04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4293 í B-deild Alþingistíðinda. (2987)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Okkur þm. stjórnarandstöðunnar hefur borist óvæntur liðsauki, en ræða hv. 10. þm. Reykv. Guðmundar G. Þórarinssonar var sem hann hefði lært utanað stefnuskrá Borgarafl. áður en hann flutti og undirbjó þessa ræðu og býð ég hann velkominn til starfa með stjórnarandstöðunni.

Ég get tekið undir mjög margt af því sem hv. þm. vék að í máli sínu hér á undan. Við skulum taka fyrst fyrir vaxtaokrið og raunvaxtaguðinn sem ég hef kallað svo. Ég er nefnilega alveg sammála því að það er með ólíkindum að hér úr þessum ræðustóli og reyndar víða í fjölmiðlum er því haldið fram að 99,5% raunvextir umfram lánskjaravísitölu séu sambærilegir við það sem erlendar þjóðir kalla raunvexti af venjulegum skuldabréfalánum.

Í grg. með frv. til l. um húsnæðislánastofnanir var fylgiskjal sem sýnir lánskjör á þýskum húsnæðislánamarkaði í Frankfurt 20. okt. sl. Þar er talað um að raunvextir geti verið u.þ.b. 7%. En við hvað eru þessir raunvextir miðaðir? Þessir raunvextir eru einfaldlega reiknaðir á þann hátt að það er selt skuldabréf fyrir láninu með afföllum, vextirnir geta verið allt frá 3% upp í 5% nafnvextir af skuldabréfinu. Það er selt með einhverjum afföllum og út á það koma þessir raunvextir, 7%. Það dettur engum manni í hug að tala um einhverja lánskjaravísitölu eða verðbólgu til þess að mæla raunvextina. Þess vegna er það algjörlega ábyrgðarlaust hjal að vera að tala hér um samanburð á raunvöxtum miðað við útreikning á lánskjaravísitölu og svo þeim raunvöxtum sem gilda hjá nágrannaþjóðunum.

En þá er einmitt komið að kjarna málsins. Það er lánskjaravísitalan og fastgengisstefnan. Okkur er ætlað að taka lán og greiða þau til baka af þeim launum sem við höfum hér í þjóðfélaginu. Launin eru ekkert bætt, eins og kom svo ágætlega fram í máli hv. 16. þm. Reykv., Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur. Það hefur ekkert rautt strik verið í tengslum við kjarasamninga síðan 1. okt. sl. en lánskjaravísitalan heldur áfram á fullu. Lánskjaravísitalan var 1886 stig 1. des. sl. og þá var hún 2,44% hærri en í mánuðinum þar á undan. Síðan fór hún í 1913 stig 1. jan. sl., var það eilítið minni hækkun, 1,43%. En hún er komin á fullt aftur. 1. febr. núna er hún 1958 stig og er hækkunin 2,35%. Við sjáum því að það stefnir í þetta 25–30% verðbólgu. Ef ekkert á að bæta launin þá sjá allir hvernig það fer. Launafólkið í landinu stendur ekki undir lánskjaravísitölulánum. Og það er alveg sama þó að það séu jafnvel lánskjaravísitölulán með niðurgreiddum vöxtum eins og tíðkast í húsnæðislánakerfinu, jafnvel þó að vextir séu ekki meiri en 3,5%, það stendur enginn undir þessu. Það fara allir hér á vonarvöl. Það sem verra er að fyrirtækin, sem eiga að taka rekstrarlán til þess að rekstur þeirra geti gengið með eðlilegum hætti, þau þurfa líka að taka lán með þessum kjörum og eiga síðan að keppa við miklu, miklu ódýrari lán sem samkeppnisfyrirtæki erlendis eiga aðgang að.

