03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5418 í B-deild Alþingistíðinda. (3624)

303. mál, brot á jafnréttislögum

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Þetta mál er reyndar ekki alveg nýtt hér í þingsölum. Skömmu eftir að kunnugt var um ráðningu Náttúruverndarráðs í stöðu þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli beindi ég þeirri fsp. til hæstv. menntmrh. hvort hann hefði kynnt sér vinnubrögð Náttúruverndarráðs í því efni og hvaða forsendur hefðu verið lagðar til grundvallar við þessa ráðningu og hvort hann væri þeirri afgreiðslu sammála. Ástæður þeirrar fsp. voru þær að okkur kvennalistakonum þótti mjög augljóslega gengið fram hjá umsækjendum með mikla menntun og starfsreynslu og reyndar töldum við ekki ólíklegt þá að umrædd veiting væri brot á lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla frá 1985 þar sem sá umsækjandi sem mesta menntun og starfsreynslu hafði miðað við starfslýsingu Náttúruverndarráðs var reyndar kona.

Ég ætla ekki að eyða hér dýrmætum tíma mínum í að rifja upp svar hæstv. menntmrh. Það er skjalfest í Alþingistíðindum, 7. hefti þeirra. Fsp. var svarað 26. nóv. sl.

Þessari afgreiðslu Náttúruverndarráðs var síðan vísað til Jafnréttisráðs sem komst að þeirri niðurstöðu eftir ítarlega athugun að með afgreiðslu sinni hefði Náttúruverndarráð brotið ákvæði 2. tölul. 5. gr. laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þessi niðurstaða fékkst fyrir tæpum mánuði og var birt 8. febr. sl. Okkur, sem fylgdust með þessu máli, þótti einboðið að næsta skref hlyti að vera að beina rökstuddum tilmælum um ákveðnar úrbætur til viðkomandi aðila svo sem kveðið er á um í 16. gr. jafnréttislaganna, en á því varð nokkur bið og eftir að hafa fengið ákveðin svör um það hjá framkvæmdastjóra Jafnréttisráðs að ráðið hefði ákveðið að gera það ekki taldi ég rétt að kanna viðhorf hæstv. félmrh. þar sem við vorum ekki sammála þessari afgreiðslu og lagði fram þá fsp., sem er á þskj. 607, þ.e. um viðbrögð félmrh. við þessu broti og hvernig það yrði meðhöndlað.

Þá gerðist það raunar að Jafnréttisráð ákvað að framfylgja ákvæðum 16. gr. laganna og hefur nú með bréfi dags. 25. febr., þ.e. daginn eftir að þessi fsp. kom fram, beint þeim tilmælum til Náttúruverndarráðs að það fari að lögum um jafnan rétt kvenna og karla og ráði Sigrúnu Helgadóttur í stöðu þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli þegar samningur við núverandi þjóðgarðsvörð rennur út um næstu áramót. Við hljótum að fagna þessu skrefi Jafnréttisráðs sem var að öllu leyti sjálfsagt og rökrétt.

En málinu er vitaskuld þar með ekki lokið og er ástæða til að heyra hver viðbrögð félmrh. eru til þess og hvort og þá hvernig hún hyggst sjá til þess að tilmæli Jafnréttisráðs verði virt og ef svo yrði ekki, hvort hún mundi ýta á eftir því að Jafnréttisráð fari með þetta mál fyrir dómstóla skv. heimildum í 17. gr. laganna.