02.03.1988
Efri deild: 64. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5311 í B-deild Alþingistíðinda. (3540)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Örfá orð að gefnu tilefni. Hv. 7. þm. Reykv. er þrátt fyrir ungan aldur fyrrv. formaður Alþb. og fyrrv. heilbr.- og félmrh. Hann sat á sínum tíma í ríkisstjórn þar sem annar hv. þm. og fyrrv. formaður Alþb., Ragnar Arnalds, gegndi starfi fjmrh. Áreitnislaust mun það vera dómur sögunnar að þeim félögum hafi ekki tekist mjög vel til um landsstjórnina á þessum tíma. Það er yfirleitt ekki umdeilt m.a. að ástand í húsnæðismálum hafi undir lok þess stjórnartímabils verið heldur bágborið. Þess er að minnast t.d. að hið svokallaða hlutfall húsnæðislána í hlutfalli við kostnað staðalbúðar var orðið býsna lágt.

Ekki hvarflar að mér að ætla að óhöndugleg niðurstaða þessara mála, þar á meðal upphaf misgengis lána og launa- og lánskjara sem upphófst á þessu tímabili, hafi verið niðurstaða af einhverjum ásetningi þeirra félaga. Ekki hvarflar að mér annað en að ætla að einhvern tíma hafi hæstv. félmrh. leitað eftir því að fá meira fé til húsnæðismála en honum tókst að fá og vafalaust var það svo í þeirri ríkisstjórn sem hann sat í eins og öðrum að hann hefur búið við þá togstreitu að vilja sem fagráðherra fá meira fé til síns málaflokks en t.d. flokksbróðir hans og fyrrv. formaður Alþb., þáv. fjmrh., taldi sér fært að verða við. Ef það er svo er niðurstaðan sú að hv. þm. hafi hvað eftir annað orðið fyrir vantrausti af hálfu Ragnars Arnalds, flokksbróður síns og fjmrh. Þannig vildi hann leggja málið út.

Nú hygg ég að það færi bærilega á með þeim fóstbræðrum og samstarf þeirra sé bærilegt og í raun og veru hvarflar ekki að mér að leggja það svo út að hv. þm. hafi á þeim árum orðið að sitja undir vantrausti Ragnars Arnalds þótt hv. þm. sem ráðherra hafi ekki tekist að útvega það fé til sinna mála sem honum hefði þótt æskilegt. Mikið meira þarf ekki að segja um þá hundalógík sem birtist í þessum orðum hv. þm.

En til að hnykkja á þessu er rétt að taka fram líka að þótt ég hafi stutta stund setið á stóli fjmrh. er mér kannski hvað efst í huga að í þessu stjórnarsamstarfi eins og fyrr og síðar í íslensku stjórnkerfi er uppi linnulaus togstreita milli annars vegar þess sem fer með starf fjmrh. og hinna sem stýra hinum útgjaldafreku fagráðuneytum, að allir vildu þeir fá meira fé til sinna málaflokka. Að gefnu tilefni er rétt að nefna það hér líka vegna þeirra efnahagsráðstafana sem hér hafa verið til umræðu að hæstv. samgrh. lét líka bóka í ríkisstjórn andstöðu sína við niðurskurð til vegamála. Ef ég færi að rifja upp hér alla þá sögu um hvernig tekist hefur verið á um fjárveitingar til einstakra málaflokka og hvernig það hefur komið í hlut fjmrh. að reyna að halda aftur af öðrum væri sú saga nokkuð löng. Það er eðli íslensks stjórnkerfis eins og það er byggt upp að sú togstreita er viðvarandi þáttur, ekki bara í samsteypustjórnum heldur í því stjórnarmynstri og stjórnsýslukerfi sem við búum við. Þetta á ekkert skylt við vantraust. Þetta á ekkert skylt við það.

Eins mætti þá snúa dæminu við og segja að í samstarfi félmrh. og fjmrh. við gerð fjárlaga var, eins og mönnum er kunnugt af lestri fjárlaga, þannig um hnútana búið að fjárveitingar til húsnæðismála voru stórlega auknar. Ég minni t.d. á að fjárveitingar til Byggingarsjóðs verkamanna voru tvöfaldaðar. Ég minni á það þrátt fyrir allt að fjárveitingar til Byggingarsjóðs ríkisins voru auknar og ég minni á að í fjárlögum er gert ráð fyrir fjárveitingu til byggingar kaupleiguíbúða í samræmi við samkomulag sem tókst við stjórnarmyndun á milli formanna flokkanna um að það skyldi gert. Þessi útúrsnúningur hv. þm. var þess vegna út í hött og honum ósamboðinn. Ef hann vill halda því fram að þetta feli í sér vantraust á hendi félmrh. er niðurstaðan sú að hann hafi sjálfur mátt þola slíkt vantraust oftsinnis frá sínum flokksbróður, en því trúi ég ekki og legg það ekki út á þann veg.