Þess vegna get ég heils hugar tekið undir það með hv. 10. þm. Reykv. að það er kominn tími til að fyrirtæki og einstaklingar hér fái þá aðgang að erlendu fjármagni. Algjörlega frjálst. Það er miklu einfaldara að heimila þá erlendum bönkum að setja hér upp umboðsskrifstofur og bjóða hér lán til handa einstaklingum og fyrirtækjum þeirra án allrar ábyrgðar. Ég er alveg sannfærður um það að ef erlendur banki ætlar að lána hér einhverju fyrirtæki eða einhverjum einstaklingi, þá verður það hans mál að rannsaka það mjög gaumgæfilega að fyrirtækið eða einstaklingurinn sé borgunarmaður fyrir láninu. Við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af því fyrir hönd hins erlenda banka. Hann sér um það.

Það er alveg með ólíkindum að menn skuli getað ímyndað sér það að við getum flutt hér inn til landsins alls konar skran fyrir erlendan gjaldeyri á nánast útsölumarkaði vegna þess hve gengið er lágt skráð í svipinn, en síðan megum við ekki taka erlent fjármagn að láni til þess að styrkja hér framleiðsluna og reyna að byggja upp ný atvinnufyrirtæki.

Þá er komið að öðrum þætti sem mjög hefur verið vikið hér að í dag en það er þessi margumrædda þensla og fjárfestingaráform. Það er alveg með ólíkindum að hlusta á menn tala hér um að allar fjárfestingar séu af hinu illa. Það er ekki annað að heyra á tali manna hér í dag en að draga beri stórlega úr öllum fjárfestingum, það sé einhver voveiflegur hlutur ef menn ráðast í fjárfestingar. En hvernig á að tryggja fólkinu atvinnu í landinu ef atvinnufyrirtækin megi ekki fjárfesta? Ég veit ekki betur en nánast öll lönd í hinum lýðfrjálsa heimi reyni að laða til sín erlent fjármagn til þess að auka fjárfestingu í atvinnurekstri. Það er með þeim þætti sem styrkari stoðum er rennt undir atvinnulífið og fleiri atvinnutækifæri skapast. Það er með því að auka fjárfestingu í atvinnufyrirtækjum en ekki að draga úr henni. Hitt er svo annað mál að það má gjarnan draga úr fjárfestingu ríkissjóðs og fjárfestingu ýmissa sveitarfélaga þó svo að ég geti að einhverju leyti tekið undir með mörgum sem hafa réttilega bent á að eins og nú er ástatt í þjóðfélaginu, þá er fjárfestingin fyrst og fremst hér á höfuðborgarsvæðinu en mætti gjarnan vera meiri og jafnari um allt land.

Út af fyrir sig er ekkert á móti því að hafa vísitölur. Ef við hins vegar ætlum að láta lánin fylgja lánskjaravísitölu þá er alveg ljóst að launþegar eiga kröfu á því að launin fylgi sömu vísitölu. Annaðhvort verður að hafa það þannig að laun og lánskjör fylgi einni og sömu vísitölu eða laun og lánskjör fylgi engri vísitölu. Þetta gengur ekki öllu lengur því að ef fer sem horfir þá fara allir á hausinn, að minnsta kosti venjulegt launafólk og þau fyrirtæki sem eru háð því að þurfa að taka rekstrarlán á þessum kjörum. Það getur vel verið að það sé hagur fjármagnseigenda að þetta sé með þessum hætti. Þá endar þetta hins vegar einfaldlega þannig að fjármagnseigendur verða ríkari og ríkari en hinir verða fátækari og fátækari. Hins vegar er spurning: Hverjir ætla að standa undir þessum rosavöxtum ef búið er að setja kannski meiri partinn af öllum fyrirtækjum hér á hausinn og flesta launþega þannig að þeir eru ekki lengur borgunarmenn fyrir sínum lánum? Ætlar þessi fámenni hópur fjármagnseigenda í einhverjum lokuðum hring að kaupa skuldabréf hver af öðrum á þessum háu vöxtum? Ég sé eiginlega ekki hvernig þetta endar allt saman.

Hæstv. forsrh. vék nokkuð að komandi kjarasamningum í máli sínu og talaði fjálglega um stóraukinn kaupmátt sem hefði aukist nálega helmingi meira en þjóðartekjurnar hefðu aukist um. Ég held að menn ættu ekki að sjá eftir því þó að kaupmáttur launa á Íslandi hafi aukist eitthvað.

