02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5357 í B-deild Alþingistíðinda. (3570)

293. mál, áfengislög

Ragnhildur Helgadóttir:

Ég vil í fyrsta lagi þakka hæstv. heilbrrh. fyrir hans orð hér í dag og svör hans við nokkrum athugasemdum og spurningum mínum. Ég er því alls hugar fegin að heyra hverjar ályktanir hann dregur af þeim gögnum sem fyrir hendi eru og rannsóknum sem fram hafa farið á áhrifum þess að bæta nýrri áfengistegund við þær sem fyrir eru og þar með að auka heildarneyslu áfengis og svo aftur á móti þær afleiðingar sem það hefur í för með sér. Mér er það ljóst af orðum hæstv. ráðherra að hann vill ekki leggja lóð á vogarskálar til þess að auka þessa heildarneyslu með þar af leiðandi aukaskaða.

Ég kvaddi mér einungis hljóðs vegna þess að í máli hæstv. ráðherra kom það fram að því er mér virtist að engar þjóðir, sem ætluðu sér að draga úr heildarneyslu áfengis, ætluðu sér að gera það með því að banna einhverjar tegundir, eins og hæstv. ráðherra orðaði það. Nú liggur það auðvitað alls ekki fyrir með hvaða hætti einstakar þjóðir ætla að ná þessu marki og það er áreiðanlega mismunandi. Það höfum við þegar séð og við höfum líka séð að sumar þjóðir hafa ýmsan hátt á að takmarka aðgengi, eins og það er orðað, að áfengi með því að auka á ýmiss konar hömlur, annaðhvort með því að fækka þeim tímum dags sem veitingahús hafa áfenga drykki á boðstólum eða tilteknar tegundir o.s.frv. Þetta könnumst við flest við. Þeir sem ætla að panta sér koníak með kaffinu á eftir matnum á sunnudegi í veitingahúsi í Osló fá það svar að sterkir drykkir séu ekki framreiddir þar á þeim tíma dags. Ef þeir ætla á bar í sömu borg og fá sér kokkteil fyrir mat, kannski á þeim tíma sem aðrar þjóðir teldu að slíkt væri gert, t.d. klukkan hálfsex eða svo, þá fá þeir það svar að það sé nú ekki gert á þeim stöðum á sunnudögum eða á þeim tíma sem nánar er tiltekinn. Þetta veit ég að var a.m.k. á tímabili. Vel kann að vera að tímamörkum hafi verið breytt og tegundum frá því er þetta var. En ég nefni þetta til að sýna að það er ýmiss konar háttur sem menn hafa á því að takmarka drykkju manna án þess þó að um algert bann sé að ræða. Að vísu er það svo að sú umræða sem núna fer fram í Finnlandi um takmörkun á öldrykkju mun ganga út á hugsanlegt bann á svokölluðu milliöli.

En því fjölyrði ég um þetta að ég hef orðið þess vör að nokkrir þm. líkja þeirri afstöðu að vera andvíg því að innleiða bjór hér á landi við það að banna tegund. Þetta er dálítil rökvilla, því að hér er verið að tala um að bæta nýrri tegund við en ekki að banna það sem fyrir er.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherra, ef ég skildi hann rétt, að ekki kæmi fram í gögnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að bjór hefði þau áhrif í för með sér að heildarneyslan ykist. Þetta hygg ég nú að hæstv. ráðherra eigi eftir að sjá að er kannski á misskilningi byggt. Ég skil það vel að hæstv. ráðherra hafi ekki verið með öll gögn tiltæk þegar ég bað hann um að svara hér í dag, en það er ljóst að það liggur fyrir í ýmsum gögnum þeirra aðila hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem þessar rannsóknir og þessi mál hafa með höndum að einmitt þetta er staðreyndin. Ég mun nefna nokkur þessara rita þannig að hæstv. ráðherra og þá sérstaklega hv. nefnd geti fengið þau til athugunar, en þetta liggur fyrir á ýmsum stöðum.

