10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5695 í B-deild Alþingistíðinda. (3828)

325. mál, veiðieftirlitsskip

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um veiðieftirlitsskip. Meðflutningsmenn eru hv. þm. Sverrir Hermannsson, Árni Gunnarsson, Guðrún Helgadóttir, Margrét Frímannsdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Tillgr. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að undirbúa nú þegar rekstur sérstaks veiðieftirlitsskips og kaupa eða leigja togara í því skyni eða láta Hafþór sinna því verkefni sem er hið brýnasta í sjávarútvegi Íslendinga í dag vegna smáfiskadráps. Hraðskreitt fiskveiðieftirlitsskip taki til starfa á árinu 1988.“

Á vegum sjávarútvegsráðuneytisins starfa 14 menn við veiðieftirlit. Tveir þeirra eru við störf á skrifstofu, taka á móti skýrslum, svara fyrirspurnum útgerðarmanna um kvóta, reyna að koma upp um kvótasvindl, fylgjast með síldveiðum og fleira. Þriðji eftirlitsmaðurinn starfar fyrir loðnunefnd. Ellefu eftirlitsmenn skiptast á að fara út með togurunum og fara í hinar ýmsu verstöðvar úti um land. Á togurunum er reynt að vera með ekki færri en þrjá menn í senn og fer þá einn austur, annar norður og sá þriðji á Vestfirði.

Til þess er ætlast að lengdarmælingar séu gerðar á þorski minnst tvisvar á dag og oftar ef þurfa þykir. Stærðarmörkin eru að ekki sé meira en 25% af 200 þorska úrtaki undir 55 cm að lengd. Þetta er nokkuð breytilegt á milli ára. Á síðasta ári var viðmiðunin 30% undir 55 cm.

Í verstöðvum eiga eftirlitsmenn að fylgjast með smáfiski, vigtun fisks, samsetningu á afla dragnótabáta, fjölda neta í sjó og öðru af svipuðum toga, en sumt af þessu er óframkvæmanlegt.

Fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunar ákveða lokanir eftir tillögum eftirlitsmanna. Níu fiskifræðingar skipta þessu starfi á milli sín og er hver á vakt tíu daga í senn, svo að nýr maður þarf að setja sig inn í málin á tíu daga fresti. Þetta er eitt af því veika í þessu fyrirkomulagi því að það geta liðið kannski 910 mánuðir þar til fiskifræðingur kemur aftur um borð í skip til þess að taka ákvarðanir og þannig er þetta mjög laust í reipunum. Enginn einn aðili hefur það að aðalstarfi að stjórna eftirlitinu.

Upplýsingaöflun hefur versnað til muna eftir að ríkismatsmenn voru lagðir af og veiðieftirlitsmenn sjútvrn. hafa lítinn sem engan tíma til þess að bera saman bækur, miðla upplýsingum hver til annars og gefa góð ráð til aukins árangurs.

Eftirlitsmaður sem fer á veiðar með togara er algjörlega háður ákvörðunum skipstjóra sem einn ræður ferðinni. Skipstjórinn getur, ef hann vill, breytt ákvörðun sinni, hætt við að veiða þorsk og farið á karfaveiðar austur í Rósagarð eða suður á Reykjaneshrygg. Þetta er algjörlega háð vilja skipstjóra og ekkert tillit er tekið til veiðieftirlitsmanns.

Ákvörðun um skyndilokun í viku er tekin eftir því hve mörg prósent eru undir 55 cm, hve mörg skip eru á slóðinni og aflamagni. Ef t.d. fiskur undir 55 cm er undir 40% af 200 þorska úrtaki er talið þrisvar til að fullvissa sig um að fiskur á viðkomandi slóð sé of smár. Ef prósentan er hærri þykir ráðlegt að mæla með lokun fyrr. Alltaf er haft samband við fiskifræðing og honum sagðar niðurstöður og hann á að ákveða lokun svæðis. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að veiðieftirlitsmaður geti í einu og öllu ráðið hvert veiðiskip siglir, hvenær er togað eða hvar, en það er jafnljóst að það rekst á við tilgang veiðieftirlitsins að menn geti ekki haft áhrif í þeim efnum og það sýnir einnig veika stöðu veiðieftirlitsins. Ef veiðieftirlitsmaðurinn ætti að ráða ferð skipsins í þessu sambandi er verið að taka þar óeðlilegt vald í hendur opinberra aðila af þeim sem eiga skipið og vinna á því.

Ýmsir annmarkar eru á þessari aðferð sem veiðieftirlitið byggir á og helst er það að hlutir gerast ekki nógu fljótt og markvisst og vík ég að fjórum dæmum þar að lútandi:

Ef menn byrja að veiða mikið á veiðislóð, hvar sem er á fiskimiðum við landið, flýgur fiskisagan um öll mið og flotinn siglir á fullri ferð, allur á þennan stað, tugir skipa. Það er algengt að toga hvert tog allt að fjórum klukkutímum ef góður botn er, festur sjást á plotternum og á tækjum má sjá hvort varpan er ekki eins og hún á að vera.