Ég hef oft velt því fyrir mér og spurt mig að því hvernig á því standi að laun á Íslandi, almenn dagvinnulaun eru eins lág og raun ber vitni í samanburði við nágrannalöndin. Í raun þarf að fara til Suður-Evrópulandanna, til hinna fátækari héraða í Suður-Evrópu til þess að finna jafnlág dagvinnulaun og þekkjast á Íslandi. Þetta gerist þrátt fyrir það að hér á Íslandi séu þjóðartekjur með einhverjum alhæstu í öllum heiminum.

Í tilefni af þessu fluttum við þm. Borgarafl. þáltill. þar sem við leggjum til að framkvæmd verði vönduð og nákvæm úttekt á því hvernig skiptingu þjóðartekna á Íslandi er háttað. Stafar þetta lága kaup af því að tiltölulega fáir skipta með sér meiri hluta allra þjóðarteknanna og launþegarnir, þ.e. fjöldinn skiptir með sér miklum minni hluta þjóðarteknanna? Ég vil gjarnan fá svör við þessu. Hvernig stendur á því að þjóð sem hefur einhverjar mestu þjóðartekjur í öllum heiminum borgar svona lág laun? Það hlýtur að vera eitthvað að hagkerfinu. Nú er það alveg ljóst að hagkerfið hér virðist hafa stillt sig inn á svona lág laun og í hvert skipti sem talað er um að hækka launin þá er hrópað: úlfur, úlfur. Það fer allt þjóðfélagið á hvolf ef launin verða hækkuð. En hvernig stendur á því að nágrannalöndin virðast hafa hagkerfi sem hefur stillt sig að miklu hærri dagvinnulaunum? Það fer ekkert á hvolf þar, þetta virðist ganga ágætlega.

Við lögðum því til í sömu till. að gerður yrði nákvæmur samanburður á dagvinnulaunatekjum ákveðinna markhópa og það mætti gjarnan taka þá sem njóta tryggingabóta með til þess að fá þeirri spurningu svarað í eitt skipti fyrir öll: Hvernig stendur á því að laun eru svona lág hér á Íslandi?

Hæstv. forsrh. sá ástæðu til að fara að agnúast út í okkur stjórnarandstöðuþm. fyrir óbilgirni hér fyrir hátíðirnar, að við skyldum ekki vilja hleypa öllum stjórnarfrv. í gegn, einn, tveir, þrír, þá væntanlega án nokkurrar umræðu. Hann minnti á fund sem við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar áttum með fulltrúum ríkisstjórnarinnar og leiðtogum stjórnarflokkanna sunnudaginn 20. des. sl. Þar sagði hann að hann hefði boðið stjórnarandstöðunni mikið kostaboð, að draga úr söluskatti á fiski með því að greiða niður söluskatt á fiskmeti að einhverju leyti og fresta einu stóru stjórnarfrv. fram yfir hátíðar, þ.e. frv. til l. um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það var sú gulrót sem átti að fá okkur stjórnarandstöðuþm. til að fallast á það að hætta allri umræðu um þessi frv. og afgreiða þau þar með fyrir jól. Ég hef nú reyndar hugsað um það eftir á að jafnvel þó að við hefðum setið hér og aðeins rétt upp hönd, en ekkert talað, þá hefði það ekki verið hægt því aðeins formsatriðanna vegna hefði ekki verið nægur tími að afgreiða öll þessi frv. fyrir jól þó svo við hefðum engar umræður haft. En hins vegar var það mjög athyglisvert að sjá það svo síðar meir, nokkrum dögum seinna og jafnvel daginn eftir, koma í ljós að þetta, sem hæstv. forsrh. var að bjóða okkur í staðinn fyrir það að falla frá allri umræðu um þessi óvinsælu skattafrv. ríkisstjórnarinnar, þetta var ríkisstjórnin löngu búin að ákveða að gera hvort sem var. Hún var búin að ákveða það að draga úr söluskattsálagningu á fiskmeti með því að greiða niður söluskatt að hluta til og hún var búin að ákveða það að fresta verkaskiptingarfrv. Það skyldi því engan undra þó að við hefðum ekki verið neitt sólgnir í það að ganga að þessu kostaboði.

