25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4857 í B-deild Alþingistíðinda. (3353)

280. mál, rannsóknarnefnd umferðarslysa

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Reykn. spyr hvort ég hyggist skipa rannsóknarnefnd umferðarslysa samkvæmt heimild í nýju umferðarlögunum sem taka gildi um mánaðamótin. Ég svara þessu þannig að ég tel ákvörðun um slíka nefndarskipun ekki tímabæra að svo stöddu. Dómsmrn. hefur verið að kynna sér reynslu annarra þjóða í þessu efni, t.d. reynslu Norðmanna, en þar hafa slíkar nefndir um skeið starfað til reynslu í Rogalandsfylki. Niðurstaða Rogalandsbúa er sú að það sé mikilvægt að samræma gerð skýrslna um umferðarslys úrvinnslu úr þessum skýrslum og útgáfu þeirra. Það þarf að bæta rannsóknir á vegum lögregluyfirvalda á umferðarslysum og þar verði kallaðir til fleiri fagmenn en þeir sem starfa innan lögreglunnar. Ég vil láta fylgjast lengur og nánar með reynslu annarra af skipan fastrar rannsóknarnefndar áður en hún verður ákveðin hér.

Ég tek sterklega undir það með fyrirspyrjanda að rannsókn á orsökum umferðarslysa er ein mikilvægasta forsendan fyrir góðum slysavörnum, en ég bendi á að hér er ekki um sambærilega nefndarskipun að ræða og flugslysa- eða sjóslysanefnd. Verkefni þeirra nefnda koma til allrar hamingju mun sjaldnar upp en verkefni hugsanlegrar bílslysanefndar, en slík nefnd gæti hæglega orðið að miklu bákni. Það er því eðlilegt að áður verði athugað hvort ekki má í staðinn auka og bæta rannsóknir lögreglunnar á bifreiðaslysum og úrvinnslu á skýrslum hennar.

Þá vil ég láta kanna hvort ekki sé skynsamlegt að takmarka verkefni slíkrar nefndar, ef skipuð yrði, við bifreiðaslys sem leitt hafa til mannsláts. Innan dómsmrn. er nú til athugunar sú hugmynd að láta rannsaka sérstaklega orsakir banaslysa sem urðu í umferðinni á árinu 1987. Komi í ljós að ófullnægjandi skýrslur lögregluyfirvalda torveldi það að niðurstaða fáist um raunverulegar orsakir slysanna, þá verður skýrslugjöfin að sjálfsögðu endurbætt. Þessi hugmynd er nú til athugunar hjá starfsmönnum dómsmrn., en þeir hafa reyndar að undanförnu verið ákaflega bundnir við önnur verkefni í sambandi við gildistöku nýju umferðarlaganna. Þessu máli verður því sinnt síðar og betur en þegar hefur verið gert.