15.03.1988
Neðri deild: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5782 í B-deild Alþingistíðinda. (3901)

341. mál, þjóðfundur um nýja stjórnarskrá

Flm. (Jón Bragi Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka síðasta ræðumanni, hv. 6. þm. Norðurl. e., fyrir hennar orð um þetta frv. og ég skal reyna að svara þeim spurningum sem hún beindi til mín.

Við samningu þessa frv. eru auðvitað mörg atriði sent orka tvímælis og þarf að meta vandlega hvernig um skal fjalla og halda á, þar á meðal fjölda fulltrúa á þjóðfundi, hvernig þeir eru kjörnir og hvernig starfið á fundinum á að fara fram.

Við samningu frv. vildi ég að mínar eigin skoðanir um þessa þætti væru ekki yfirgnæfandi heldur að fram væri haldið þróun frá núverandi ástandi, að ekki kæmu fram mínar skoðanir um hvernig hlutirnir ættu að vera, hvernig tilvonandi stjórnarskrá myndi e.t.v. mæla fyrir um þessa hluti, heldur að halda áfram frá núverandi stöðu. Ég er sammála síðasta ræðumanni að líklega væri heppilegt að fulltrúarnir væru færri, e.t.v. 20 eða 30, og ég hef hugsað sem svo, að ef allshn. sýndist myndi hún gera brtt. þar um. Nú er komið starf umboðsmanns Alþingis og eins og síðasti ræðumaður lagði til væri einmitt viðeigandi að umboðsmaður færi þarna með vald sem forsrh. er falið í tillögunum.

Um hvort alþm. ættu að sitja þjóðfund er erfitt að dæma, en aftur vildi ég ekki taka afstöðu til þess með þeim hætti að útiloka alþm., ráðherra eða hæstaréttardómara, sem sé æðstu handhafa valdastofnananna þriggja, og legg því frv. fram þannig að allir þegnar landsins hafi jafnan rétt til kjörs til þjóðfundar og sýnist að mörgu leyti eðlilegt að halda þannig áfram frá núverandi stöðu í því efni.