Ég vil einnig, áður en ég kem að því atriði að gera nánari grein fyrir þessum staðreyndum sem getið er um í tilteknum ritum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, nefna eitt til viðbótar vegna þess að hæstv. ráðherra vitnaði hér til samtals við dr. Halfdan Mahler, aðalritara þessarar títtnefndu stofnunar, og mér skildist að Mahler hefði undrast að hér væri ekki bjór á boðstólum. Ég hafði einhvern tíma skilið sama mann svo að hann teldi nú ekki ástæðu fyrir okkur að innleiða þessa breytingu en vel má vera að ég hafi misskilið það eða annað hvort okkar. En það liggur algjörlega ljóst fyrir hver ráð þeirrar stofnunar, sem þessi maður stendur fyrir, eru í þessu sambandi. Og fyrst menn nefna tiltekna menn í þessu sambandi þá vil ég leyfa mér að nefna dr. Sartorius, sem er forstöðumaður geðheilbrigðisdeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, en það er sú deild sem hefur með alkóhól- og eiturlyfjavanda að gera. Dr. Sartorius segir að það sé algjörlega ljóst að bjór muni þar sem hann hefur ekki verið fyrir bæta við áfengisvandann og því sé ekki ráðlegt að hverfa að þessu ráði.

Þetta er auðvitað ekki einungis persónuleg skoðun manns, heldur niðurstaða í fjölmörgum ritum eins og ég nefndi áðan og af því leiðir líka að menn hafa af því verulegar áhyggjur að þar sem neyslan hefur nokkuð staðnað í iðnríkjum vesturálfu, þá sækja menn inn á nýjan markað í þróunarlöndunum. Þetta er nokkuð alvarleg staðreynd.

Fljótt á litið kynnu menn að spyrja: Hversu mikið kemur okkur það við? En vissulega kemur okkur það við í heimi þar sem við stöndum andspænis vaxandi samskiptum norðurs og suðurs og ríki norðurhluta heims leggja sig fram um að styðja suðurhlutann með ýmsum ráðum, bæta þar úr heilsubresti og aðstoða menn til þess að afla sér viðurværis og kenna þeim sitthvað í því sambandi. Þessi markaðssókn auðveldar ekki það starf. Hitt er annað að mér er það mætavel ljóst að þetta er hlutur sem við ráðum ekki við, en hins vegar staðreynd sem er kannski rétt að hafa á bak við eyrað þegar við hugleiðum við hvern vanda er að etja.

Áður en ég vík að fleiri atriðum ætla ég að nefna nokkur þeirra rita Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem ég sagði að ég mundi gera. Í riti stofnunarinnar nr. 89/1985 er m.a. getið um það hvernig neysla allra eykst hlutfallslega með vaxandi heildarneyslu og þar sem heildarneysla vex þar fjölgi stórneytendum meira en svari til aukningar heildarneyslunnar. Þetta er enn eitt atriðið. Heildarneysla áfengis á mann í þjóðfélaginu og skaðsemin breytast í takt. Þetta segir í riti sömu stofnunar nr. 88 og höfundar þess eru frá Royal College of Psychiatrists. Í riti Heilbrigðisstofnunarinnar NH 85 nr. 14 segir að þetta leiði til fleiri sjúkdómstilvika og ótímabærra dauðsfalla og er eitt út af fyrir sig næg ástæða fyrir þá sem heilbrigðismálum sinna til að vinna gegn öllu sem stuðlað getur að aukinni neyslu.

Allir áfengir drykkir eru jafnhættulegir vegna þess að það er vínandamagnið sem skiptir máli en ekki einhverjir aðrir eiginleikar drykksins. Hin almenna trú að bjór sé tiltölulega hættulítill og það séu aðeins þeir sem drekka brennivín sem verði drykkjusjúkir eða fái skorpulifur á ekki við rök að styðjast. Og það er sama virta fræðistofnunin og áður getur, Royal College of Psychiatrists sem þetta segir í ritum sínum árið 1986.

Enn má geta þess að í löndum þar sem bjór er algengasta áfengistegundin eru flestir drykkjusjúklingar bjórdrykkjumenn.

