25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4844 í B-deild Alþingistíðinda. (3330)

191. mál, tjón á ljósleiðurum

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í þeirri fsp. sem hér er fram borin er um að ræða efni 3. tölul. sem til mín er beint, en spurt er um hvort úrskurður félmrn. dags. 4. ágúst 1987 varðandi samskipti Landssímans og skipulagsyfirvalda um lagningu ljósleiðara kalli á breytingar á gildandi lögum.

Úrskurður ráðuneytisins frá 4, ágúst 1987, sem til er vitnað, er svar við fsp. byggingarfulltrúans í Skagafjarðarsýslu um hvort Póst- og símamálastofnun þurfi að fá samþykkt sveitarstjórnar og skipulagsstjórnar ríkisins fyrir staðsetningu jarðlínulagna eða símastrengja í jörðu. Niðurstaða ráðuneytisins um að samþykki skipulagsyfirvalda sé ekki nauðsynlegt til umræddra framkvæmda var m.a. byggð á því að lagnir þær sem hér um ræðir hefðu ekki áhrif á útlit umhverfisins og féllu ekki undir byggingarframkvæmdir í skilningi skipulagslaga og að fjarskiptalögin væru sérhæfð lög gagnvart skipulagslögum og yngri en þau.

Í úrskurðinum segir enn fremur að ráðuneytið hafi beint þeim tilmælum til samgrh. að settar verði reglur um samráð og umgengni við landeigendur í stað einhliða leiðbeininga Póst- og símamálastofnunar. Það gerði ráðuneytið sama dag eða 4. ágúst sl.

Vegna þessa máls hefur það verið skoðun mín að skipulagslög þyrftu að geyma fyllri ákvæði en núgildandi lög gera, m.a. um dreifikerfi rafmagns og síma, lagningu vega, virkjunarmannvirki og hafnarmannvirki. Í ráðuneytinu hefur verið til athugunar frv. til nýrra skipulagslaga og er brýnt að gefnu tilefni að það ákvæði skipulagslaga sem kveður á um dreifikerfi rafmagns og síma, lagningu vega, virkjunarmannvirkja og hafnarmannvirkja fái í þeirri umfjöllun sérstaka skoðun.