10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5647 í B-deild Alþingistíðinda. (3783)

289. mál, mat á heimilisstörfum

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Við kvennalistakonur tökum undir nauðsyn þess að flytja þetta mál og að það fái framgang og styðjum till.

Á síðari árum hafa umræður aukist um heimavinnandi fólk og athygli verið vakin á kjörum þess og réttarstöðu eða við skulum heldur segja skorti þess á réttindum. Heimavinnandi fólk er fyrst og fremst konur, húsmæður. Ég vil rekja í stuttu máli hvaða málefni varðandi heimavinnandi fólk hafi verið til umfjöllunar á Alþingi.

Árið 1983 sést orðið „húsmóðir“ fyrst í fyrirsögn á þingskjali, að mér er tjáð, á þáltill. frá hv. þm. Páli Péturssyni um að ríkisstjórnin láti semja lög um lífeyrisrétti fyrir húsmæður sem ekki eigi aðild að lífeyrissjóði. Sama ár flytja þm. Alþfl. þáltill. um rétt heimavinnandi fólks til lífeyris og um gagnkvæman makalífeyri.

Árið 1984 flytja þingkonur Kvennalistans þáltill. um að meta heimilisstörf til starfsreynslu og þm. og konur frá öllum flokkum frv. til I. um lífeyrisréttindi húsmæðra og Páll Pétursson endurflytur till. sína um lífeyrisréttindi húsmæðra. Þingkonur Alþfl. flytja þáltill. um að metið sé þjóðhagslegt gildi heimilisstarfa og um réttarstöðu heimavinnandi fólks.

Árið 1985 endurflytja þingkonur Kvennalistans till. um að meta heimilisstörf til starfsreynslu og endurflutt er till. Alþfl. um réttarstöðu heimavinnandi og þjóðhagslegt gildi heimilisstarfa sé metið og Jóhanna Sigurðardóttir flytur þá þáltill. um að þeim sem eingöngu sinna heimilisstörfum séu tryggð lífeyrisréttindi. Tveir þm. Sjálfstfl. flytja þáltill. um að kannað sé hvernig unnt sé að meta heimilisstörf til starfsreynslu.

Árið 1986 flytja þrír þm. Alþfl. í þriðja sinn þáltill. um lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks og enn í þriðja sinn þáltill. um réttarstöðu heimavinnandi fólks og mat á þjóðhagslegu gildi heimilisstarfa. Þingkonur Kvennalistans flytja þáltill. um endurmat á störfum kvenna og þingkonur Kvennalistans flytja einnig frv. til laga um lífeyrisréttindi handa heimavinnandi húsmæðrum.

Árið 1987 kemur fram þáltill. frá þm. Sjálfstfl. um undirbúning lífeyrisréttinda handa þeim er sinna heimilis- og umönnunarstörfum og þingkonur Kvennalistans endurfluttu fyrr í vetur frv. um lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra.

Af þessari upptalningu má sjá að þm. hefur fundist ýmsu ábótavant um hag þessa þjóðfélagshóps, enda kemur það glögglega fram í grg. með þessum þingmálum og lestur á umræðum um þau er einkar fróðlegur. Það er sannarlega eftirtektarvert að kynna sér viðhorf þm. til þeirra. Örlög flestra þessara mála, sem ég taldi upp, hafa orðið allt frá því að daga uppi í nefndum eða þá að nefndir hafa skilað áliti sem síðan er ekkert gert með.

