24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6103 í B-deild Alþingistíðinda. (4172)

380. mál, dagvistarmál fatlaðra barna

Guðrún J. Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög þörfu máli og ég vil lýsa yfir eindregnum stuðningi Kvennalistans við þessa þáltill. En meira þarf en að rannsaka. Úrræðin þurfa að koma. Nú þegar höfum við orðið áþreifanlega orðið vör við í störfum okkar margar hverjar hvernig rangar greiningar og engar greiningar hafa valdið óbærilegum sársauka fyrir bæði foreldra og börn. Þess vegna er ekki nóg að gera könnun, það þarf virkilega mikið að leggja af mörkum til þess að bætur komi. Það eru einkum og sér í lagi smá sveitarfélög sem geta staðið höllum fæti og þeir sem þar þurfa að leita hjálpar. Það er langt að leita norðan af Hólmavík til Reykjavíkur til að fá greiningu og kannski dregst það á langinn af því að menn hafa ekki peninga til að fara þessa ferð. Það eru afskaplega margar matarholurnar sem þarf að greiða peninga í ef maður á fatlað barn.

Ég fullyrði af þó nokkuð langri reynslu sem kennari að blöndun í bekki og blöndun á barnaheimilum getur verið miklu meiri en verið hefur og mörgum dettur í hug. Ég hef ýmsa reynslu af því hversu hinn fatlaði getur veitt mikið hinum ófötluðu, hversu við sem erum ófötluð auðgumst af samvistunum við þann sem reynsluna hefur af fötluninni. Og það er ekki eingöngu verið að hjálpa þeim fatlaða með því að auka möguleika hans á að vera á almennu dagvistunarheimili eða í almennum skólum. Það er ekki síður verið að auðga reynsluheim þeirra sem samvistanna njóta. Ég tek það sérstaklega fram.

En ég hef mörgum sinnum rekist á að fólk hefði, ef það hefði fengið rétta greiningu og rétta meðferð í upphafi, getað gengið aðra braut en það gekk, fengið meiri menntun og orðið nýtari þjóðfélagsþegnar. Ég hef of oft rekist á þetta til þess að fagna ekki þessari fram komnu tillögu.

En eins og ég sagði er ekki síður mikilvægt og eiginlega skrefið sem á að koma á eftir könnuninni, skrefið að gera virkilega eitthvert átak í þessum málum. Við höfum gert ýmislegt gott, en meira þarf ef duga skal.