11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4463 í B-deild Alþingistíðinda. (3086)

249. mál, húsnæðismál á landsbyggðinni

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra var dreift á þinginu í þessari viku svari frá hæstv. ráðherra varðandi húsnæðismál og umsóknir um lán til Húsnæðisstofnunar. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að þar birtist mjög hrikaleg staða að því er snertir umsóknir annars vegar af höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík og Reykjanesi, og hins vegar af landsbyggðinni.

fsp. sem hér er fram borin og hæstv. ráðherra hefur svarað varpar ljósi á þann gífurlega vanda sem þarna er við að fást og ég tel að verði ekki leystur nema með því að lögð verði stóraukin áhersla á félagslegar úrlausnir í sambandi við húsnæðismál. Hvort það er gert með kaupleigukerfi eða búseturéttaríbúðum læt ég liggja á milli hluta, en við verðum að vænta þess að áform hæstv. ráðherra varðandi kaupleiguíbúðir nái fram að ganga fyrr en seinna. Það er verulegt áhyggjuefni hversu seint það mál gengur innan hæstv. ríkisstjórnar og við verðum að vona að hæstv. ráðherra geti þokað því máli fram þannig að það komi inn í þingið fyrr en seinna. Þarna er um hagsmunamál að ræða fyrir hinar dreifðu byggðir í landinu.

Herra forseti. Ég vek athygli á því að í svari frá hæstv. félmrh. varðandi húsnæðismál kemur það m.a. fram að af umsóknum frá haustinu 1986 til ársloka 1987 er aðeins um 1/7 hluti þeirra sem nefna veðstað utan af landi, frá öðrum kjördæmum en Reykjavík og Reykjanesi. Það er háskaleg þróun sem birtist í þessum upplýsingum ásamt mörgu fleiru sem lesa má út úr þessum gögnum.