Hins vegar er það ekki rétt sem kom fram í máli hæstv. forsrh. að við hefðum nánast viljað láta ríkisstjórnina kasta fyrir róða allri sinni efnahagsmálastefnu. Það er hin mesta firra. Við óskuðum einungis eftir því að ekki yrði lagður söluskattur á matvæli og við viðurkenndum það að til þess að ná því fram þyrfti eflaust að fara til baka í upphafleg áform ríkisstjórnarinnar, um að ná halla ríkissjóðs niður á þremur árum í staðinn fyrir á einu ári. Það er nefnilega einu sinni svo að með því að ætla sér að jafna ríkissjóðshallann á einu ári þá höfum við orðið vitni að einhverri mestu skattaálagningu sem þessi þjóð hefur séð — líklega frá stofnun lýðveldisins ef ekki allar götur frá upphafi. Við skulum bara öll rifja það upp að þetta land byggist upphaflega vegna þess að mönnum þykir nóg um ofríki og skattheimtu Haralds hárfagra. Þess vegna flytja menn til Íslands. Það sem verst er núna er að ég veit ekki hvert við eigum að flýja ef við getum ekki unað lengur við þá skattheimtu sem hæstv. ríkisstjórnin er búin að skella yfir almenning. Við höfum ekki lengur í nein hús að venda. Ég efast stórlega um að Norðmenn mundu vilja taka við okkur aftur. (EgJ: Jan Mayen.) Ja, það kann að vera að einhverjir ríkisstjórnarliðar mundu vilja setjast þar að, en ætli við mundum þá ekki heldur reyna að þreyja þorrann hér á gamla skerinu, a.m.k. við stjórnarandstöðuþm.

En það er rétt að staldra aðeins við þessar skattaálögur. Hæstv. fjmrh. flutti hér mjög langa ræðu. Það var ekki talað um málþóf þá. Hann talaði hér í nærri einn og hálfan klukkutíma. Og ég rifja það upp hér að í hinum miklu og löngu umræðum sem urðu um stjórnarfrv., bæði fyrir og um hátíðarnar og hér í upphafi árs, þá vorum við stjórnarandstöðuþm. mjög sakaðir um það, bæði af hálfu stjórnarþm. og af hálfu ýmissa fréttamanna, sem sáu ástæðu til að taka undir með stjórnarþm., að við töluðum allt of lengi. Ég man ekki betur en hæstv. fjmrh. hefði verið hvað drýgstur í hópi þeirra sem töluðu lengi, einmitt í umræðunum um stjórnarfrv. hér um og eftir hátíðarnar. Og hann er trúr sinni köllun því að hann hefur flutt hér langlengstu ræðuna í dag og ætti eiginlega að vera réttnefndur konungur málþófsmanna. En hann talaði um það að þessi ríkisstjórn hefði verið mjög dugleg, hún hefði verið mjög athafnasöm og vísaði því til föðurhúsanna þegar menn voru að tala um aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Það er nú einu sinni svo að verkstjóri sem hefur verkamenn í vinnu hjá sér og setur einn þeirra til að grafa skurð, kemur svo kannski að lokum dags til að sjá hvernig gengur með skurðinn og kemst að því að verkamaðurinn hefur grafið skurðinn á algjörlega vitlausum stað. Nú, verkamaðurinn að sjálfsögðu hefur verið mjög duglegur kannski allan daginn en verkið er bara gagnslaust. Það er ekkert gagn í því. Hann gróf skurðinn á vitlausum stað. Ég held það megi lýsa aðgerðum ríkisstjórnarinnar á þennan hátt að þessar aðgerðir reynast okkur gagnslausar þegar á hólminn kemur. Þær eru á vitlausum stað.