Ef togari með eftirlitsmann togar hvert hal í fjóra tíma líða 13 tímar þangað til gögn eru tilbúin til að láta fiskifræðinginn vita. Það getur því verið mikið magn af smáfiski sem kannski 50 skip eru búin að afla þegar til lokunar kemur.

Svipað þessu sem ég er að lýsa gerðist á Austfjarðamiðum sl. vetur. Ganga af fjögurra ára fiski byrjaði að veiðast í Seyðisfjarðardýpi og gekk suður. Eftirlitsmenn lokuðu einu svæðinu á fætur öðru eftir því sem þeir höfðu upplýsingar. Veiðin færðist sífellt sunnar, alveg suður á Fót. Lokanirnar komu ekki að tilætluðu gagni. En skip sem hefði getað farið út fyrir svæðið hefði komið þarna að góðum notum og stöðvað þessa þróun.

Annað dæmi: Skipstjóri með eftirlitsmann um borð hefur tilhneigingu, eftir að hafa aflað upplýsinga um afla og horfur, til að sneiða hjá því að fara þar sem meira er um smáfisk. Það er líka eðlileg afstaða hjá skipstjóranum að losna við að tapa dögum, kosta fjármagni til í siglingu, beinlínis til þess að verða rekinn burt af því svæði sem hann fer á.

Dæmi: Togari siglir út Eyjafjörð. Skipstjóri þarf að taka ákvörðun um að fara austur eða vestur er hann kemur út úr firðinum. Togarar á Sléttugrunni láta vita að þorskur sé smár og standist vart mælingu. Hann tekur ákvörðun um að halda vestur í von um að vera í friði. Þeir á Sléttugrunninu halda óáreittir áfram að veiða þann smáa.

Enn annað dæmi: Frétt berst af því að nokkrir togarar séu að fá góðan afla á Rifsbanka. Togarar á Austfjarðamiðum eru að fá lítinn afla. Þeir hífa upp og setja stefnuna norður fyrir Langanes. Stímið er 8–10 tímar. Þá læðir einn skipstjóri því út úr sér á Rifsbankanum að þetta standist varla mælingu. Togarinn með mælingamanninn breytir stefnu út á Brettingsstað. Best að reyna þar. Til hvers er að sigla flotanum bara til þess að loka og þurfa að sigla til baka?

Þetta eru allt raunhæf dæmi sem ég nefni. Þau hafa átt sér stað og stund.

Algengast er að þorskur á togaraslóðum fari stækkandi eftir dýpi. Hann er smæstur uppi á grunnunum en stækkar eftir því sem dýpkar niður í kantana. Nefna má sem dæmi um mælingu þorsks í vetur á Langanesgrunni. Á 115 faðma dýpi voru 30% undir mörkum, 18% á 130 föðmum, 8% á 150 föðmum og 3% á 170 föðmum.

Þetta vita menn reyndar af reynslunni en fá ekki tækifæri til að komast og mæla þar sem þörfin er þó að mælingamenn viti af skipum. Sum svæði, t.d. Digranesflak, Glettingsflak og út af Húnaflóa, mættu vera lokuð langtímum saman. Það sýnir reynslan.

Það er augljóst að meiri árangur í veiðieftirliti fengist með því að hafa sérstakt skip til að fylgjast með smáfiski og er tilvinnandi að reyna það þá jafnvel fyrst um tíma og taka eftir það ákvörðun um framhaldið.

Þetta þyrfti að vera ganggott skip, líkt og Hafþór sem er í eigu ríkisins en er leigt til rækjuveiða á Vestfjörðum, með veiðarfæri, tæki og búnað eins og aðrir togarar. Skipið héldi sig á togaraslóðum, tæki prufuhöl, þó aldrei lengri en 90 mínútur í senn, og lokaði svæðum ef niðurstöður mælinga sýndu að fiskur væri of smár, allt að viku í senn. Farið væri og lokuðu svæðin skoðuð og opnuð fyrr ef sú væri raunin að betur horfði með stærð fisks.

Þegar tími gæfist til frá því að fylgjast með smáfiskinum kannaði skipið önnur svæði, t.d. grálúðumið og djúpkanta, og miðlaði upplýsingum til flotans.

Til að fá upp í kostnað yrði veiddur fiskur seldur á mörkuðum eða settur í gáma, t.d. 1000 tonna afli á 50–70 millj., sem væri kannski ekki óraunhæft. Gæta yrði þess að ekki hlæðust á skipið stjórar og skrifstofulið í landi. Með hagkvæmni ætti að vera hægt að gera þessa útgerð þannig að ekki væri aðeins það að hún borgaði sig heldur mundi hún gjörbreyta allri stöðu í veiði og veiðieftirliti sem er eitt hið brýnasta í dag eins og fyrr hefur komið fram.

