04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4211 í B-deild Alþingistíðinda. (2960)

184. mál, frárennslis- og sorpmál

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir till. til þál. á þskj. 207 um könnun á ástandi frárennslis- og sorpmála. Þessi till. er ekki borin fram að vanhugsuðu máli því að þessi mál munu verða mjög svo í sviðsljósinu á komandi árum. Það er ekki vansalaust að hugsa til þess að hér skuli í kringum allt land vera mjög slæmt ástand í þessum málum.

Ég vil sérstaklega í þessu sambandi benda á ástandið í frárennslismálum hjá fiskverkunarhúsum um allt land sem víða eru í mjög slæmu ástandi. Það hefur verið gerð úttekt á þessu, eins og allir vita, hjá hraðfrystihúsunum, hjá þeim aðilum sem fást um þau mál. Það er því mikið hagsmunamál fyrir okkur að það verði gengið með oddi og egg að þessum málum og frárennslismálin verði lagfærð og sorpmálin.

Það er ekki nokkur vafi á því að útflutningur okkar er hætt kominn í raun vegna frágangs á frárennslis- og sorplögnum. Það hefur verið birt skýrsla um það að frárennsli frá mörgum frystihúsum, eins og ég kom að áðan, er ábótavant og það er mjög mikilvægt að gert verði átak í þessum málum sem víðast á landinu. Það hefur verið látið reka á reiðanum hvað snertir þessi mál og menn hafa alltaf haldið að það væri nóg að láta þetta renna út í sjó og, eins og stendur hér í grg., lengi tekur sjórinn við.

En það er ekki svo. Lífríkið er miklu viðkvæmara en menn hafa haldið og sjórinn tekur ekkert endalaust við. Í kringum landið er þar að auki mjög viðkvæmt lífríki sem skiptir okkur miklu máli hvað varðar uppeldisstöðvar fisks og fisk á grunnsvæðum. Það er því brýnt að það sé gengið í þessi mál og þau endurbætt. Það er ekki nokkur vafi að ef fer sem horfir og við bætum ekki verulega okkar þátt í þessum efnum getum við átt á hættu að við verðum ekki taldir framleiða nógu góð matvæli fyrir þjóðir sem gera miklar kröfur um þetta, eins og Bandaríkjamenn og ýmis Evrópuríki.

Ég held því að það sé mjög tímabært að bera þetta mál fram og ætla að vona að það fái góða umfjöllun hér og það verði samþykkt að gera könnun á ástandi frárennslis- og sorpmála á öllum þéttbýlisstöðum á landinu og þeim stöðum utan þéttbýlis þar sem atvinnustarfsemi eða annað getur leitt af sér mengun.

Ég vil í þessu sambandi líka benda á það að hér hefur ekki verið gerð nein könnun eða rannsókn á kannski mesta mengunarvaldi í sjó, þ.e. laxeldisstöðvunum. Ég held að menn hafi bara rennt blint í sjóinn með þær. Og staðreynd er það að sorpið sem kemur frá þeim eða úrgangurinn er eins og í stórum bæjum, frá stórum byggðarlögum. Það hefur ekki farið fram nein líffræðirannsókn á þessum hlutum. Það veit enginn hvaða áhrif þetta kann að hafa á lífríki sjávar. Það veit enginn í raun hvort þetta getur haft stórkostleg áhrif þegar til framtíðar er litið. Það má vel vera að frárennslismálin frá laxeldisstöðvum geti haft þau áhrif að það verði dauði í lífríkinu næst ströndum landsins. Ég tel að það verði að skoða þetta mjög grannt. Við erum þó heppnir að hér eru mjög öflugir sjávarstraumar í kringum landið sem menn halda að muni skola þessu í burtu. En við höfum þó enga tryggingu fyrir því. Það er brýnt að gerð sé mjög ítarleg úttekt á þessum málum, þetta sé skoðað mjög vel. Þannig að við stöndum ekki einn daginn frammi fyrir því að við höfum mengað sjóinn það mikið að það sé hættuástand í kringum landið.

Þá er rétt að benda sérstaklega á ástandið hvað stærstu byggðarlögin varðar. Það er alveg ljóst að sorp og frárennsli er mikið vandamál þar. Ég vil minna á það að Reykjavíkurborg stendur innan skamms frammi fyrir því að pláss vantar fyrir sorphauga. Það verður vafalaust erfitt mál og ég held að það sé umhugsunarefni að tekið verði á því máli í samræmi við einhverja stefnu sem Alþingi markar. Þá verði reynt að hugsa um það sem allra fyrst hvernig á að standa að þessum málum. Frárennsli frá Stór-Reykjavíkursvæðinu er gífurlega mikið og það hafa ekki farið fram neinar verulegar athuganir á því hvaða afleiðingar það hefur. Það væri mjög brýnt að skoða það.

Víða erlendis hafa verið settar upp hreinsunarstöðvar á frárennsli. Það er mjög til íhugunar hvort það verður ekki að huga að þessu í framtíðinni. Við getum ekki látið það viðgangast að fiskimiðin, grunnslóðin, verði menguð því að þá erum við í þeirri hættu að okkar afurðir seljist ekki.

Ég ítreka svo það að lokum að ég vona að hér verði brugðist skjótt við. Við höfum í vetur orðið vitni að því að hér hafa verið bornar fram nokkrar þáltill. um mengun og ýmis mál er varða hana. Ég held að við stöndum á tímamótum og að þessi mál þurfi í heild að skoðast mjög vel því að við getum ekki staðið þannig að málum að komandi kynslóðir geti einn daginn sagt: Já, lífríkið var allt eyðilagt af þeim sem skiluðu landinu til okkar. Það er því brýnt að við hugsum um það þannig: Hreint land — fagurt land.