02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5388 í B-deild Alþingistíðinda. (3577)

293. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil aðeins víkja frá þingsköpum með því að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir hans svör hér.

Hv. 2. þm. Reykn. hélt því fram að þm. hefðu orðið þinginu til skammar. Í tilefni af því vil ég leyfa mér að lesa upp 68. gr. þingskapa, með leyfi forseta:

„Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern mann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu, þá skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert“, og nefna þau ummæli sem hann vítir. Nú er þingmaður víttur tvisvar á sama fundi og má þá forseti, með samþykki fundarins, svipta þingmanninn málfrelsi á þeim fundi.“

Með þeim orðum sem hv. 2. þm. Reykn. viðhafði áðan vó hann mjög gróflega að forseta þessarar deildar. Hann beinlínis bar það á hann að hann sinnti ekki skyldu sinni því samkvæmt þeim texta sem ég las upp stendur ekki, má“ forseti heldur „skal“ forseti. Ég harma það að þó að hv. 2. þm. Reykn. telji sig eiga eitt og annað vantalað við þann sem hér stendur og hv. 4. þm. Austurl. skuli hann ekki gá svo að orðum sínum að hann ráðist á forseta á þann hátt sem hann gerði og það er honum til lítils sóma.