Skattbyrðin sem stefnt er að fyrir árið 1988, eins og ég gat um áðan, er langmesta skattaálagning sem þjóðin hefur nokkru sinni upplifað. Það stefnir í að skattbyrði fari yfir 26% af vergri landsframleiðslu sem er langhæsta skattprósenta sem við höfum séð. Það er talað um að eitt ár í upphafi ríkisstjórnar Gunnars heitins Thoroddsens hafi skattaálögur nálgast þetta mark, en við verðum að hafa það hugfast að þá voru ytri aðstæður allt aðrar. Bæði er þjóðarframleiðslan, þ.e. þjóðartekjurnar, miklum mun hærri í dag en þær voru þá og þá voru ytri aðstæður fyrir þjóðarbúið mjög óhagstæðar, olíuverð var mjög hátt og fiskafurðir okkar seldust frekar illa á erlendum mörkuðum. Nú eru skilyrðin miklu hagstæðari og þrátt fyrir þetta þarf að keyra skattheimtuna upp í það almesta sem nokkru sinni hefur sést. Það er ansi fróðlegt að sjá hv. þm. Sjálfstfl. í kór rétta upp hönd þegar verið er að skrúfa skattheimtuna upp í það mesta sem þjóðin hefur nokkru sinni séð.

Það er alltaf talað um að það hafi þurft að taka allt tekjuöflunarkerfi ríkisins til endurskoðunar, þessi margfræga hreingerning hæstv. ráðherrans á tekjuöflunarkerfinu. En það hefur ekkert verið talað um að taka útgjaldakerfi ríkissjóðs til hreingerningar. Hefði ekki verið nær að halda sig við upphafleg markmið og jafna halla ríkissjóðs á þremur árum og nota þá þessi þrjú ár til þess að efna til allsherjarhreingerningar á útgjaldahlið ríkisins? Það er ágætt að ætla sér bara að koma við hreingerningu á tekjuhlið ríkissjóðs en láta síðan útgjöldin eiga sig, þau megi vera hin sömu og þau hafa alltaf verið.

Mér sýnist, af minni reynslu úr sveitarstjórnarmálum, að það sé farið alveg öðruvísi að þegar verið er að setja upp fjárhagsáætlun fyrir ríkisvaldið í samanburði við það sem er gert þegar verið er að stilla upp fjárhagsáætlun fyrir sveitarfélögin. Hjá vel reknum sveitarfélögum er yfirleitt þannig staðið að að fyrst er athugað hverjar muni verða tekjur sveitarfélagsins. Það er byrjað á því að reikna út hvað útsvörin muni gefa af sér, hvað sveitarfélagið muni fá inn í tekjur af aðstöðugjöldum og fasteignagjöldum o.s.frv. Að því loknu er byrjað að athuga hver útgjöldin geti orðið. Mér sýnist hins vegar að hér sé hafður sá hátturinn á að útgjöldin eru athuguð fyrst, það er stillt upp útgjaldahliðinni, og svo eru skattar auknir þangað til komnar eru tekjur inn fyrir þessum útgjöldum.

Það er talað um að skattkerfið hafi verið ónýtt. Við hefðum að sjálfsögðu ekkert haft á móti því að taka þátt í að laga þetta skattkerfi. Eitt af því sem var lögð höfuðáhersla á í þessari hreingerningu á tekjuöflunarkerfinu var að koma á nýju söluskattskerfi þar sem yrði lagður söluskattur á miklu breiðari stofn en áður var. Þetta fól m.a. í sér að það var lagður söluskattur á matvæli. Matarskatturinn er það sem þessi ríkisstjórn mun væntanlega verða frægust fyrir og spurningin er: Var engin önnur leið til?

