25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4883 í B-deild Alþingistíðinda. (3395)

240. mál, hernaðarframkvæmdir

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fyrsta spurning hv. þm. er um nýjar framkvæmdir sem ég hef heimilað og ekki hafa áður komið fram í skýrslum. Það eina sem ég hef heimilað en sem er alveg óákveðið hvenær reist verður er svokallað hugbúnaðarhús eða miðstöð þar sem unnið verður við hugbúnað þann sem stjórnar þeim radarstöðvum sem verið er að reisa. Þær verða allar tölvustýrðar og er viðamikill hugbúnaður í því sambandi nauðsynlegur. Eins og kemur fram í þeirri skýrslu minni sem ég flyt eftir u.þ.b. klukkutíma er gert ráð fyrir að íslenskir kerfisfræðingar vinni við þann hugbúnað.

Ég hef farið yfir þær framkvæmdir sem um er að ræða og ég sé ekki betur en þeirra sé allra getið í fyrri skýrslu nema ég fann ekki eina, sem er að vísu löngu samþykkt, og það er æfingasvæði fyrir slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli. Varla getur það talist hættuleg hernaðarframkvæmd. Annað hygg ég að sé allt í fyrri skýrslu.

Í öðru lagi er spurt um hina „rammgerðu“ og „sprengjuheldu“ hernaðarstjórnstöð. Ég verð að leiðrétta þetta. Ég kynnti mér þá framkvæmd með mönnum sem ég treysti. Því fer víðs fjarri að þessi stjórnstöð þoli sprengju. Hún mundi aldrei þola sprengju sem kæmi beint á hana eða rétt við hana. Ég tala ekki um ef það væri kjarnorkusprengja. Því fer víðs fjarri. Hins vegar er hún þannig útbúin að þótt falli kjarnorkusprengja einhvers staðar fjær á svæðinu eiga þeir sem þar starfa að geta haldist þar við í nokkra daga, mér er sagt 5–7 daga. Loftræstikerfi og veggir svo þykkir og fleira að hún á ekki að falla við slíka sprengju.

Hins vegar er þessari stjórnstöð ætlað að gegna nákvæmlega sama hlutverki og nú er í gömlu stálgrindarhúsi. Ég held að hver sem það heimsækir muni sjá að það er orðið æðiúrelt, bæði tæknilega og aðstaða öll afar erfið. Ég hef einnig kynnt mér hvað þar á að fara fram. Það er ekkert þar sem getur talist til að stjórna kjarnorkustyrjöld. Því fer víðs fjarri. Þarna verður tekið við merkjum frá þeim kafbátaleitartækjum sem liggja um Atlantshafið, tekið við skilaboðum frá þeim flugvélum sem fljúga yfir og fylgjast með umferð í lofti og á hafi og tekið við skilaboðum eða merkjum frá þeim radarstöðvum sem er verið að byggja. Þessar radarstöðvar eru allar af þeirri gerð að þær ná ekki eða sjá ekki, eins og stundum er sagt, yfir sjóndeildarhringinn eins og þær fullkomnu radarstöðvar sem reistar eru víða um heim, að því að mér skilst, og geta stjórnað ferð flugskeyta. Þær ná 200 mílur út og eru að okkar ósk með radar sem getur fylgst með yfirborði sjávar því við teljum það mikilvægt í sambandi við t.d. björgunarstörf og eftirlit með skipum. Þær verða mannaðar algjörlega af Íslendingum.

Í þriðja lagi er spurt hvort komið hafi til álita í ríkisstjórn að láta draga úr, fresta eða hætta alveg við einhverjar hernaðarframkvæmdir hérlendis. Eins og kemur fram í skýrslu minni hef ég frestað að vísu aðeins einni framkvæmd eða einum áfanga við olíuhöfnina og dregur það úr framkvæmdum um u.þ.b. 4 millj. dollara, en mér þykir það mikilvægast í þessu sambandi, sem ég hef a.m.k. sannfærst um, að allt það sem verið er að gera er í þágu eftirlits og þar með náttúrlega varna, en alls ekki árásar.

Mér væri ljúft að beita mér fyrir því að hv. þm. fái aðgang að þessum upplýsingum og fái að kynna sér málið. Ég er sannfærður um að þetta er í þágu eftirlits sem verður stöðugt mikilvægara í þeirri jákvæðu þróun sem er að verða í heimsmálum.