26.10.1987
Neðri deild: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það var skaði að hæstv. forsrh. skyldi ekki vera mættur í þingsali þegar upphófst allsérkennileg umræða, fyrst með framsöguræðu hæstv. félmrh. þar sem þung orð féllu í garð samstarfsaðilanna í ríkisstjórn og síðan í svarræðu hv. 1. þm. Vesturl. og hæstv. fyrrv. félmrh. Það féllu orð eins og þau af munni hæstv. félmrh. að ráðherrann hefði orðið fyrir persónulegri lágkúrulegri gagnrýni frá oddvita annars samstarfsflokksins í ríkisstjórn. Ég er út af fyrir sig ekki sammála hæstv. félmrh. um að það breyti einhverju um eðli gagnrýninnar frá hverjum hún kemur. Lágkúruleg gagnrýni er lágkúruleg gagnrýni hvort sem hún kemur frá stjórnarandstæðingi eða samstarfsaðila í ríkisstjórn. En að segja að hæstv. félmrh. hafi orðið fyrir lágkúrulegri gagnrýni og svara með þeim hætti sem hv. þm. Alexander Stefánsson gerði er fremur óvenjulegt, a.m.k. held ég að það hljóti að vera óvenjulegt á þriðju þingviku í upphafi stjórnarferils.

Ég fagna því að hæstv. forsrh., verkstjóri ríkisstjórnarinnar, er hér mættur í þingsali og vona að hann fái sér afrit af ræðum þeirra hæstv. félmrh. og hv. þm. Alexanders Stefánssonar og kynni sér þau ummæli sem þessir samstarfsmenn hans létu falla hver í annars garð.

Ég var reyndar að segja, herra forseti, að mér fannst taka steininn úr þegar hv. þm. og fyrrv. félmrh. Alexander Stefánsson réðst með allmiklu offorsi að hæstv. félmrh. Hv. þm. talaði um ofsafullan áróður áróðursaðila sem nú fara með þennan viðkvæma málaflokk og var á honum að heyra, hv. þm. og fyrrv. félmrh., að honum þætti fjöreggið sitt, húsnæðismálin, komin í hendur hálfgildings misindismanna. Varla urðu öðruvísi skilin þau ummæli sem hann hafði uppi um þennan ofsafulla áróður og áróðursaðilana sem nú væru komnir með þetta fjöregg í hendurnar.

Það lofar ekki góðu, herra forseti, varðandi farsæla meðferð þessa mikilvæga málaflokks hér á Alþingi og í hæstv. ríkisstjórn þetta upphaf. Og er nokkur hissa á því, virðulegur forseti Nd., þó að þetta svokallaða stjfrv. um ráðstafanir í húsnæðismálum eða breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins hafi þegar verið tekið til umræðu á hinu háa Alþingi og spurt hvort hér væri á ferðinni eiginlegt stjfrv. eða ekki? Hafi menn haft ástæðu til að ræða um það undir liðnum þingsköp á hinu háa Alþingi sl. fimmtudag, er þá ekki enn frekar ástæða til að ítreka þá spurningu hér og nú: Er hér á ferðinni eiginlegt stjfrv. eða hvað?

Lýsing hæstv. félmrh. á vinnubrögðunum, á aðdraganda þess að þetta frv. lítur dagsins ljós á Alþingi, var ófögur. Af máli hæstv. félmrh. mátti ráða að frá samstarfsflokkunum hefði fyrst og fremst komið skætingur og skammir en engar efnislegar tillögur, engar brtt. um hvernig þetta frv. ætti þá að vera ef ekki eins og hæstv. félmrh. leggur til. Ekki fyrr en degi eftir að frv. kom fram á Alþingi barst loksins bréf frá Sjálfstfl. með fyrirvörum. Ég fer fram á, herra forseti, að það verði séð til þess að þetta bréf frá Sjálfstfl. verði lagt fram í umræðunni þannig að aðrir þm., sem ekki hafa það undir höndum, geti áttað sig á þessu fylgiskjali með frv., þessu sérkennilega bréfi frá Sjálfstfl., því það er hvergi getið um það í grg. né annars staðar í hinu prentaða þskj. að nokkuð sé til af þessu tagi. Það hefur komið í ljós að fylgiskjal, sem þó er ekki skráð með frv., er hér á ferðinni í formi bréfs frá Sjálfstfl. Mér þætti vænt um ef unnt yrði að verða við þeirri beiðni minni að koma því til okkar þm. sem þátt tökum í þessari umræðu.