Hæstv. sjútvrh. auglýsti m.a. eftir því hvort stjórnarandstaðan hefði einhverjar skoðanir í þessu efni. Ég get reynt að kynna hér hugmyndir okkar í skattamálum. Ég hef alla tíð verið mjög efins um að það sé eitthvert vit í því að innleiða skattkerfi sem er hannað og búið til fyrir stóru þjóðfélögin í Evrópu. Virðisaukaskatturinn svokallaði er fundinn upp og má segja hannaður, svo ég taki mér það orð í munn, fyrir milljónaþjóðfélögin í Evrópu sem eru með allt annarri efnahagslegri uppbyggingu en þetta litla þjóðfélag langt norður í Dumbshafi. Við skulum taka sem dæmi lönd eins og Þýskaland, Frakkland og jafnvel Danmörk. Ætli það sé ekki nálægt lagi að um 80% af öllum neysluvörum sem eru til sölu í verslunum í þessum löndum séu framleiddar í landinu sjálfu? Aðeins um 20% eru innflutt. Á Íslandi er þetta öfugt. Hér eru u.þ.b. 80% af öllum neysluvörum, sem eru til sölu hér í búðum og almenningur kaupir daglega, innfluttar vörur, en kannski ekki nema 20% af neysluvörum framleiddum í landinu sjálfu. Það sjá allir menn að það þarf að vera allt annað skattkerfi sem hentar í litlu þjóðfélagi eins og við búum í.

Síðan er annað. Í tengslum við tolla- og viðskiptasamninga milli ríkja hefur verið lögð á það áhersla að það eigi að forðast sem allra mest að leggja á skatta við landamæri. Þetta er ofur eðlileg og skiljanleg krafa af hálfu t.d. Evrópulandanna sem eru öll með landamæri þannig að vöruflutningar eiga mjög greiðan aðgang yfir þessi landamæri. Þar fara vöruflutningar fram með bílum og járnbrautarlestum og það tekur kannski nokkra klukkutíma að flytja vörur úr einu landi í annað. Það er ósköp eðlilegt að þessi lönd vilja ekki taka upp landamæraskatta. Það sjá allir menn. En til Íslands koma allar vörur með flugvélum eða skipum til hafna á Íslandi. Það er allt önnur flutningsaðstaða á varningi til Íslands en gerist í Evrópulöndunum. Þetta segir okkur að það er miklu eðlilegra að vera með landamæraskatta í landi eins og Íslandi meðan í löndum eins og í Vestur-Evrópu er ósköp eðlilegt að reynt sé að forðast landamæraskatta. En því í ósköpunum ætlum við þá að taka upp skattkerfi sem er hannað einmitt og miðað við þær forsendur, sem gilda í Efnahagsbandalagslöndunum, að það beri að forðast landamæraskatta og miða við að meginþorri alls neysluvarnings, sem er til sölu í landinu, sé framleiddur í landinu sjálfu? Það segir sig sjálft að við hljótum að þurfa að búa okkur til alveg sérhæft skattkerfi sem tekur einungis mið af íslenskum aðstæðum. Það er þetta sem við höfum lagt áherslu á í stefnuskrá Borgarafl., að taka hvern einasta málaflokk og brjóta hann til mergjar og leita að þeirri stefnu sem hentar best fyrir þetta fámenna þjóðfélag norður í Dumbshafi, eins og ég sagði áðan, en ekki apa eftir einhverjar erlendar hagfræðikenningar sem eru allar saman stílaðar upp á milljónaþjóðfélög sem búa við allt aðrar aðstæður en hér gerast. Þess vegna létum við á sínum tíma kanna lauslega hvort það væri möguleiki á því að taka upp söluskatt í tolli, fella niður allan söluskatt á þjónustu innan lands og af smásöluversluninni, en láta samkeppnisfyrirtækin, sem samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar eru ekki nema 2500 talsins, greiða bókhaldslegan virðisaukaskatt. Það yrði framkvæmt með þeim hætti að þau fyrirtæki þyrftu ekki að greiða söluskatt af aðföngum, þau mættu í staðinn bókfæra söluskatt sem væri á aðföngum til þeirra án þess að greiða hann, en yrðu síðan að skila ríkinu að lokum virðisaukaskatti, þ.e. söluskatti af framleiðsluvörunni þegar hún yfirgefur fyrirtækið, en þá yrði um leið dreginn frá sá bókfærði söluskattur sem var á aðföngum til fyrirtækisins. Þetta skattkerfi væri margfalt einfaldara og að sjálfsögðu væri enginn matarskattur á innlendum matvælum í þessu kerfi. Hins vegar mundi ég ekkert amast við því þó að það kæmi fullur skattur á innflutt matvæli. Ég mundi ekkert sjá eftir því. En mér hrýs hugur við því að horfa upp á það að það sé kominn söluskattur á innlenda matvöru því að nógu var hún dýr fyrir.

