24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6100 í B-deild Alþingistíðinda. (4169)

330. mál, rannsóknarnefnd til að kanna hvort starfsmenn lögreglunnar virði friðhelgi einkalífsins

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Örfá orð að lokum þessarar umræðu. Það er vissulega rétt að lögreglan þarf eins og öll stjórnvöld reyndar aðhald frá vakandi almenningsáliti. Þetta er vissulega rétt. En það er líka þörf fyrir aðgát í þessum efnum, aðgát hvað það varðar að ekki sé vegið ómaklega að lögreglunni sem vinnur sín störf í almannaþágu, oft við erfið skilyrði. Það er rétt, eins og kemur fram í grg. þessarar þáltill., að það má ekki verða trúnaðarbrestur milli lögreglunnar og annarra landsmanna og þeir sem vilja veita lögreglunni aðhald eru líka ábyrgir fyrir því að varðveita það fjöregg lýðræðisins í landinu sem er trúnaðarsamband milli löggæslu og almennings. Þetta vildi ég minna flm. þessarar till. á.