02.11.1987
Efri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

60. mál, iðnaðarlög

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á iðnaðarlögum á þskj. 62. Það er mál nr. 60. Með frv. þessu er lagt til að iðnaðarráðherra fái heimild til að veita undanþágu frá skilyrði iðnaðarlaga um að meira en helmingur hlutafjár í íslenskum iðnfyrirtækjum skuli vera eign manna búsettra á Íslandi. Heimild sambærileg þeirri sem lögð er til í frv. var í iðnaðarlögum frá 1921 til 1978 þegar ákvæðið féll úr lögum. Reyndar var undanþáguákvæðið orðað þannig frá 1971 til 1978 „að heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðinu ef sérstaklega stendur á“, eins og það var orðað í lagagreininni. Í þessu frv. er stuðst orðrétt við orðalagið í iðnaðarlögum þeim sem í gildi voru frá 1927 til 1971, þ.e. að heimilt sé að veita undanþágu enda standi sérstaklega á.

Svo sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin markað þá stefnu í starfsáætlun sinni að lög og reglur um erlent fjármagn í íslensku atvinnulífi verði endurskoðuð og samræmd. Samkvæmt því er stefnt að því að erlent áhættufé geti komið í staðinn fyrir erlent lánsfé við fjármögnun atvinnufyrirtækja hér á landi. Í samræmi við þetta hefur forsrh. skipað nefnd til að vinna að almennri endurskoðun á lögum um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi. Sú nefnd starfar undir forustu Baldurs Guðlaugssonar hæstaréttarlögmanns. Aðrir í nefndinni eru Björn Friðfinnsson, Brynjólfur Bjarnason, Eiríkur Tómasson, Margeir Daníelsson og Þorvaldur Gylfason.

Ástæða þess að frv. þetta er flutt nú er sú að á síðustu mánuðum hafa leitað til ráðuneytisins nokkur innlend fyrirtæki sem hyggja á samstarf við erlend fyrirtæki um iðnrekstur hér á landi. Í nokkrum tilvikum hafa erlendu aðilarnir sett það sem skilyrði að þeir ættu jafnan hlut á móti innlendu aðilunum eða meiri hluta. Slík skilyrði geta verið eðlileg, t.d. þegar hinn erlendi aðili leggur til þá framleiðslutækni sem iðnreksturinn byggir á eða hefur yfir að ráða sölukerfi á mörkuðum erlendis á því sviði sem fyrirhugað iðnfyrirtæki framleiðir. Í íslensku samstarfsfyrirtækjunum getur einnig verið nauðsyn að fá erlenda samstarfsaðila til liðs við sig, t.d. þegar um úrvinnslu afurða er að ræða sem ekki verður stofnað til nema aðgangur sé tryggður að framleiðslutækni eða mörkuðum. Í einu tilviki hefur jafnvel komið til tals milli aðila að ef ekki verði heimilt að stofna hér á landi iðnfyrirtæki í jafnri eign aðila verði fyrirtæki stofnað í heimaríki hins erlenda aðila.

Brýnt er að tryggja að mikilvæg nýsköpun í iðnaði geti komist á hér á landi, verði ekki flutt úr landi í tilviki sem þessu. M.a. af þessum ástæðum er frv. þetta flutt. Nauðsynlegt er að afgreiða það frv. sem hér liggur fyrir hið allra fyrsta og óháð þeirri heildarendurskoðun á reglum um erlendar fjárfestingar sem nú fer fram á vegum ríkisstjórnarinnar og hlýtur að taka nokkurn tíma.

Hingað til hefur meginreglan verið sú að erlends fjármagns hefur verið aflað með lántökum þegar undanskilin er þátttaka erlendra aðila í stóriðju. Það er hins vegar eðlilegt og æskilegt að við reynum einnig að stuðla að því að innlendir og erlendir aðilar taki upp samstarf í nýjum atvinnugreinum og við endurskipulagningu á starfsemi sem þegar er fyrir hendi. Jafnframt verði tryggt að erlendir aðilar nái ekki tökum á náttúruauðlindum lands og sjávar, eins og skýrt er tekið fram í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar.

