23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4753 í B-deild Alþingistíðinda. (3272)

60. mál, iðnaðarlög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. hefur hér mælt fyrir frv. sem hann lýsti í upphafi orða sinna á þá leið að þar væri á ferðinni ákaflega einfalt og stutt frv., og gaf þar með í skyn að frv. væri að sama skapi léttvægt og breytti litlu. Ég vil leggja á það áherslu hér að þetta frv. er býsna stórt og mikið mál og breytir miklu. Hér er um að ræða valdaafsal Alþingis á einu viðkvæmasta pólitíska sviðinn hér á landi, þ.e. hvað varðar atvinnurekstur útlendinga, valdaafsal Alþingis í hendur ráðherra.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra, þá er það sérstaklega tekið fram í þeim lögum sem hér er verið að gera tilraun til að breyta að helmingur hlutafjár, þegar um hlutafélög er að ræða, skuli vera eign manna búsettra á Íslandi. Ég vek á því athygli að ákvæðið er nú ekki strangara en þetta. Þess er ekki krafist að eigendurnir hafi íslenskan ríkisborgararétt. Þess er fyrst og fremst krafist að mennirnir séu búsettir hér á Íslandi. Og þessi litla einfalda klausa, sem hæstv. iðnrh. er að lauma hérna í gegnum þingið svo að lítið ber á, snýst ósköp einfaldlega um það að í svona tilvikum þurfi ekki lengur að leita til Alþingis og fá undanþáguna samþykkta þar, heldur sé nægilegt að leita til hæstv. ráðherra Friðriks Sophussonar og þeirra sem á eftir honum sitja á stóli iðnrh. Og ef menn sjá ekki að í þessu er fólgið stórfellt valdaafsal af hálfu Alþingis og þarna er á ferðinni mikið pólitískt mál, þá eru menn furðu blindir orðnir.

Mér fannst nú satt að segja keyra um þverbak hér áðan hjá hæstv. ráðherra þegar hann ætlaði svo að reyna að lauma því að mönnum til viðbótar að þetta ákvæði væri tilkomið vegna mistaka, greinilega vegna misskilnings, þetta hefði líklega bara fallið óvart niður þegar málið var afgreitt á sínum tíma árið 1978. Þáv. iðnrh. flutti þá frv. til iðnaðarlaga og sá hét Gunnar Thoroddsen og var þá varaformaður Sjálfstfl. Frv. hafði að sjálfsögðu verið samþykkt í þingflokki Sjálfstfl. á þeim tíma og í stjórnarflokkunum báðum og um málið var fjallað hér á Alþingi. Það er ekkert sem bendir til þess að þarna hafi nein mistök verið á ferðinni eða misskilningur af hálfu eins eða neins. Þarna var um vísvitandi stefnumörkun Alþingis að ræða eftir umræðu um þátttöku erlendra aðila í íslensku atvinnulífi sem átt hafði sér stað þá í einn og hálfan áratug og hafði verið eitt af heitustu og viðkvæmustu deiluefnum hér á landi allan þann tíma. Menn geta ekki verið svo einfaldir að reyna að lauma því að einum eða neinum að ákvörðun af þessu tagi af hálfu Alþingis árið 1978 hafi verið tilkomin vegna misskilnings.

Hæstv. ráðherra getur vel komið hér til Alþingis og sagt: Ég hef aðra skoðun á þessu en Alþingi hafði á sínum tíma, ég tel að þetta ákvæði hefði aldrei átt að vera svona, ég tel að tímarnir séu breyttir - eða eitthvað annað í þeim dúr. Það hefur hann fullt leyfi til að segja mönnum og óska eftir því að þeir endurskoði þetta ákvæði á þeim grundvelli. En hann getur ekki komið hér og reynt að lauma því inn að Alþingi hafi fyrir einhvern misskilning sett svo stefnumarkandi stórmikilvægt ákvæði sem þarna er um að ræða.

Ég legg á það áherslu hér við 1. umr. málsins, og skal ekki vera langorður um þetta mál að öðru leyti, en ég legg á það áherslu að hér eftir sem verið hefur seinasta áratuginn verði Alþingi að leggja það ómak á sig að fjalla um hvert einstakt tilvik af þessu tagi þegar um það er að ræða. Hæstv. ráðherra getur alls ekki talið neinum manni hér trú um að einhver voði sé á ferðum vegna þess að hann geti ekki afgreitt eitthvert nauðsynjamál fyrr en þetta mál hafi náð fram að ganga. Ef um eitthvert nauðsynjamál er að ræða, af hverju kemur þá ekki ráðherrann með það hér inn í þingið og óskar eftir því að undanþágan sé veitt? Er hann ekki með dyggan þingmeirihluta sér að baki sem ætti að vera þeim mun fúsari til að afgreiða eitt slíkt mál sem hann getur hugsað sér að afgreiða almenna reglu? Ef menn eru á annað borð opnir fyrir því að gera undanþágur af þessu tagi, þá ætti ekki að standa á því ef það mál sem hann ber svo mjög fyrir brjósti er þess eðlis að mönnum list á það. Munurinn á þessu tvennu er auðvitað ósköp einfaldlega sá að í öðru tilvikinu fær Alþingi að vita hvað hæstv. iðnrh. er með í huga; hvað hann ætlar sér, en í hinu tilvikinu á Alþingi að veita hæstv. iðnrh. óútfylltan víxil. Og það ekki einn, heldur bara nægilega marga eftir því sem þörf er á, og svo á hann sjálfur að fylla út sína víxla alveg að eigin mati án þess að við hér á Alþingi fáum nokkurt tækifæri til að stöðva þau mál af sem okkur líst ekki á.