Það vita allir sem vilja vita að smáfiskadrápið sem stundað er við landið er geigvænlegt, en það er opinbert leyndarmál að á margan hátt er spilað á það kvótakerfi sem nú er við lýði. Þar er smáfiskadrápið verst. Sumar togaraáhafnir eru svo forhertar að þær hafa aldrei séð smáfisk á togaramiðunum þótt áhöfn á skipi sem veiddi á sömu miðum skilaði nær 200 tonnum af undirmálsfiski á land. Munurinn var hins vegar sá að sú áhöfn mátti eiga óskiptan smáfiskinn. Hún sá hann. Sama er að segja um frystitogarana þar sem stórherða þarf eftirlit með veiðum. Sérstakt veiðieftirlitsskip, sem er óháð stjórn annarra en veiðieftirlitsmanna og fiskifræðinga, er spor í rétta átt, mjög tímabært spor, því hvaða gagn er að veiðieftirliti þar sem veiðimaðurinn sjálfur, undir miklu álagi útgerðar og samkeppni, ræður stund, stað og dýpi þegar mæla skal fiskinn.

Sem dæmi um hrikalegt seiðadráp á miðum landsins má nefna hið yfirgengilega seiðadráp í rækjutrollinu við Eldey sl. haust. Því var ekki hætt fyrr en sumum rækjuskipstjórum ofbauð, en þarna var um ýsuseiði að ræða. Einnig væri vert að kynna sér hvernig þeir á dönsku togurunum við Grænland útbúa rækjutrollin þannig að smárækjan sleppur í gegn. Hérlendis er vitað um rækjuveiðiskip, og þau sum stór, sem smækka riðilinn þannig að ekki einu sinni marfló slyppi í gegn, enda eru engar reglur til um möskvastærð rækjutrolla og það segir sína sögu.

Það er ljóst að það er vilji fiskifræðinga og Hafrannsóknar að auka hlutdeild margra árganga í ársveiðinni. Það gengur ekki upp nema með því að draga úr sókninni og þá er það helst sóknin í smáfiskinn sem þarf að draga úr, að stýra, í þeim efnum. Þá kemur eðlilegt hlutfall af mörgum árgöngum í hverja ársveiði, þannig að áhættan yrði minni og óvissan ekki eins hrikaleg og hún er í þessari stöðu í dag.

Eins og ég sagði áðan er veiðieftirlitið mjög veikt, og áhrif sérfræðinga, veiðieftirlitsmanna og fiskifræðinga eru lítil. Það er svo mikið tilviljunum háð hvar eftirlitið á sér stað að það veiðieftirlit sem við erum með í landinu í dag er meira og minna sýndarmennska. Þegar meðalstærð fisks í einum togaraafla er niður í 0,8–1,4 kg er eitthvað mikið að þar sem meðalþyngdin var til skamms tíma kannski 4,7, og upp í 10 kg í afla. Að vísu er mikill munur á Suðurlandsmiðum og Norðurlandsmiðum sem eðlilegt er því að ungviðið er meira á norðurmiðunum. Það er hins vegar eitthvað mikið að þegar svo er mokað sem raun ber vitni og er þó ekki allt sagt því að margt á sér stað í þessum efnum, því miður, sem ekki hefur verið hægt að leggja á borðið eða sanna, en öll þau dæmi sem ég nefni eru byggð á staðreyndum þar sem menn hafa reynt það sem um er getið.

Það er mjög brýnt einnig í þessu sambandi að koma á daglegum samskiptum eftirlitsmanna sem eru á vakt hverju sinni, að þeir geti borið saman bækur, en það er engin stýring á því. Menn eru ræstir út, hverfa út á haf þennan tíma sem þeir eiga að vera og út úr því koma ekki nein markviss vinnubrögð í veiðieftirliti.

Það leiðir af sjálfu sér að með strangara eftirliti í þessari hörðu veiðimennsku mundi það vera mjög til góðs og það mundi jafnframt stuðla að því að byggja upp fiskveiðistofnana við landið og það mundi jafnframt stuðla að því að draga úr misræmi sem er í kvótareglum og er mjög spilað á, bæði innan ákveðinna bátastærða og milli landsvæða. Það eru því margir brestir í þessu kerfi sem nú er og aukið veiðieftirlit ætti að geta brúað þarna ákveðið bil. Fyrst og fremst er það bráðnauðsynlegt, lífsspursmál, fyrir fiskveiðarnar í framtíðinni til þess að hamla gegn smáfiskadrápinu.

Að lokinni umræðu legg ég til að málinu verði vísað til atvmn.