21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5925 í B-deild Alþingistíðinda. (4045)

356. mál, jafnréttisráðgjafar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég man ekki hvort ég sem frummælandi hef rétt til að tala þrisvar (Forseti: Nei, það er ekki svo.) en mér nægir örstutt athugasemd. Það er vegna orða hv. 1. þm. Vesturl.

Hver var að gagnrýna Jafnréttisráð? Ég hef ekki heyrt það. En það er verið að gagnrýna aðgerðarleysi stjórnvalda og stefnu meiri hlutans á Alþingi í sambandi við fjárveitingar. Hv. þm. Alexander Stefánsson mælti sem ráðherra á fyrra þingi fyrir fjögurra ára áætlun, sem kveðið er á um einmitt í nefndum lögum nr. 65 frá 1985, og það var ekki burðug áætlun, því miður. En verra var þó að það sem kveðið var á um í henni, margt af því, hefur ekki fengið neinar undirtektir hjá stjórnvöldum, hjá þeirri ríkisstjórn sem hv. 1. þm. Vesturl. styður. Dæmi: Dagvistarstofnanir í landinu. Jú, það átti að dusta rykið af gömlum áætlunum samkvæmt þessari fjögurra ára áætlun um aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna. En hver er niðurstaðan? Strikað yfir öll framlög af ríkisins hálfu til dagvistarstofnana. Og þannig mætti lengur telja. Það er von að menn komi hér og segi: Þetta er allt á pappírnum og við skulum láta þar við sitja.