09.03.1988
Efri deild: 67. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5609 í B-deild Alþingistíðinda. (3742)

243. mál, aðgerðir í sjávarútvegi

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er laukrétt hjá hv. þm. að ég var að velta fyrir mér beinu orðalagi stjórnarskrárinnar þess efnis að brbl. skuli leggja fyrir Alþingi á næsta þingi eftir að þau eru sett og gekk úr skugga um það í riti Ólafs Jóhannessonar að fyrir þessu væri löng þingvenja. Styðst hún auðvitað við þá hugsun, sem er eðlileg, að með því að brbl. eru lögð fram með þessum hætti, þá fær Alþingi brbl. til efnislegrar meðferðar og getur þá breytt brbl. til fyrra horfs ef Alþingi telur það rétt. Aðalatriðið er hitt að brbl. eru lögð fyrir Alþingi svo að það geti efnislega tekið þau til meðferðar og koma þau þannig fyrir þingið nú. Ég tel að þessi aðferð sé fullnægjandi vegna þess að með þessum hætti reynir á það hver sé vilji löggjafans varðandi það efni sem við erum að tala um.

Hitt vekur líka athygli að hv. þm. dró ekki í efa, eða það kom a.m.k. ekki fram í hans máli, að nauðsyn hefði borið til að setja brbl. á síðasta sumri út frá þeim sjónarmiðum sem löggjafi brbl. taldi rétt, sem sýnir að hann út frá þeim forsendum efast ekki um að tilefni hafi verið til útgáfu brbl., eins og hann talaði hér áðan. Við hinu er ekkert að segja þó að stjórnarandstaðan sé efnislega ósammála stjórnrathöfnum þeirrar ríkisstjórnar sem hún ekki styður.