10.03.1988
Sameinað þing: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5638 í B-deild Alþingistíðinda. (3767)

262. mál, könnun á búrekstraraðstöðu

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hans við fsp. minni. Þar kom ekki margt nýtt fram umfram þ.að sem ég hafði í rauninni frétt um gang þessara mála og fyrir lá þegar bókunin var gerð í samningi hæstv. ráðherra og Stéttarsambands bænda sl. vetur eða sl. vor þannig að mér sýnist af hans svari að það sé ekki skilvirk vinna í gangi til þess að hraða þessu verki með samræmdum hætti yfir landið allt.

Mér var fullkunnugt um frumkvæði Ræktunarsambands Norðurlands í þessu máli sem gaf út fjölrit á sínum vegum 1987 með þeirri könnun sem fram hafði farið á Norðurlandi. Könnunin á Vestfjörðum liggur einnig fyrir, væntanlega nokkuð samræmd eða með svipuðum hætti og unnið var á Norðurlandi.

Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra að eðlilegt er að búnaðarsambönd og heimaaðilar komi að þessu verki til þess að það verði unnið sem hagkvæmast og staðarþekking verði nýtt, en ég tel jafnnauðsynlegt að fyllsta samræmis verði gætt í upplýsingaöflun og eðlilegt að landbrn. eða framkvæmdanefnd búvörusamninga hafi frumkvæði um það að svo sé gert. Hér er um starf að ræða sem þyrfti að liggja fyrir nú þegar og mér sýnist að það séu vettlingatök á þessu máli af hálfu þeirra aðila sem ættu um það að fjalla. Upplýsingar af þessu tagi gætu nýst og ættu að nýtast við þá endurskipulagningu búskapar í landinu sem nauðsynleg er. Vísir að þeirri endurskipulagningu kom fram í reglugerð frá hæstv. landbrh. varðandi sauðfjárræktina þó að það væri mjög veikur vísir. Þessu starfi þyrfti sem sagt að hraða þannig að það lægi fyrir.

Það fór fram fyrir nokkrum árum upplýsingaöflun á vegum búnaðarsambanda og fleiri aðila, í kringum 1980, en gallinn var sá að úr þessu verki var aldrei unnið þannig að það liggur ekki fyrir aðgengilegt eins og þyrfti að vera þannig að það nýtist við þá bráðnauðsynlegu endurskipulagningu landbúnaðarframleiðslunnar, m.a. með tilliti til landgæða og hugsanlegrar uppbyggingar nýrra greina í búrekstrinum og það er mjög miður.

Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til þess að taka með skilvirkari hætti á þessu máli, beita sér fyrir því af hálfu síns ráðuneytis, vissulega í samvinnu við þá aðila sem þarna er eðlilegt að komi að verki eins og ég hef nefnt.