17.02.1988
Neðri deild: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4683 í B-deild Alþingistíðinda. (3231)

256. mál, almannatryggingar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég var því miður ekki viðstaddur þegar framsaga var flutt fyrir þessu frv. sem hér er til umræðu en ég get út af fyrir sig tekið undir það með síðasta ræðumanni, hv. 13. þm. Reykv., að hér er hreyft máli sem heilbrigðisyfirvöld og þeir sem fara með málefni Tryggingastofnunarinnar þurfa að skoða og það er auðvitað ákaflega einfalt að lýsa yfir stuðningi sínum við frv. sem þetta eða við það efni sem hér er til umræðu. En það er svo með margt, margt fleira sem bæði hefur verið hreyft hér í þinginu og varðar útgjöld Tryggingastofnunarinnar eða þætti og ýmis efni sem almannatryggingakerfið okkar þyrfti að ná til, en það er ekki alveg svo einfalt. Við verðum líka að huga að því í heildina hver þessi útgjöld eru og hvað við getum ætlast til að almannatryggingakerfið, hið sameiginlega tryggingakerfi okkar verji og bæti. Ég geri ekki lítið úr því að þetta sem hér er á ferðinni sé í þeim flokki sem við þyrftum að setja ofarlega á blað.

Ég vildi aðeins koma inn í umræðurnar til þess að nefna það, sem ég hef reyndar sagt hér áður í þessum ræðustól á þessu þingi sem nú stendur yfir, að heildarendurskoðun á tryggingalöggjöfinni er nú í gangi. Ég vil líka leyfa mér að segja hv. þm. þó að þeir hafi bent mér sumir hverjir og þar á meðal hv. síðasti ræðumaður á það fyrr að það sé nú ekki nýtt mál að endurskoða tryggingalöggjöfina og það sé ekki heldur einfalt og það hafi áður sýnt sig að það hafi tekið langan tíma. En ég vil segja það hér og nú og ítreka það sem ég hef áður sagt að það er unnið í þessu nú af miklum krafti. Það eru vikulega fundir í þeirri ágætu nefnd sem er að vinna að þessari endurskoðun. Í þeirri nefnd eiga sæti þm. og fyrrv. þm. sem þekkja vel til þessara mála fyrir utan starfsmenn Tryggingastofnunar og aðra sem hafa fjallað um þessi mál á undanförnum árum. Ég geri mér í alvöru vonir um það að við fáum fyrr en síðar niðurstöður úr því nefndarstarfi þó að ég geri mér nú ekki vonir um að það verði á þessu þingi, þ.e. ekki nú fyrir vorið, en vonandi síðar á árinu þannig að það mætti leggja frv. um breytingar á almannatryggingalöggjöfinni fyrir næsta þing.

Ég vil líka segja það að við höfum tínt til ýmsa þætti, ýmis atriði sem öllum er ljóst að þarf að lagfæra og breyta varðandi almannatryggingalöggjöfina, bæði atriði sem hér hefur verið hreyft nú þegar á hv. þingi og eins ýmis önnur atriði sem hafa verið til umræðu í heilbr.- og trmrn. og hjá Tryggingastofnuninni, ýmsar athugasemdir sem þegar hafa komið fram og menn hafa viljað láta taka inn í þessa heildarendurskoðun. Mín niðurstaða hefur verið sú að vera ekki að flytja þessi mál eitt og eitt hér inn í þingið heldur vísa þeim öllum til þessarar heildarendurskoðunar, einnig þeim atriðum og þeim þáttum sem hér hafa verið flutt inn í þingið. Ég geri mér vonir um það að við getum náð samkomulagi um það, flm. ýmissa þessara tillagna. Auðvitað kann mönnum að finnast að eitthvað af þeim sé svo brýnt að ekki verði mögulegt að bíða með það heldur verði að knýja á um það að þing það sem nú situr afgreiði það og þá verði það auðvitað í valdi Alþingis að taka um slíkt ákvörðun. En á undanförnum árum hefur verið krukkað — ég segi krukkað meira og minna í almannatryggingalöggjöfina án þess að nokkur heildaryfirsýn væri í þeim breytingum. Margt af því hafa auðvitað verið þarfar og nauðsynlegar leiðréttingar, en þær hafa hins vegar skapað misræmi milli t.d. ýmissa bótaþátta. Menn hafa verið að lagfæra einn þáttinn og gleymt öðrum eða skilið hann eftir eða hirt minna um það. Þess vegna hefur skapast alla vega misræmi. Nauðsynlegt er að leiðrétta þetta og einfalda löggjöfina og þá er líka mjög brýnt að taka alla þá þætti, sem hér hafa komið inn, inn í þá endurskoðun. Ég mundi vilja leggja það til við flm. þessara tillagna, ekki bara þessarar einu sem hér liggur fyrir heldur margra annarra sem nú hafa komið fyrir þingið að undanförnu, að menn sameinuðust um það að vísa því til þessarar heildarendurskoðunar. En auðvitað verður þingið sem slíkt að taka endanlega ákvörðun um það.

Ég ítreka það að ég held að hér sé hreyft þörfu máli. Við greiðum nú þegar hluta af heyrnartækjum, hjálpartækjum til þeirra sem eru heyrnarskertir og það má svo sem alveg segja það eins og gert er hér í þessari grg. að það sé ekkert samræmi í því að það skuli þá ekki vera neinn þáttur tekinn í kostnaði þeirra sem þurfa að nota gleraugu. Þetta er auðvitað bara eitt dæmi um það misræmi sem er alls staðar að finna í þessari löggjöf og ég ítreka það að ég tel mjög mikilvægt að menn setjist yfir það í heild og reyni að samræma hina ýmsu þætti og það sé skynsamlegra heldur en að pikka út einn og einn á þennan hátt.