Það mátti svo skilja á máli hæstv. fyrrv. félmrh. að frv. væri í fyrsta lagi ótímabært, það væri í öðru lagi óþarft og það væri í þriðja lagi vitlaust. Þetta er nokkuð mikið sagt því nú stendur svoleiðis á að hæstv. fyrrv. félmrh., hv. 1. þm. Vesturl., er formaður félmn. Nd. Blæs þá ekki byrlega ef þetta eru móttökurnar sem frv. á að fá, frv. sem hæstv. félmrh. leggur ríka áherslu á að fái greiða leið í gegnum þingið og færir fyrir því rök. Rökin eru fyrst og fremst þau að úti í þjóðfélaginu bíði fast að 4000 manns og fái engin svör frá Húsnæðisstofnun ríkisins um hvort og þá hve mikið lán þeir geti fengið til að afla sér húsnæðis frá þeirri stofnun. Húsnæðislánakerfi landsmanna hefur verið lokað mánuðum saman og svo stendur hæstv. ríkisstjórn þannig að málum, fullkomlega ósammála um hvernig eigi að ráða fram úr þessu. Hér koma þeir í ræðustól hver um annan þveran, stjórnarliðar, og rífast um hvernig eigi að gera þetta eða hvernig eigi ekki að gera þetta á sama tíma og ástandið úti í þjóðfélaginu er eins og raun ber vitni.

Ég er ekki sammála hv. þm. Alexander Stefánssyni um að ekki sé ástæða til að huga að húsnæðislánakerfinu og þar þurfi ekki að grípa til ráðstafana. Á honum var helst að skilja að þessi ofsafengni áróður væri það eina sem að væri, þ.e. vegna þess að ýmsir urðu til að vara við því að þetta kerfi gengi ekki upp óbreytt hafi menn sótt um lán í miklu meira mæli en ella hefði orðið og það væri vandinn. Ég gat varla skilið orð hv. þm. öðruvísi. Ég held þess vegna að það sé í upphafi umræðunnar rétt að gera sér grein fyrir því hvernig ástandið í kerfinu er. Það hefur að nokkru leyti komið fram og kom fram í framsöguræðu hæstv. félmrh. Ástandið er þannig, eins og þegar hefur komið fram, að fast að 4000 manns liggja með umsóknir hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og hafa engin svör fengið við því hver fyrirgreiðsla þeirra kunni að verða frá hinni háu stofnun. Það liggur fyrir að biðtíminn eftir lánum, biðtími þeirra sem síðast fengu svör, er kominn á þriðja ár. Það liggur fyrir að þrátt fyrir það mikla fjármagn, 5–6 milljarða á ári, sem reiknað er með að renni inn í kerfið, verður biðtíminn lengri á næstu árum en hann er í dag ef ekkert verður að gert. Því miður liggur meira að segja líka fyrir að þrátt fyrir þessar ráðstafanir og þau áhrif sem þær gætu haft mun biðtíminn skipta 25–30 mánuðum næstu árin.

En það er einn þáttur þessa máls sem hvorki hæstv. félmrh. og þaðan af síður hv. þm. Alexander Stefánsson nefndu og það eru ríkisframlögin í húsnæðiskerfið. Fram hjá þeim hluta komast menn ekki. Það er ein ástæða fyrir því hversu biðtíminn er langur að ríkissjóður hefur lagt þessu kerfi miklu minna til en reiknað var með í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Þá var gengið út frá því, á árinu 1986, á öndverðum vetri, að lágmarksframlag ríkissjóðs væri 1000 millj. á þágildandi verðlagi. Það samsvarar 1700 millj. á þessa árs verðlagi og þýðir að framlagið á fjárlögum ársins 1988 þyrfti að vera 2000 millj. a.m.k., en það er eins og kunnugt er langt í frá að svo sé. Og þetta veldur ekki bara því að biðtíminn er lengri vegna vanefnda bæði fyrri og að því er virðist einnig núv. hæstv, ríkisstjórnar á þessu samkomulagi. Þetta veldur líka því, hæstv. félmrh., að vaxtamunurinn étur upp ríkisframlagið og fer að ganga á eigið fé húsnæðiskerfisins fyrr en ella væri. Það ætti auðvitað öllum að vera ljóst.

Þess vegna taldi ég nauðsynlegt, herra forseti, að vekja rækilega athygli á að menn komast ekki fram hjá þeirri staðreynd að sá aðili sem í raun hefur brotið samkomulag sem gert var um ráðstafanir í húsnæðismálum snemma árs 1986 er ríkissjóður með því að veita ekki framlög eins og þar var gert ráð fyrir að væri nauðsynlegt, að lágmarki til 1000 millj. á þágildandi verðlagi.

