03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5411 í B-deild Alþingistíðinda. (3614)

306. mál, umsóknir erlendra manna um landvist

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það er kannski ekki rétt af mér að beina nýrri fsp. til hæstv. ráðherra svo að ég beini orðum mínum þannig að þau dragi athygli hans að sér. Hann gat um mikla ásókn til annarra Norðurlanda og að flóttamenn þangað og útlendingar sem streyma til Norðurlanda hafi skapað þar visst vandamál, vandamál sem þessar þjóðir hafa illa ráðið við og stundum alls ekki. Því vil ég beina þeirri spurningu til ráðherrans án þess að óska eftir svari hér, en aðeins að draga athygli hæstv. ráðherra að staðreyndinni.

Nú er það vitað að margir af þeim flóttamönnum sem komið hafa til hinna Norðurlandanna hafa fengið vegabréf frá viðkomandi löndum og þá sér í lagi hjá Svíum. Það er líka vitað að Svíar hafa bent þeim á að á Íslandi væru atvinnumöguleikar umfram það sem er á hinum Norðurlöndunum þannig að viðkomandi aðilar, hvort sem við viljum eða viljum ekki, koma hingað með fullum rétti án þess að við getum vísað þeim frá vegna þess að þeir hafa fengið vegabréf frá hinum Norðurlöndunum. Ég vildi gjarnan enda, hæstv. forseti, með því að spyrja: Veit ráðherra hvort mikið er um þetta hér?