02.02.1988
Neðri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4131 í B-deild Alþingistíðinda. (2899)

207. mál, barnalög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hér er flutt mjög þýðingarmikið mál sem ég tel að flutt sé fyrst og fremst til að bæta rétt og stöðu barna. Ég tel að það sé og eigi að vera megininntak þessa máls og að allar þær lausnir sem við leitum á þessu sviði eigi að hafa hag barnsins að leiðarljósi.

Þess vegna er það ekki að ófyrirsynju að það hafa farið fram mjög miklar umræður um þá skipan sem lögð er til í þessu frv., þ.e. að komið sé á svokölluðu sameiginlegu forræði forelda fyrir barni þegar foreldrarnir hafa slitið samvistum.

Nú er enginn vafi á því að oft gengur það friðsamlega þegar málum er skipað svo sem nú er eftir núgildandi lögum. Á hitt er þó að líta þegar foreldrum kemur saman um skilnað og um fyrirkomulag, dvalarstað og aðstöðu barna sinna eftir skilnaðinn, þá er það óneitanlega svolítið sérkennilegt að skylda þau til þess að ákveða að einungis annað þeirra fari með foreldraábyrgðina eða forsjána. Vissulega er það sem forsjána hefur eftir núgildandi lögum ekki eitt með ábyrgðina. Það eru nokkur atriði sem skylt er og eðlilegt að bera undir hitt foreldrið og þá sérstaklega ef meiri háttar ráðstafanir koma til greina, eins og t.d. ættleiðing barns, og eftir núgildandi lögum það foreldri sem ekki hefur forræði umgengnisskyldu við barnið. Ég held að það sé atriði sem mönnum sést oft yfir að umgengnisrétturinn sem um er talað er réttur sem barnið á. Það er ekki einungis eins og stundum er um talað að foreldrið hafi rétt til umgengni við barn sitt sem vissulega er, það hefur líka skyldu til þess.

Þess vegna er það að frv. gerir eiginlega ráð fyrir að ástand sem er veruleiki hjá mörgu fráskildu fólki og börnum þess verði lögfest. Ég held að það sé hagur barnanna sem í hlut eiga að þau viti að þau eiga enn þá foreldra sem bæði hafa forsjá þess eins og áður en þau skildu. Það verður þá í fleiri tilfellum komið í veg fyrir þá tilfinningu að með skilnaði foreldra sé barn allt að því svipt hinu foreldrinu eða a.m.k. samvistum og samráði við það nema vel takist til með umgengnisréttinn. Við vitum auðvitað um mörg dapurleg tilvik af því tagi að barn verður alsaklaust eins konar peð á taflborði tilfinninga foreldra sem hafa ekki getað haldið áfram sambúð sinni.

Spyrja má um nokkur atriði í því sambandi sem hér er rætt. Þá virðist mér í fyrsta lagi vera nauðsynlegt að fá upplýsingar um það frá væntanlega dómsmálaráðuneytum grannríkjanna þar sem þetta fyrirkomulag hefur verið lögfest hvernig það hefur í raun og veru reynst í framkvæmd. Við teljum ákaflega margt mæla með þessu en óneitanlega sér maður að það eru nokkur atriði sem geta komið upp og orðið vandasöm eins og t.d. ef foreldrar fá það staðfest fyrir valdsmanni að þau ætli að hafa sameiginlegt forræði og svo heldur allt að einu áfram ósamkomulagið og þrasið á þeirra einkavettvangi.

Spurning er hvort upp hafa komið sérstök vandamál af þessum ástæðum og beinlínis vegna þessarar breytingar. Enn fremur sýnist mér að það sé ekki ljóst af þessu frv. hvernig málum á að skipa ef svo fer að allt í einu séu fjórir aðilar komnir með forræði barnsins og þar af tveir barninu alls óskyldir, eða má vera að fram hjá mér hafi farið úrræði í því sambandi? Það er ljóst að eftir núgildandi lögum flyst forræði barnsins til sambýlismanns eða nýs eiginmanns eða eiginkonu eða sambýliskonu þess foreldris sem forráðaréttinn hefur nú. Ég sé ekki á frv. að þetta breytist og þetta þýðir þá að þegar fráskildir foreldrar hafa báðir forsjána fyrir barninu og báðir fráskildir foreldrar taka upp sambúð eða ganga í hjúskap með öðrum virðist forsjáin sjálfkrafa flytjast til hins nýja maka, í báðum tilvikum. Ég fæ ekki betur séð en að þetta geti leitt til afar einkennilegrar niðurstöðu á stundum. Segjum t.d. að þeir hinir fráskildu foreldrar eða kynforeldrar barnsins séu fjarvistum af einhverjum ástæðum um alllangan tíma. Þá er spurning hvernig fer um aðstöðu barnsins. Eru það þá hinir nýju stjúpforeldrar sem fara sameiginlega með forræðið eða þá ef annað foreldri er langtímum saman fjarvistum, fer þá stjúpforeldrið með forsjána ásamt hinu kynforeldrinu? Ég vænti þess að hæstv. ráðherra skýri það hvernig fer þegar svona er. Það er auðvitað ljóst af frv. að annað hvort foreldra getur krafist endurskoðunar samningsins en ég sé ekki að það sé neitt atriði sem sjálfkrafa leiðir til endurskoðunar samningsins. Það má hins vegar vera að mér hafi yfirsést það og ég játa að ég gerði mér ekki grein fyrir að frv. kæmi til umræðu nú og hafði þess vegna því miður ekki farið nægilega nákvæmlega í málið.

Það sem ég vil undirstrika sérstaklega er að þetta mál verði athugað af ýtrustu nákvæmni og það sé undirstrikað og aldrei úr minni látið líða að meginatriðið er að auka öryggi barna sem verða fyrir því að foreldrar þeirra slíta samvistum og að koma því svo fyrir að breyting á lífi barnsins verði eins lítil og kostur er.

Hér var eitt atriði enn sem reyndar fleiri þm. sem hér hafa tekið til máls minntust á og það varðar heimilisfesti barnsins. Ég sé ekki að það sé neitt því til fyrirstöðu að það sé ákveðið, að það þurfi að vera skýrt hvar heimilisfesti barnsins er, hvar lögheimili þess er, en það breytir í engu því að það geti dvalist um lengri eða skemmri tíma hjá hinu foreldrinu. Ég hefði haldið að það væru ýmis atriði í þjóðfélaginu þess eðlis að barninu væri hagur að það væri ljóst hvar heimilisfesti þess væri og að það væri ekki beinlínis á reiki. Vitanlega er hægt að gera ráðstöfun til að breyta því formlega með viðeigandi tilkynningu hverju sinni, en það þurfa að liggja fyrir skýrar reglur um það efni þegar þetta kemur til.

Og enn eitt: Lögin sem kveða á um sameiginlega forsjá og gilda á hinum Norðurlöndunum eru tiltölulega ný víðast hvar. Það er auðvitað ljóst að þau eru fyrst og fremst sett með hliðsjón af rétti þeirra barna sem eiga foreldra í óvígðri sambúð. Þetta var eitt af þeim úrræðum sem gripið var til til þess að lögfesta rétt fjölskyldna þar sem makarnir voru í óvígðri sambúð. Nú er það svo að í barnalögum okkar eru ákvæði sem auka rétt barna foreldra í óvígðri sambúð frá því sem áður var en engu að síður hygg ég að frv. sé til bóta því að það gerir, eins og ég nefndi í upphafi, hið raunverulega ástand að lögformlegu fyrirkomulagi í flestum tilvikum.