Þessi mál verður að sjálfsögðu að afgreiða áframhaldandi hvert fyrir sig, meta þau og vega og komast að niðurstöðu í samræmi við efni máls. Ég er ekki með orðum mínum hér að segja það að aldrei komi til greina að útlendingar eigi neitt í fyrirtæki sem reist er hér á landi. Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar að við gætum verið svo heilagir, við Íslendingar, að slíkt gæti ekki komið til greina í sérstökum undantekningartilvikum. Hins vegar hef ég almennt verið þeirrar skoðunar að þeir ættu aldrei að eiga meiri hluta í fyrirtækjum hér á landi. Og ég held að það þurfi býsna mikil rök og sterk til þess yfirleitt að leyfa slíkt.

Ég viðurkenni hins vegar fúslega að samvinna við útlendinga getur átt rétt á sér þegar um tækniþekkingu þeirra er að ræða sem ekki er unnt að afla með öðrum hætti en að eiga við þá samvinnu. Ég hafði t.d. ekkert við það að athuga á sínum tíma að erlent fyrirtæki ætti nokkurn hlut í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki vegna þess að það tengdist tækniþekkingu, það tengdist sölu á vélum við það fyrirtæki. Og ég er ekki í nokkrum vafa um að það var skynsamleg ráðstöfun. (SvH: Það var í kjördæminu.) Og breytti þar engu um hvar á landinu fyrirtækið var staðsett.

En ég held að við verðum að fara varlega í þessum efnum. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að ef hér eru opnaðar allar gáttir þá getur þess verið skammt að bíða og það getur gerst á ótrúlega skömmum tíma að útlendingar eignist hér úrslitavald í íslensku atvinnulífi. Það þarf ekkert annað en að undanlátssamur iðnrh. sitji uppi í iðnrn. og veiti heimildir sem alþm. mundu ekki veita og standa gegn ef þeir hefðu ákvörðunarvaldið í sínum höndum.

Ég vil svo að lokum benda á það að nál. meiri hl. iðnn. í Ed., sem hæstv. ráðherra vísaði hér til áðan, er að vísu fróðlegt um afstöðu þeirra manna sem þar sátu en er ekki á nokkurn hátt bindandi fyrir hæstv. ráðherra. Því miður. Við skulum ekki blekkja okkur með því að punktarnir sem eru í niðurlagi nál., fjórir talsins, að þeir séu eitthvert skilyrði af hálfu Alþingis fyrir samþykkt málsins. Þar stendur einungis: „Við afgreiðslu frv. leggur meiri hl. áherslu á eftirfarandi sjónarmið ...“ Meiri hl. leggur „áherslu“ á þetta. Ef aftur á móti hefði átt að gera þetta að forsendu eða skilyrði fyrir samþykkt laganna þá hefði það auðvitað orðið að koma fram með miklu skýrari hætti og þá væntanlega í lögunum sjálfum. Ég treysti ekki á fyrirvara af þessu tagi og geri mér fullkomlega grein fyrir því að iðnrh. verður ekki neitt bundinn af þessum skilyrðum, heldur getur hann tekið ákvarðanir alveg án þeirra ósköp einfaldlega með tilvísun til laganna sem eru nú bara þessi eina setning og með tilvísun til þess að hann kunni að hafa allt aðrar skoðanir á þessu en þær sem meiri hl. iðnn. lagði „áherslu“ á þegar málið var til afgreiðslu. Ef menn ætla að setja fyrirvara við lagasetningu þá verður að sjálfsögðu að gera það með strangari og skilvirkari hætti en gert er hér í nál. meiri hl. iðnn. Því miður þá er sá fyrirvari lítils virði og alls ekki fullnægjandi í þessu samhengi. Auk þess sem fyrirvarinn gengur nú ekki lengra en svo að hann opnar líka býsna margar gáttir þegar meðalstór fyrirtæki eiga í hlut og smærri fyrirtæki - hvað svo sem sú skilgreining á nú nákvæmlega að þýða því hætt er við að margur iðnrh. mundi túlka þau orð með þeim hætti sem honum hentaði best þegar á reyndi og ekki er nú mikil festa í svo loðnu orðalagi.

Hæstv. forseti. Ég vil að endingu leggja þunga áherslu á það að þetta er ekkert smámál, þetta er stórmál sem hér er á ferðinni og ég vænti þess fastlega að það verði til vandlegrar athugunar í hv. iðnn.