08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4368 í B-deild Alþingistíðinda. (3022)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Við höfum orðið áheyrendur að því að einn af æðstu trúnaðarmönnum ríkisstjórnarinnar, forseti efri deildar Alþingis, hefur kvatt sér hljóðs hér og talað um aðgerðir sex manna nefndar sem gerræði, kerfi í stjórnun sem farið er eftir, furðuverk 20. aldarinnar. Hann talar um einokunarmál. Hann talar um að farið sé gegn hagsmunum neytenda og launþega. Hann talar um — og ég legg áherslu á það — að hér sé brotið gegn samþykkt ríkisstjórnarinnar um verðstýringu og kjarasamninga. Hann talar um aðför að neytendum á sama tíma sem annar hv. stjórnarþm., 17. þm. Reykv., talar um hið hörmulegasta mál og að hér sé farið að ósk framleiðenda gegn þeirra eigin hagsmunum. Á sama tíma stendur upp einn hæstv. ráðherranna og segir að reglugerðin hafi verið borin undir ríkisstjórnina en það séu ráðherrar sem fari með valdið þrátt fyrir fyrri samþykktir ríkisstjórnarinnar.

Þetta er furðulegt og ég vildi bara spyrja hv. fyrirspyrjanda, sem einn af trúnaðarmönnum og ráðamönnum í stjórnarflokki: Hversu alvarlegur er bresturinn í stjórnarsamstarfinu? Ætlar Alþfl., ætlar Sjálfstfl., samkvæmt ummælum þessara manna sem tekið hafa til máls, að kyngja enn einu stefnumáli sínu fyrir framsókn? Ég veit ekki betur en framsóknarmenn hafi komið í gegn hverju einasta máli sem þeir hafa lagt áherslu á í þessu stjórnarsamstarfi á kostnað stefnumála hinna flokkanna. Hversu langt ætla þessir flokkar að ganga? Hversu alvarlegur er þessi brestur í stjórnarsamstarfinu? Þetta er farið að vekja athygli, og meira en athygli, það er farið að vekja furðu fólks í landinu hversu illa gengur að stjórna landinu í þessu samstarfi sem nú er við lýði.