Samstarf innlendra og erlendra aðila í iðnfyrirtækjum getur aukið verulega fjölbreytni í útflutningi, flutt inn í landið nýja þekkingu, t.d. á sviði tæknimála, markaðsfærslu og stjórnunar. Síðast en ekki síst er það mikils virði að hinn erlendi samstarfsaðili beri hluta af fjárhagslegri áhættu sem atvinnurekstrinum fylgir.

Núgildandi iðnaðarlög, nr. 42/1978, veita hins vegar ekki fullnægjandi möguleika á því að árangursríkt samstarf geti tekist á milli innlendra og erlendra aðila á sviði iðnaðar og þarf að taka til athugunar fleiri ákvæði laganna í þeirri heildarendurskoðun sem nú fer fram.

Meðal annarra ákvæða iðnaðarlaga sem brýnt er að breyta má nefna eftirfarandi:

Í fyrsta lagi: Skv. gildandi lögum er það skilyrði fyrir því að sameignarfélög og önnur slík félög þar sem einhverjir félagsmanna eða allir bera persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félags megi reka iðnað hér á landi að allir þeir sem ótakmarkaða ábyrgð bera séu íslenskir ríkisborgarar og búsettir hér á landi. Ég tel nauðsynlegt að horfið verði frá ríkisfangsskilyrði en þess krafist að meiri hluti þeirra sem ótakmarkaða ábyrgð bera skuli vera búsettir hér á landi. Hins vegar er eðlilegt að þess verði áfram krafist að allir þeir sem ótakmarkaða ábyrgð bera fullnægi skilyrðum þeim sem sett eru í 2.–6. gr. iðnaðarlaga varðandi einstaklinga.

Í öðru lagi: Mér sýnist eðlilegt að fellt verði niður það skilyrði í 2. tölul. 4. gr., sbr. 3. gr. laganna, að framkvæmdastjórar og stjórnendur félags með takmarkaða ábyrgð skuli vera íslenskir ríkisborgarar og búsettir hér á landi. Þess í stað má hugsa sér að þegar um hlutafélag eða annað félag með takmarkaða ábyrgð er að ræða skuli framkvæmdastjórar og meiri hluti stjórnarmanna vera búsettir hér á landi. Eru þetta sömu skilyrði og sett eru í 50. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, þar sem ekki er lengur krafist íslensks ríkisfangs. Af sjálfu leiðir að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar þurfa jafnframt að fullnægja öðrum skilyrðum laga, eftir því sem við á, svo sem ákvæðum laga um hlutafélög sé um hlutafélög að ræða.

Í þriðja lagi er það mín skoðun að eðlilegt sé að erlent hlutafélag, sem veittur hefur verið réttur til að starfa hér á landi, sbr. XVII. kafla hlutafjárlaganna, nr. 321 1978, þ.e. með starfrækslu útibús, geti fengið leyfi til að reka iðnað hér á landi.

Í fjórða lagi þarf enn fremur að huga að breytingum á ákvæðum laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, en þar er að finna ströng skilyrði um íslenskt ríkisfang þeirra sem öðlast vilja eignarrétt og afnotarétt af fasteignum á landi hér.

Þykir ekki ástæða til að aðrar og víðtækari hömlur gildi varðandi rétt iðnrekstraraðila til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til hagnýtingar í þágu iðnrekstrar síns en gilda varðandi skilyrði sömu aðila til að geta fengið sjálft iðnrekstrarleyfið. Slíkar hugmyndir hafa áður verið reifaðar og hefur iðnrn. óskað eftir því að þessi fjögur atriði verði tekin til athugunar í nefnd þeirri sem annast heildarendurskoðunina undir forustu Baldurs Guðlaugssonar og áður var minnst á í þessari ræðu.