Það var talað um hér áðan, ég held að það hafi verið hæstv. fjmrh., að í Svíþjóð og í Danmörku, það var víst aðallega í Svíþjóð, hefðu launþegasamtökin eitthvað verið að amast við virðisaukaskatti á matvæli. Síðan hefðu einhverjir spámenn og sérfræðingar reiknað út að það gagnaði launþegahreyfingunni þar mest að það skyldi einmitt vera virðisaukaskattur á matvælum. Það er talað um að það sé fullur virðisaukaskattur á matvælum í Danmörku, 22%, og þetta nota menn svo til að rökstyðja að það sé allt í lagi að taka upp matarskatt á Íslandi. En menn átta sig ekki á einu. Matvara í þessum löndum er ekkert dýr. Hún þolir vel 22% virðisaukaskatt án þess að hún verði svo dýr að almenningur hafi ekki efni á að kaupa hana. Matvara hefur hins vegar ávallt verið dýr á Íslandi af ofur eðlilegum ástæðum vegna þess að skilyrði til landbúnaðar á Íslandi eru ekki mjög hagstæð. Við verðum að viðurkenna þá staðreynd að við búum svo norðarlega að landbúnaður hlýtur alltaf að eiga erfitt uppdráttar. Landbúnaðarframleiðsla á Íslandi verður alltaf dýr í samanburði við aðrar þjóðir. Þess vegna er gjörsamlega útilokað að það sé hægt að skattleggja hana á sama hátt og nágrannalöndin gera sem hafa mjög hagstæðan landbúnað, geta framleitt sínar landbúnaðarafurðir á miklu ódýrari og hagkvæmari hátt en við gerum. Það er alveg út í hött, enda á eftir að koma á daginn að launþegar fara hér á vonarvöl ef það á að verða að laun eigi ekki að hækka nema um 13% það almesta og sagt að það sé langt umfram það sem þjóðfélagið þoli, en síðan koma matarskattarnir á fullu. Það skal viðurkennt að ákveðið var að greiða niður söluskatt á mjólk, dilkakjöti. — Var það ekki í heilum skrokkum? Mig minnir endilega að þegar hæstv. fjmrh. fór út í búð og keypti sér kótelettur var kominn fullur matarskattur á þær. Eitthvað minnir mig að það hafi komið fram í sjónvarpinu þó svo að þar hafi einnig komið fram, löngu fyrr reyndar, að hæstv. fjmrh. er lítið í því að kaupa lambakjöt.

En það er annað sem kom fram í umræðum um fjárlagafrv. um jólin. Það var að sú upphæð sem á að fara til niðurgreiðslu á landbúnaðarafurðum er föst, þ.e. hún er ekki háð verðbreytingu. Það þýðir að sjálfsögðu að það mun draga úr niðurgreiðslu á þessum afurðum eftir því sem líður á árið, eftir því sem verðbólgan æðir áfram, en það virðist allt stefna í að það verði hér 30% verðbólga eins og sumir hæstv. ráðherranna hafa bent réttilega á.

Ég vildi segja frekar frá þessum hugmyndum. Við höfum ekki haft aðstöðu til að láta reikna þetta nákvæmlega fyrir okkur eða kanna nema það var athugað lauslega af Þjóðhagsstofnun fyrir okkur í kosningabaráttunni að taka söluskatt í tolli af öllum innfluttum vörum og taka síðan upp bókhaldslegan virðisaukaskatt hjá þessum 2500 samkeppnisaðilum. Ég vek athygli á þessari hugmynd sem dæmi um hugmyndir sem skoða mætti betur áður en farið er að apa eftir eitthvert virðisaukaskattskerfi stórþjóðanna úti í Evrópu.

