25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4856 í B-deild Alþingistíðinda. (3351)

237. mál, raforkuverð

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Það hefði þurft að vera meira en örstutt athugasemd. Reyndar hefur þetta mál verið rætt talsvert í þessari hv. deild fyrir skömmu. Ég vil fyrst benda á að rafhitunarverð hefur lækkað á undanförnum árum miðað við annað verðlag. Ég vil jafnframt benda á að árið 1980, 1981, 1982 og 1983, ef einhver skyldi kannast við þau ártöl, var rafhitunarkostnaður hærri en hann er nú. Ég held, og þetta eru viðkvæm mál, að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hljóti að ræða þessi mál vegna þess ójafnvægis sem er komið upp, ekki vegna þess að rafhitunarkostnaðurinn hafi hækkað heldur vegna þess að gasolían hefur stórkostlega lækkað og það er það óréttlæti sem menn eru að tala um ef þeir vilja segja sannleikann í þessu máli.

Ég vil aðeins benda á að á sama tíma frá 1980, þegar RARIK-verðið, í föstum krónum talið, lækkar um 17%, hækkar Hitaveita Reykjavíkur sína gjaldskrá um 53%. Þetta er miðað við byggingarvísitölu. Þetta eru staðreyndir sem tala sínu máli vegna þess að við höfum lækkað heilmikið rafhitunarkostnaðinn.

Út af því sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði, þá má út af fyrir sig hugsa sér slíkar lausnir. Ég vil benda á stað þar sem mesta óréttlætið er. Það er á Húsavík og á Tjörnesi. Húsvíkingar borga 5–6 sinnum lægra orkuverð en nágrannasveitirnar. Auðvitað er þetta óréttlátt þegar maður horfir svona á það. En þetta er í kjördæmi hv. þm. Hann getur beitt sér fyrir því að þeir jafni þetta út. Ég held raunar að menn verði að fara varlega áður en þeir fara að gefa hér yfirlýsingar á borð við þær að það eigi að setja niður ákveðnar reglur í þessu sambandi.

Og að lokum þetta til hv. þm. Alexanders Stefánssonar: Þeir reikningar sem hann les hér upp um hitunarkostnað í Ólafsvík og Reykjavík eru að því leytinu til ólíkir að annars vegar er um að ræða vetrarverð og hins vegar er um að ræða jafnaðarverð. Það verður að taka tillit til þess.