Ég vil svo segja um efni sjálfs frv., herra forseti, að ég er í meginatriðum hlynntur þeirri hugsun sem þar er lögð til grundvallar. Ég held að það sé öllum ljóst að nauðsynlegt er að ná með einhverjum hætti utan um þetta kerfi og ég tel að einhverjar ráðstafanir af því tagi sem um ræðir í 1. gr. séu fyllilega réttlætanlegar. Ég ætla ekki að taka efnislega afstöðu til þeirra nákvæmlega á þessu stigi málsins, enda varla von til þess að stjórnarandstæðingar fari að gefa upp endanlega afstöðu sína til málsins áður en hv. stjórnarsinnar koma sér saman. Það væri til stórra bóta fyrir okkur sem ætlum að reyna að glöggva okkur á endanlegri afstöðu til frv. ef fyrir lægi einhver vottur af samkomulagi milli stjórnarliða um hvernig þetta á að verða.

Ég vil taka fram að gagnvart 2. gr. frv., sem í raun felur í sér að gefin skuli út einhvers konar hálfgildings lánsloforð, get ég ekki séð að hún verði til þeirra bóta sem menn ætla. Ég tel þvert á móti að það geti haft í för með sér ýmsa vankanta. Ég teldi miklu nær, vilji menn reyna að koma í veg fyrir brask með lánsloforð, að Húsnæðisstofnun sendi þá einfaldlega frá sér tilkynningu um að umsókn hefði verið móttekin og jafnframt að umsækjandi þyrfti að reikna með bið í svo og svo marga mánuði áður en hann fengi nokkur skuldbindandi svör. Ég held að hálfgildings lánsloforð eða einhvers konar ókeybréf, eins og þau hétu í gamla daga, geti sjálf boðið upp á brask, leysi ekki þennan vanda og þar af leiðandi væri miklu nær að Húsnæðisstofnun drægi það þá nær þeim tíma að sjálft lánið skuli veitt að svara nokkru sem umsækjandi geti sýnt eða farið með út á braskmarkaðinn.

Hvað varðar rétt einstakra umsækjenda er það ósköp einfaldlega þannig að það er öllum fyrir bestu að úthlutunarreglurnar séu svo einfaldar að umsækjendur þurfi engin svör frá Húsnæðisstofnun í sjálfu sér um hvort þeir fái lán eða ekki, það liggi einfaldlega fyrir og hver og einn geti athugað fyrir sig sjálfan hvar eða hve mikinn rétt hann á. (Forseti: Vegna þess að nú er komið fram á fundatíma þingflokka vildi ég spyrja hv. ræðumann hvort hann ætti langt eftir af ræðu sinni.) Mig langar, herra forseti, að reyna að ljúka við að ræða frv. efnislega og geri það kannski á einni mínútu eða svo og geymi mér þá annað sem ég kynni að vilja segja um stöðu húsnæðismálakerfisins þangað til á seinni fundi.

Með leyfi forseta vil ég segja um 3. gr. að um hana gildir í raun og veru hið sama og um 1. gr. Hún á að ganga til svipaðrar áttar, að reyna að tryggja þeim meiri forgang sem forgangsins þurfa sannarlega með. Það er út af fyrir sig alveg rétt hugsun. Ég verð að segja að ég fell í raun og veru fyrir þeim rökum hæstv. félmrh. að úr því að menn treysta sér til að takmarka með reglum sem húsnæðismálastjórn á að vinna eftir aðgengi þeirra sem lökust hafa kjörin að þessu lánakerfi ætti mönnum ekki að verða skotaskuld úr því að takmarka með sanngjörnum hætti sömuleiðis aðgengi þeirra eða öllu heldur eingöngu aðgengi þeirra sem besta hafa aðstöðuna fyrir.

Hvað varðar 4. gr., ákvæðin um vextina, verð ég að segja að mér finnst þar hreyft við stóru máli með furðu einföldum hætti. Það kemur mér á óvart að menn skuli treysta sér út í þá grundvallarbreytingu á húsnæðislöggjöfinni að taka upp breytilega vexti og jafnvel breytilega vexti innan lánaflokks með því að setja í lagafrv. tæpar tvær línur. Ég held að þar sé mörgum spurningum eftir ósvarað um útfærslu, um hvernig eigi þá að reyna að koma böndum yfir hversu breytilegir vextirnir eigi að vera o.s.frv., þannig að ég held að þar sé mikið eftir órætt áður en hin eiginlega útfærsla á því hvort eða hvernig menn skuli taka upp breytilega vexti innan lánaflokka er í höfn. Ég tek að vísu fram að hæstv, félmrh. gerði grein fyrir því að mikil vinna væri eftir við að móta endanlega stefnu í þessum efnum, en engu að síður æskir hæstv. ráðherra eftir lagaheimild til að taka þetta grundvallaratriði inn í lög um Húsnæðisstofnun. Mér er til efs að þeir verði margir sem treysta sér til að standa að því á hinu háa Alþingi nema fyrir liggi þegar kemur að afgreiðslu frv. miklu ítarlegri upplýsingar um hvernig á að standa að því.