03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5398 í B-deild Alþingistíðinda. (3597)

305. mál, útgjöld vísitölufjölskyldu

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Því miður er ekki unnt að svara fsp. hv. 2,. þm. Austurl. eins og hún er fram borin. Fyrir því eru ýmsar ástæður.

Í fyrsta lagi sú einfaldlega að þetta hefur ekki verið reiknað og ekki tími til þess á þeim tíma sem leið frá því að fsp. var fram borin og þar til þetta munnlega svar er gefið og eins hitt að þótt þessi svör væru fundin og dæmin rétt reiknuð, ef það væri hægt, má ekki draga af þeim niðurstöðum beinar ályktanir um lífskjarasamanburð milli landa. Líklega væri réttara að leita svars við spurningunni: Hver væri kaupmáttur meðaltekna sem aflað er hér á landi eftir skatta ef eyða mætti þeim erlendis t.d. í þeim löndum sem talin eru upp í fsp.? Er kaupmátturinn meiri eða minni en hér á landi og hversu miklu munar? En það verður að segjast eins og er að það eru einnig veruleg vandkvæði á því að svara slíkum spurningum.

Hér kemur ekki til tómlæti eða viljaskortur. Ég vildi einnig gjarnan sjálfur vita svörin, en ég ætla að nefna nokkur atriði sem skýra það hvers vegna erfitt er að fá við slíkum spurningum óyggjandi svör.

Í fyrsta lagi er líklegt að flestir mundu eyða tekjum sínum með öðrum hætti erlendis en hér heima. Erlendis er vöruvalið annað og verðhlutföll önnur. Þetta eitt torveldar samanburð milli landa svo óyggjandi sé.

Í öðru lagi er það enginn hægðarleikur að safna upplýsingum erlendis um verð á sambærilegri vöru og þjónustu og fæst hér á landi. Þetta er hægt e.t.v., en ekki án tímafrekra og umfangsmikilla og um leið kostnaðarsamra kannana. Út í þær hefur ekki verið lagt nema að mjög takmörkuðu leyti.

Í þriðja lagi og það er kannski mikilvægast er miklum vandkvæðum háð að nota skráð gengi á hverjum tíma til að bera saman verðlag milli landa. Fram hjá þeim erfiðleikum má stíga en eins og ég nefndi áður ekki nema með ærinni fyrirhöfn. Ég get nefnt í þessu sambandi að Sameinuðu þjóðirnar, Efnahags-, samvinnu- og framfarastofnunin í París, OECD, og fleiri alþjóðastofnanir hafa nú um nokkurt skeið unnið að samræmdum mælingum á raunverulegum þjóðartekjum og þjóðarútgjöldum í ýmsum ríkjum. Íslendingar hafa ekki tekið þátt í þessu samstarfi til þessa, en við áformum að taka þátt í næstu lotu í þessum samanburði sem miðast við árið 1990.

Það ætti að vera orðið ljóst af því sem ég hef þegar sagt að ég get ekki svarað fsp. svo sem til er ætlast. Ég skil hins vegar vel áhyggjur fyrirspyrjanda af því að framfærslukostnaður gæti verið hærri hér á landi en í nágrannalöndunum. Ég held að það sé skynsamlegt að reyna að grafast fyrir um af hverju þetta stafar. Fyrir því kunna að vera margar ástæður. Ein er sú og kannski mikilvægust að hér vega óbeinir skattar þyngra en víðast hvar annars staðar. Í öðru lagi: Verslun kann að vera hér kostnaðarsamari en í öðrum löndum, bæði til landsins og í landinu sjálfu. Í þriðja lagi að óhagkvæmni ríki í greinum sem framleiða fyrir innlendan markað. Ég gæti nefnt fleira en læt þetta duga. Skipulegur en þó takmarkaður samanburður á vöruverði hér og í nágrannalöndunum, eins og Verðlagsstofnun hefur áður gert, getur gefið um þetta nokkra vísbendingu og ég mun hér eftir sem hingað til beina því til hennar að hún geri slíkar kannanir reglulega og eins til Hagstofu og Þjóðhagsstofnunar að þær vandi, og reyndar er það í samræmi við ýmsar þáltill. sem hér hafa verið fluttar og samþykktar á undanförnum árum, þennan lífskjarasamanburð betur en gert hefur verið til þessa.