01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4067 í B-deild Alþingistíðinda. (2852)

159. mál, haf- og fiskveiðasafn

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 172 leyft mér að flytja till. til þál. um haf- og fiskveiðasafn en till. er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að skipa í samráði við sjútvrh. nefnd til að gera áætlun um stofnun og rekstur haf- og fiskveiðasafns. Skal safnið gefa mynd af hafsvæðunum umhverfis Ísland, eðli þeirra, lífi og lífsskilyrðum í hafinu, fiskveiðum Íslendinga fyrr og nú, ásamt annarri nýtingu og vernd auðæfa hafsins, svo og meðferð og sölu sjávarfangs fyrr og nú. Í safninu skal einnig fjallað um landhelgismál Íslendinga, þróun þeirra, baráttu Íslendinga fyrir útfærslu landhelginnar og landhelgisgæsluna. Í safninu skal beitt fullkomnustu sýningartækni sem völ er á.

Nefndin skal gera fjárhagsáætlun um uppbyggingu slíks safns, hugsanlega í áföngum. Kanna skal möguleika á að nota hluta af sýningarefni sem kjarna minni safna víðs vegar um landið og bæta þá við því sem er sérkennilegt í hverju byggðarlagi eða tengja það þeim söfnum sem fyrir eru.

Leggja skal skýrslu nefndarinnar og fjárhagsáætlanir fyrir Alþingi.“

Herra forseti. Þessi till. var einnig flutt á síðasta þingi en varð þá eigi útrædd og er því endurflutt nú. Mér þykir rétt í upphafi að árétta að hér er ekki átt við fiska- eða sædýrasafn né heldur sjóminjasafn sem þegar er fyrir hendi. Þessi till. miðar aðeins að því að nefnd geri áætlun um að koma upp haf- og fiskveiðasafni þar sem ítarlega og með þeirri bestu tækni sem völ er á væri fjallað um þennan höfuð- og undirstöðuatvinnuveg íslensku þjóðarinnar. Það er ekki tekin afstaða til þess í þessari till. hvar slíku safni skuli velja stað, en vel mætti t.d. hugsa sér að það yrði staðsett á Akranesi þar sem þegar er myndarlegt byggðasafn að Görðum. Akranes er og mikill útgerðarbær í næsta nágrenni við mestu þéttbýlissvæðin. Þangað eru og greiðar samgöngur.

Safn af þessu tagi mundi sannarlega vera áhrifamikið fræðslutæki fyrir unga sem aldna og gæfi margvíslegar upplýsingar um lífríki hafsins hér á norðurslóðum og ekki síður auðæfi þessara hafsvæða, baráttuna fyrir vernd og skynsamlegri nýtingu auðlinda hafsins og sögu landhelgisbaráttunnar frá öndverðu. Ég held að það geti ekki orkað tvímælis að það er mikil nauðsyn á fræðslu af því tagi sem slíkt safn mundi veita, ekki síst þar sem þeim fer nú fjölgandi hér á landi sem alast upp án nokkurra tengsla við það umhverfi sem tengist fiskverkun, sjósókn og sjávarútvegi.

Hjá öðrum þjóðum, sem að verulegu leyti byggja afkomu sína á siglingum og sjávarútvegi, eru í mörgum borgum söfn er tengjast sjósókn og siglingum. Ég minni á að ég hygg að í Bergen í Noregi séu a.m.k. þrjú söfn af þessu tagi, siglingasafn, fiskveiðasafn og fiskasafn. Það er sannfæring mín að ekki sé aðeins rétt að koma upp safni eins og hér um ræðir heldur sé okkur Íslendingum það beinlínis skylt. Slíkt safn mundi veita ungum sem öldnum ómetanlega fræðslu um þau mál sem tilvera íslensku þjóðarinnar og afkoma öll grundvallast á umfram allt annað.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en legg til að þessari till. verði vísað til allshn. og síðari umr.