23.02.1988
Efri deild: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4750 í B-deild Alþingistíðinda. (3269)

286. mál, hafnalög

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Með núgildandi hafnalögum, sem sett voru 1984, var sjálfsforræði sveitarfélaganna yfir höfnum aukið verulega frá því sem áður var. Þannig er skýrt kveðið á um það í lögum að sveitarfélög eða sýslufélög séu eigendur hafnanna. Jafnframt var ákvörðunarréttur þeirra um nýjar framkvæmdir skilgreindur miklu betur og má segja að hafnirnar séu nú einungis háðar ríkisvaldinu hvað snertir framlög á fjárlögum til hafnarframkvæmda. Hafnamálastofnun ríkisins hefur þó eftir sem áður veg og vanda af áætlunargerð, frumrannsóknum og framkvæmdum ef einstakar hafnarstjórnir óska sérstaklega eftir því.

Samkvæmt hafnalögum skal samgrh. gefa út gjaldskrá fyrir hafnirnar sem nær yfir meginhlutann af tekjum þeirra. Ýmis gjöld eru þó ákveðin af eigendum hafnanna, svo sem hafnsögugjöld, leiga fyrir afnot mannvirkja eða tækja hafnarinnar og lóðargjöld. Með því frv. sem hér er til umræðu á þskj. 587 er lagt til að ákvörðun um gjaldskrá verði færð að fullu til eigenda hafnanna. Það er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem m.a. segir að verkaskipting ríkis og sveitarfélaganna verði gerð skýrari svo að saman fari ákvörðun framkvæmda og ábyrgð og sveitarstjórnirnar fái auk þess aukið sjálfræði um tekjustofna. Þetta frv. er einnig í samræmi við frv. til laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem nú er til umræðu í hv. Nd.

Nú er í gildi ein samræmd gjaldskrá fyrir allar almennar hafnir en áður fyrr voru gjaldskrárnar jafnmargar og hafnirnar. Þessi samræming hefur átt sér stað fyrir ötula forgöngu Hafnasambands sveitarfélaga sem hefur átt mjög gott starf að málefnum hafnanna. Ég er þess fullviss að Hafnasambandið mun áfram vinna að þessum málum og með þeim hætti sem hingað til hefur verið gert af því og halda nauðsynlegum stöðugleika í gjaldskránum og því samræmi við gerð þeirra sem náð hefur verið. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að verði það að lögum, þá taki lögin gildi 1. ágúst nk., en ný gjaldskrá var sett 1. febr. sl. og því eðlilegt að nokkur tími líði þar til ný gjaldskrá yrði sett á vegum sveitarfélaganna.

Að öðru leyti en því sem ég hef nú gert grein fyrir, þá þarfnast þetta frv. ekki sérstakra skýringa.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.