Nú er það auðvitað alveg ljóst að í fjölmörgum löndum er þessi tegund áfengis hluti af þjóðlífinu ef svo má segja eða hver hefur ekki sannfærst um það sem hefur kannski komið til München og litið þar inn á staði eins og Hofbrauhaus sem er frægur staður í Evrópumenningunni. En engu að síður veldur þetta gífurlegum vanda. Og hvergi þar sem bjór hefur verið bætt við aðrar áfengistegundir hefur hann orðið til þess að draga úr áfengisvanda eða áfengisneyslu. Þetta eitt finnst mér nægileg röksemd til þess að við séum ekki að gera þessa tilraun rétt sisvona að gamni okkar á útmánuðum vegna þess að þetta er vinsælt umfjöllunarefni oft og tíðum fyrir kosningar og meðal fjölmiðla, eins og hér var getið í dag, og kannski vegna þess að þegar menn fjalla um það í þeim tón sem þá tíðkast, þá eru menn eiginlega að taka sér frí frá alvarlegri deilum þar sem menn skiptast í flokka eftir nokkurn veginn ákveðnum línum. Þess vegna er þetta ekki aðeins spurningin um þann sjálfsagða hlut að við látum vera sem allra fjölbreyttast úrval neysluvöru á markaðnum — að fólk rétt ráði því sjálft hvort það notar sjávarsalt eða jurtasalt í matinn sinn eða hvort það gerir sér graut úr hafragrjónum eða hrísgrjónum. Það er allt annar hlutur sem við erum að tala um hér vegna þess að við verðum að bera ábyrgð á afleiðingunum. Og hvað eru menn svo að tala um að geti verið ráð til þess að snúast gegn þessum afleiðingum? Jú, þeir segja: Aukin fræðsla.

Mér verður litið á hv. þm. sem hér situr mér til vinstri handar, hv. þm. Níels Árna Lund, sem gegndi með mikilli prýði og raunsæi því vandasama verkefni sem æskulýðsfulltrúi að fjalla m.a. um fræðslu fyrir ungmenni um skaðsemi áfengis og vímuefna. Ég spyr nú þennan hv. þm.: Hefur hann trú á því að samþykkt þessa frv. mundi valda því að nú yrði allt í einu svo stórkostlega aukin fræðsla um þessi efni að hún mundi valda því að þau yrðu mönnum allt í einu skaðlaus að hafa jafngreiðan aðgang að og vera mundi ef frv. yrði samþykkt? Mér sýnist að ekki hafi gengið svo greiðlega að fá nægilegt fjármagn til þeirra aðila sem lögum samkvæmt hafa með höndum fræðsluhlutverk í þessu skyni að ég leggi á það nokkurn trúnað að allt í einu yrði samþykkt þessa máls til þess að menn tækju svo hraustlega við sér í fræðslustarfseminni að það mundi ekki einungis eyða skaðlegum áhrifum af þessari viðbót við þá neyslu sem fyrir er í landinu, heldur beinlínis draga úr þeim vanda sem fyrir er. Til þess að draga úr þeim vanda sem fyrir er væri miklu einfaldara að afla fjár með öðrum hætti en þeim sem hér er gert ráð fyrir í frv.

Stundum verða menn feimnir þegar talað er um að hér sé um fjáröflunarfrv. að ræða. Það skyldi þó ekki vera ástæða fyrir því að þetta frv. er með svo eindreginni ákvörðun hæstv. forseta rætt hér nú í kvöld einmitt þegar efnahagsmálafrv. ríkisstjórnarinnar er til meðferðar og mál þeim tengd? Það skyldi þó ekki vera að það sé ekki tilviljun að þetta mál sé rætt hér sama daginn og menn eru að tala um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu?

Seinast þegar bjórfrv. var á ferðinni hér í hv. Alþingi, þá óskaði hæstv. þáv. forsrh. eftir því við Þjóðhagsstofnun að hún reiknaði út hver tekjuauki ríkissjóðs gæti orðið af því ef framleiðsla og sala áfengs öls væri leyfð hér á landi. Og Þjóðhagsstofnun sendi útreikninga sína, gerði þessa útreikninga. Það liggur fyrir að Þjóðhagsstofnun á Íslandi hefur gert áætlun um það hvað tekjur ríkissjóðs mundu aukast við bjórsölu, m.ö.o. hve heildarneyslan eykst mikið. Þetta liggur fyrir. Og halda menn að þetta sé breytt núna? Ganga menn út frá einhverjum öðrum forsendum núna? Eru menn allt í einu í alvöru farnir að halda það að heildarneyslan aukist ekki?