Árið 1986 var samþykkt á Alþingi þáltill. frá Kvennalista um mat á heimilis- og umönnunarstörfum til starfsreynslu. Félmrh. skipaði Gerði Steinþórsdóttur til að gera úttekt á stöðu þeirra mála og gera tillögur um hvernig meta skuli. Skýrsla um þetta starf var lögð fram á Alþingi haustið 1986 og er fróðleg um margt. Niðurstaða hennar sýnir að í kjarasamningum allmargra bæjar- og sveitarfélaga er tekið tillit til starfsreynslu við húsmóðurstörf, en það skilar svo litlum kjarabótum til kvennanna að segja má að það sé fremur viðurkenning á að meta beri þessi störf en að nokkuð raunhæft komi út úr málinu.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa lítinn þátt úr þessari umræddu skýrslu. Þar stendur m.a.: „Starfsmannafélagið Sókn ruddi brautina varðandi mat á heimilisstörfum úti á vinnumarkaðnum. Þar eru núna þau ákvæði að meta skuli heimilisstörf til starfsaldurs allt að sex árum og miða við lífaldur, enda teljist ekki starfsaldur vegna launaðra starfa á sama tíma. Þessi hliðstæðu störf eru: störf í eldhúsi, saumaskapur, almenn störf á sjúkrahúsum, þvottahússtörf, ræsting, heimilishjálp, ráðskonustörf á barnaheimili, barnagæsla, hjúkrun aldraðra, geðsjúkra, vangefinna, lamaðra og fatlaðra. Enn fremur eru hér starfsmenn með húsmæðrapróf og viðurkennd námskeið í heimilishjálp, barnagæslu og hjúkrun.“

Af þessari upptalningu má sjá hvaða störf eru talin ófaglærð heimilis- og umönnunarstörf á vinnumarkaði. En upptalningin sýnir einnig, sem er athyglisvert, að eingöngu eru metnir einstakir verklegir þættir í núgildandi samningum. Þetta mat er í engu samræmi við það sjónarmið, sem kom fram í umræðu á Alþingi, að heimilisstörf væru margþætt og flókin, svo vitnað sé til þáv. heilbrmrh. Ragnhildar Helgadóttur. Í núgildandi mati á heimilisstörfum er horft fram hjá þeirri staðreynd að heimilið sé sérstök rekstrareining og megi líkja því við lítið fyrirtæki. Það þarfnast stjórnunar og skipulagningar og það er ekki að ófyrirsynju að Hússtjórnarbókin hefst á kafla um heimilishagfræði.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir drap á þessa þætti, mat og vanmat í umræðunum á Alþingi er hún minntist á þau störf sem á yfirborðinu væru svipuð heimilisstörfum, eins og matargerð, ræsting, þvottur og innkaup. Hún segir þar m.a.: „Í heimilisstörfum felst m.a. margvísleg reynsla sem ekki nýtist síður við launuð störf en almenn reynsla fengin á vinnumarkaðnum. Má þar nefna þætti eins og frumkvæði, sjálfstæði, ábyrgð og meðferð á fjármunum, en það eru þeir þættir í launuðum störfum sem einna hæst eru metnir til launa á vinnumarkaðnum.“

Heilbrmrh. þáv. Ragnhildur Helgadóttir tók í sama streng og sagði að heimilisstörf krefðust hæfni í stjórnun, skipulagningu og meðferð fjármuna. Allt væru þetta atriði sem hefðu mjög mikla þýðingu víða á vettvangi þjóðfélagsins. Þessi störf yrðu ekki unnin svo vel væri án hæfni, þekkingar og þjálfunar.

Af þessu má ljóst vera að reynsla af rekstri heimilis og umönnunarstörfum er vanmetin, einnig þegar um svokölluð hliðstæð störf er að ræða. Og þá vaknar spurningin: Hvers vegna eru heimilisstörf vanmetin? Ef við lítum til liðinna alda sjáum við að innan veggja heimilanna voru unnin öll þau störf sem lutu að því að fæða, klæða, fræða og annast þá sem þar áttu heima. Öll matvæli voru unnin þar frá grunni, sömuleiðis allur fatnaður, allt frá því að vera ull eða húð. Hjúkrun, uppeldi og fræðsla fór þar fram meiri eða minni eftir atvikum og þessi störf voru unnin af konum: húsfreyjum og vinnukonum.

Ég ætla ekki að gera lítið úr þætti vinnukvenna við þessi störf, en allir sem eitthvað hafa grúskað í atvinnusögu okkar geta séð að þeirra kjör voru sultarkjör. Þessi störf voru yfirleitt talin fremur lítilmótleg. „Eldabuska“ var ekkert virðingarheiti. Og á seinni tímum vildu konur helst ekki láta kalla sig vinnukonur vegna lítilsvirðingarinnar sem í nafninu eða stöðuheitinu fólst.

