sem hér starfa hafi til þess tilskilin leyfi frá íslenskum stjórnvöldum?"

Samgrn. fylgist eftir föngum með því, m.a. með aðstoð Ferðamálaráðs og Félags ferðaskrifstofa, að aðilar sem reka ferðaskrifstofustarfsemi hafi til þess tilskilin leyfi samkvæmt því sem áður er sagt. Sé hér átt við erlendu ferðaskrifstofurnar sem senda hingað hópa til landsins var áður sagt að sérstakt leyfi væri þeim ekki veitt. Hins vegar er að sjálfsögðu fylgst með því að þessir aðilar fari að íslenskum lögum og þeim reglum sem sett hafa verið um ferðaskrifstofur.

Þá er spurt: „Hvernig er háttað miðlun upplýsinga til ferðaskrifstofanna um lög og reglur sem hér gilda og tengjast starfsemi þeirra hér á landi?"

Í reglugerð nr. 175/1983, um eftirlit með skipulögðum hópferðum erlendra aðila til Íslands í atvinnuskyni, er getið um í 1. gr. með hvaða hætti slíkt skuli gert og hv. þm. las þá grein hér upp áðan svo ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka. En þetta ákvæði m. a. eins og reglugerðin í heild hefur verið framkvæmt með því að Ferðamálaráð hefur dreift á erlendum tungumálum til allra þeirra aðila, sem ætla má að selji ferðir til Íslands, þessari reglugerð, svo og öðrum þeim reglum sem um þetta gilda, og Ferðamálaráð hefur síðan fylgst með framkvæmd reglugerðarinnar eftir því sem kostur hefur verið á að mati Ferðamálaráðs. Mér er kunnugt um að Ferðamálaráð hefur í desembermánuði sl. endurtekið það sem það hefur áður gert og ég gat hér um, sent þær reglur sem hér skal starfa eftir til viðkomandi aðila og í framhaldi af því mun það í samráði við samgrn. fylgjast með því að eftir þeim lögum og reglum sé farið.