Ég var einu sinni þeirrar skoðunar að þetta mál væri ekki það stórmál að það ætti skilið svo langvarandi umfjöllun sem það hefur oft fengið hér í Alþingi. En það sem mér finnst stórmál í því er hve furðumargir virðast skella skollaeyrum við þeim augljósu heilbrigðisrökum sem fyrir liggja. Og á sama tíma kveðast þeir vilja berjast gegn auknum vímuefnavanda í landinu. Þetta á ekkert skylt við það hvort okkur hverju um sig þykir gott að fá bjór eða ekki, hvort við viljum vínglas eða ekki. Það sem máli skiptir er skylda okkar til þess að taka þær ákvarðanir sem við teljum vera almenningi í landi okkar fyrir bestu. Sumir hafa jafnvel sagt: Ja, væri ekki æskilegra að ungt fólk drykki frekar bjór en sterk vín eins og allt of algengt er? Ég held að hvort tveggja sé óæskilegt, en ég er þeirrar skoðunar eins og margir aðrir að það mundi vissulega auka drykkju unglinga og gera hversdagsdrykkju í þjóðfélaginu meiri. Og svo að ég grípi hér niður í eitt af dönsku blöðunum sem hingað berast, blöð Norðurlanda berast jafnt og þétt í hliðarherbergi í Alþingi, ég leit á eitt þessara blaða frá því sl. laugardag. Þar stendur: „Ungt fólk drekkur dag hvern.“ Fyrirsögnina má sjálfsagt ekki taka sem alhæfingu. Svo stendur í lauslegri þýðingu, með leyfi hæstv. forseta:

„Félagsmálastarfsmenn efast um þýðingu þess að spyrja ungt fólk um hve marga sjússa það drekkur. Sjöundi hver skólanemandi milli 13 og 18 ára í Juelsminde upplýsir að hann drekki milli 10 og 47 sjússa um venjulega helgi. Það er ekki víst að maður fái nákvæma tölu þegar maður spyr um fjölda sjússa, segir Egil Lyne, sem er ráðunautur í vímuefnamálum í Árósaamti. Hann er meðhöfundur rannsóknar frá Randers sem var gefin út 1986. Í henni voru börn og unglingar á staðnum aðeins spurð hvort þau hefðu drukkið öl í síðustu viku. Þriðji hver af þeim sem voru 15–16 ára svaraði játandi. Randers-tölurnar og mikilvægasta niðurstaða þeirra er að það er tilhneiging til „hversdagsneyslu meðal ungs fólks“, og það er þetta atriði, hversdagsneyslan, sem ég held að sé mikið lykilatriði í þessu máli, bæði að því er varðar unga og þá sem eldri eru.

Síðan segir í þessari litlu grein:

„Þetta boðar illt og verður að taka af meiri alvöru en þá neyslu, sem fer fram um helgar sem oft fer fram við hátíðleg tækifæri, segir Egil Lyne. Í áfengis- og vímuefnaráðinu segir Johan Petersen fulltrúi: Að verða fullorðinn í dag, það tengist áfengi í ríkara mæli heldur en fyrir 15 árum. Oft taka börnin upp lífsháttu hinna eldri og í dag deyja fleiri ungmenni á milli 25 og 34 ára af skorpulifur en fyrir 10 árum síðan.“

Þetta seinasta atriði er auðvitað ekki, þótt dapurlegt sé, meginatriði í sambandi við það frv. sem við höfum hérna með höndum. Þetta er eitt af hinum mörgu hliðaratriðum sem við getum ekki lokað augunum fyrir, að neyslan hefur færst í yngri aldurshópa og að það liggur fyrir eftir rannsóknum af þessu tagi, eins og frá því var sagt deginum áður í Politiken, 26. þ.m., að flest af þessu unga fólki taki bjórinn fram yfir annað. Og það er ekki nýtt fyrirbrigði í Danmörku en þar er, eins og við vitum, áfengisneysla mjög mikið vandamál.

Þetta vildi ég segja, herra forseti, fyrst og fremst til þess að leggja áherslu á það að í mörgum ritum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar liggur það nákvæmlega fyrir sem hefur verið sagt hér oft í ræðum ýmissa þm. í dag, að þar sem bjór hefur ekki verið almennur og honum er bætt við hina venjulegu áfengisneyslu, þá eykur hann hina almennu neyslu og að hin aukna heildarneysla eykur þann vanda sem við er að etja af völdum áfengis. Menn segja: Við erum fylgjandi þessu máli ef hægt er að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar. Ég vitna til þeirrar reynslu sem við höfum og segi: Besta ráðið til að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar er að sleppa því að samþykkja þetta frv.