25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4887 í B-deild Alþingistíðinda. (3400)

270. mál, leigukjör Stöðvar 2

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Svar við fyrsta lið fsp. hv. þm. er að gjald fyrir hvert sjónvarpssamband í flutningakerfi Póst- og símamálastofnunarinnar var við lok síðasta árs mánaðarlega 42 158 kr. án söluskatts. Hvert sjónvarpssamband samkvæmt gjaldskrá Pósts og síma - nú er þetta allt svo tæknilegt að það er allt að því erfitt að svara nákvæmlega - er yfirleitt á bilinu 40–60 km. Tökum dæmi: Eitt samband Reykjavík-Selfoss, annað samband Selfoss-Hvolsvöllur. Gjaldið, sem fylgir almennum gjaldskrárbreytingum hjá stofnuninni, er nú á mánuði 50 590 kr. án söluskatts og Stöð 2 leigði í lok síðasta árs 18 slík sjónvarpssambönd en leigir nú 26.

Sem svar við 2. tölul.: Ákvörðun leigunnar miðast við hlutfallslegan kostnað í flutningskerfinu.

Sem svar við nr. 3: Leigusamningurinn er uppsegjanlegur af beggja hálfu með tólf mánaða fyrirvara.

Svar við nr. 4: Séu laus sjónvarpssambönd til hjá Póst- og símamálastofnun standa þau öllum rekstrarfyrirtækjum sjónvarps til boða á sömu kjörum og Stöð 2, enda hafa fleiri aðilar en Stöð 2 ofangreind sjónvarpssambönd á leigu hjá stofnuninni. Póst- og símamálastofnunin er að leggja ljósleiðarastrengi víðs vegar um landið vegna uppbyggingar fjarskiptakerfa stofnunarinnar sem auðveldar lausnir á sjónvarpssamböndum nánustu framtíðar og leiðir til lækkunar á leigugjöldum vegna samnýtingar.

Ég vonast til þess að þessi svör séu fullnægjandi varðandi þessar fsp.