Það má bæta því við að flest nágrannaríki okkar hafa afnumið áskilnað um meirihlutaeign á hlutafé eins og iðnaðarlög okkar hafa að geyma. Í nýlegri lagasetningu erlendra ríkja hefur verið leitast við að greiða fyrir samstarfi erlendra og innlendra fyrirtækja á sviði iðnaðar. Þetta á ekki síst við um ríki annars staðar á Norðurlöndum, en þau leggja sívaxandi áherslu á slíkt samstarf og þá jafnframt fjárfestingu í atvinnurekstri sem fylgir í kjölfarið.

Á vegum ráðherranefndar Norðurlandaráðs hefur verið unnið að því að auðvelda iðnaðarsamstarf milli Norðurlanda. Það frv. sem hér er flutt er í þeim anda þótt ákvæði þurfi að endurskoða svo sem fyrr er vikið að.

Skv. þessu frv. er gengið út frá þeirri meginreglu að landsmenn eigi sem hingað til meiri hluta í hlutafélögum sem leggja stund á iðnrekstur. Hins vegar felur frv. í sér mikilvæga undantekningu frá þessari meginreglu. Undantekningin er sú að ráðherra getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði þegar sérstaklega stendur á.

Svo sem skýrt kemur fram í athugasemdum með frv. mun heimildarákvæði frv. fyrst og fremst koma til greina þegar ætla verður að starfsemi hlutafélags geti orðið mikilsvert framlag til nýsköpunar í íslensku atvinnulífi. Hér yrði væntanlega um að ræða fyrst og fremst meðalstór og smærri fyrirtæki. Þegar um er að ræða stóriðjufyrirtæki gegnir öðru máli. Þá má gera ráð fyrir að lagasetning þurfi að koma til í hverju einstöku tilfelli, einkum vegna raforkusölu og skattamála.

Sú skoðun hefur verið sett fram af andstæðingum frjálsra viðskipta að í samstarfi við erlenda aðila í formi eignaraðildar að fyrirtækjum hér á landi felist afsal á íslensku forræði yfir fyrirtækjunum. Hér er um mikinn misskilning að ræða því að iðnfyrirtæki starfrækt hér á landi með erlendri eignaraðild lúta engu að síður íslenskri löggjöf og eru háð lögsögu íslenskra stjórnvalda og dómstóla. Forræði íslenskra stjórnvalda almennt yfir rekstri fyrirtækjanna er því óbreytt og á það við um skattlagningu, mengunarvarnir, hollustuvernd, öryggisbúnað á vinnustöðum, réttindi og skyldur starfsmanna, gjaldeyrismál, reglur um samkeppnishömlur og öll þau önnur mál er almenningsheill varða og íslensk löggjöf tekur til. Fullyrðingar um að íslenskt forræði glatist með þessari lagabreytingu fá því ekki staðist.

Með þessu er því alls ekki haldið fram að erlend eignaraðild að íslenskum iðnfyrirtækjum ráði úrslitum um þróun iðnrekstrar hér á landi. Auðvitað hlýtur iðnþróun hér á landi fyrst og fremst að byggja á hæfni og dugnaði íslenskra aðila. Hins vegar verður að kanna sem best alla þá möguleika sem bjóðast og það án fordóma. Í alþjóðlegu samstarfi á vegum Norðurlandaráðs innan EFTA og OECD er sífellt unnið að greiðari samvinnu fyrirtækja í mismunandi löndum. Íslendingar verða að fylgja þeirri þróun. Annars er hætta á að þjóðin dagi uppi, verði útkjálkaþjóð sem ekki er samkeppnisfær á vettvangi þjóðanna í því mikla umróti á sviði vísinda og tækni sem nú stendur yfir.

Herra forseti. Frv. það sem hér er mælt fyrir varðar brýnt hagsmunamál íslenskra fyrirtækja sem nauðsynlegt er að afgreiða sem fyrst. Að svo mæltu legg ég til að málinu verði vísað til hv. iðnn.