Þessi störf sem ég nefndi áðan, fatagerð, matvæla- og mjólkuriðnaður, hjúkrun, umönnun aldraðra og fatlaðra og fræðsla, hvar eru þau nú? Að hluta til eru þau á heimilunum enn eftir því sem einni konu, húsmóðurinni, er fært að sinna þeim, en að miklu leyti eru þau komin út af heimilunum inn á kjötiðnaðarstöðvar, mjólkursamlög, fatagerðir, sjúkrahús og stofnanir, skóla og dagheimili. Enn vinna konur þessi störf og enn loðir lítilsvirðingin á heimilisstörfunum við þau. Því eru þau enn í dag láglaunastörf og einnig þau störf sem seinna hafa komið til og orðið að hefðbundnum kvennastörfum.

Þegar þáltill. Alþfl. um réttarstöðu heimavinnandi fólks og mat á þjóðhagslegu gildi heimilisstarfa var lögð fram í þriðja sinn hafði félmn. Sþ. fengið umsagnir um málið frá ýmsum aðilum sem voru birtar með till. og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa lítið eitt af þeim. Það er umsögn frá Þjóðhagsstofnun þar sem segir:

„Eins og kunnugt er miðast gerð þjóðhagsreikninga fyrst og fremst við markaðsbúskap. Næstum öll vinna, sem af hendi er leyst án þess að gjald komi fyrir, er því undanskilin í verðmæti þjóðarframleiðslunnar eins og hún er venjulega skilgreind. Vinna við heimilisstörf vegur hér auðvitað þyngst, en einnig þarf að gæta að ýmsum störfum utan við vinnumarkaðinn. Hér á landi háfa ekki verið gerðar tölulegar athuganir á mikilvægi heimilisstarfa og annarra ólaunaðra starfa, en eftir ýmsum erlendum athugunum að dæma kynni verðgildi slíkra starfa að liggja á bilinu fjórðungur til helmingur af þjóðarframleiðslu eins og hún er venjulega metin.“

Ég ætla ekki að lesa meira af þessari skýrslu þó það væri þess vert, en þegar litið er til umsagnar Þjóðhagsstofnunar um hugsanlegt hlutfall heimilisstarfa og annarra ólaunaðra starfa í þjóðarframleiðslu má sjá að þarna er um stórkostleg verðmæti að ræða og þar telur Þjóðhagsstofnun að heimilisstörf vegi þyngst.

Við kvennalistakonur teljum að brýn nauðsyn sé að þessi till., sem hér er til umræðu, nái fram að ganga og brýn nauðsyn sé að fram í dagsljósið komi óyggjandi og skjalfest staðfesting á mikilvægi heimilisstarfa fyrir þjóðarbúið og þjóðfélagið í heild. Að slíkri undirstöðu fenginni kynni að mega færa til betri vegar kjör þeirra kvenna sem að þeim störfum vinna svo og kjör og laun þeirra kvenna sem vinna hliðstæð störf og störf sem fyrrum voru heimilisstörf en eru nú unnin víðs vegar utan heimila. Flest þeirra starfa eru enn unnin af konum og flest þeirra eru láglaunastörf.

Ég vil þó fyrst og fremst undirstrika að slík staðfesting kynni að verða til þess að augu manna opnist fyrir því að í raun verða þessi störf aldrei metin til fjár, slíkt er mikilvægi þeirra, og að það beri að sýna þeim virðingu samkvæmt því. Oft er talað um að sjálfstæði kvenna og jafnrétti byggi á fjárhagslegum grunni og ég er því sammála. Ég er samt ekki að krefjast þess að ríkið greiði konum kaup fyrir að sinna heimilisstörfum, en ég vil fara fram á að það sé skoðað í fullri alvöru hvernig hægt er að taka á þessu máli þannig að það verði heimavinnandi konum til hagsbóta. Ekki aðeins því fjárhagslega heldur þannig að þær hafi sömu réttindalegu stöðu og annað fólk. Þær eiga ekki að þurfa að lifa við það böl að með launalausum störfum sínum finnist þeim þær vera þurfalingar á eigin heimilum.