10.03.1988
Sameinað þing: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5636 í B-deild Alþingistíðinda. (3765)

262. mál, könnun á búrekstraraðstöðu

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 561 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. um könnun á búrekstraraðstöðu. Fsp. er einnig borin fram af hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og er svohljóðandi:

„1. Hvernig miðar þeirri úttekt á búrekstraraðstöðu á öllum jörðum á landinu sem sérstök bókun var gerð um með samningi landbúnaðarráðherra og Stéttarsambands bænda 20. mars 1987?

2. Hverjir vinna að þessari könnun og til hvaða þátta tekur hún aðallega?

3. Hvað er mikið óunnið í þessari úttekt og hvenær er gert ráð fyrir að henni ljúki?"

Þetta er fsp. Á 109. löggjafarþingi 1986 lagði ég fram till. til þál. um könnun á búrekstraraðstöðu. Þar var gert ráð fyrir því að á fyrri hluta árs 1987 yrði framkvæmd samræmd könnun á búrekstraraðstöðu einstakra jarða og byggðarlaga um land allt. Markmiðið með slíkri búrekstrarkönnun verði að safna upplýsingum um framleiðsluaðstöðu á einstökum jörðum, svo og um áform ábúenda og hugmyndir sveitafólks varðandi nýsköpun í atvinnulífi og breytingar á búháttum í dreifbýli í náinni framtíð. Fleira kom fram í þessari þáltill. og grg. með henni.

Till. þessi fékk mjög jávæðar undirtektir á búnaðarþingi 1987 sem mæla eindregið með að hún yrði samþykkt. Samt fékk hún ekki afgreiðslu hér á þinginu í fyrra. Þegar ég hugðist endurflytja þessa till. í haust var mér ljóst að gerð hafði verið sérstök bókun með samningi landbrh. og Stéttarsambands bænda um magn mjólkur og sauðfjárafurða verðlagsárið 1988/89 til 1991/92. Bókunin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Aðilar beita sér fyrir því að sá umþóttunartími sem landbúnaðurinn fær með samningi þessum til búháttabreytinga og hagræðingar í framleiðslu og vinnslu mjólkur og kindakjöts nýtist sem best og í því skyni verði m.a. lokið sem fyrst úttekt á búrekstraraðstöðu á öllum jörðum á landinu og áætlun um endurskipulagningu vinnslu- og dreifingarstöðva. Samningsaðilar munu beita sér fyrir samræmingu á störfum þeirra aðila sem haft geta áhrif á framgang þessara mála.“

Þegar mér var ljóst að þessi bókun hafði verið gerð, þá ákvað ég að endurflytja ekki tillögu mína þar sem hér er hún tekin upp með vissum hætti. Ég tel að hér sé mjög þýðingarmikið mál á ferðinni, í rauninni gerð nýrrar jarðabókar fyrir Ísland, sem er verkefni sem hefði þurft að liggja fyrir fyrir löngu síðan, fyrir mörgum árum. En aldrei er of seint á þessu tekið og ég vænti svars hæstv. ráðherra við fsp. minni.