Það hefur margt verið sagt um efnahagsmál og ég veit ekki hvort það er ástæða til að lengja þessar umræður öllu meira. Mig langar þó að lokum að fjalla aðeins um fastgengisstefnuna svokölluðu. Það er búið að tala mikið um hana. Ég get út af fyrir sig alveg tekið undir það með hæstv. ráðherrunum að það er í sjálfu sér orðin úrelt lausn að í hvert skipti sem fyrirtæki eða hluti atvinnurekstrar í landinu stendur höllum fæti sé argað á gengisfellingu. Síðan kemur þessi víxlverkun: gengisfelling, auknar kröfur um launahækkanir o.s.frv. En hins vegar þýðir ekkert að loka augunum fyrir þeirri staðreynd að ef verðlag í landinu, allur kostnaður, verð á þjónustu með meiru, æðir upp um tugi prósenta á einu ári meðan genginu er haldið föstu hlýtur að enda með því að innlend framleiðsla getur pakkað saman því hún getur ekki keppt við erlenda framleiðslu þar sem verðbólgan er langtum, langtum minni án þess að gengið breytist þá að sama skapi. Sumir hafa gengið svo langt að halda því fram að gengið falli hér á hverjum degi vegna þess að þjónustan innan lands hækkar miklu meira en þjónusta erlendis. Það er miklu meiri verðbólga hér en í nágrannalöndunum. Þetta gerist þrátt fyrir að genginu sé haldið föstu.

Það var flutt í Sþ. mjög merkileg tillaga um að tengja íslenska gjaldmiðilinn við einhvern erlendan gjaldmiðil og láta hann fylgja honum. Ég spyr hvort það gagni nokkuð. Mundi ekki eftir sem áður verðlag og þjónusta hér innan lands geta vaðið upp úr öllu valdi þó svo að við mundum t.d. binda íslensku krónuna við jafnvel þýska markið? Við sætum þá allt í einu uppi með þýskt mark. Við getum jafnvel tekið upp þann gjaldmiðil hér á Íslandi. Við sætum þá uppi með þýskt mark sem væri miklu minna virði hér en það væri í Þýskalandi. Ég sé ekki að þetta leysi neitt í sjálfu sér. Við hljótum að þurfa að taka mið af þessu. Ég vil því taka aftur undir með hv. 10. þm. Reykv., sem eins og ég sagði í upphafi máls míns er orðinn óvæntur liðsmaður stjórnarandstöðunnar á þingi, að þetta gengur ekki svona öllu lengur því að það hlýtur að vera albrýnasta verkefnið sem við eigum fram undan að ráðast á viðskiptahallann og reyna að minnka hann. Það gerum við ekki með þeim hætti að hvert útflutningsfyrirtækið á fætur öðru leggi upp laupana vegna þess að allur kostnaður innan lands hefur vaðið upp um tugi prósenta en verð útflutningsvörunnar stendur í stað. Það sjá allir menn. Það verður eitthvað að gera til að laga þetta. Það er að vísu rétt og allur almenningur tekur undir það að menn eru dauðþreyttir á svokölluðum gengisfellingum. Það voru þó fundin upp ýmis ráð áður fyrr. Það var talað um gengissig og síðan kom gengissig í einu stökki. Nú ég vildi að lokum kenna hæstv. ráðherrunum eina aðferð enn. Hún er sú að það þarf ekkert annað en laga myntvogina. Það þarf ekkert annað en breyta vægi bandaríkjadals í myntvoginni, leiðrétta myntvogina. Þá breytist gengið af sjálfu sér. Ég mundi ekki einu sinni kalla það gengisfellingu. Það er einungis verið að tala um að laga myntvogina, auka vægi dollarans í myntvog. Mikill hluti útflutningsframleiðslu okkar er í dollurum og ef vægi dollarans yrði aukið í myntvoginni mundi gengið að sjálfsögðu breytast. Það mætti kalla það leiðréttingu myntvogar. Auðvitað er það gengisfelling, en ef menn vantar nafn á þetta er þetta ein leið.

Virðulegur forseti. Ég held ég láti þetta nægja að sinni. Ég hef lokið máli mínu.