24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6114 í B-deild Alþingistíðinda. (4179)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Stefán Valgeirsson:

Virðulegur forseti. Hæstv. iðnrh. var að áminna þm. um að segja frá staðreyndum og það kann að vera að hann hafi út af fyrir sig skýrt frá vissum staðreyndum. En mér finnst hann hafi hlaupið yfir þær staðreyndir sem skipta meginmáli í þessu efni. Staðreyndirnar eru þær t.d. að ef miðað er við hvað er í framfærsluvísitölunni er sú upphæð sem kostar að hita upp hús af vissri stærð í Reykjavík um 30% lægri en sú tala er í vísitölunni, en 80% hærri en þessi viðmiðunartala ef kynt er með raforku. Þó segir þetta ekki nema hluta af þessari sögu og það er vegna þess að það er verið að taka hús af vissri stærð. T.d. fyrir hús í strjálbýli, sem er fyrir atvinnurekstur, er upphæðin yfirleitt verulega hærri og er það skýring á þeim tölum sem koma víða utan af landsbyggðinni um meiri hitunarkostnað. Við höfum heyrt talað um 17 þús. kr. á mánuði. Það komu tölur frá ábyrgum aðilum á Þingeyri þar sem var talað um að það kostaði 7–14 þús. að kynda íbúðarhúsin þar á mánuði eftir stærð þeirra og ásigkomulagi.

Er þetta það sem flokkarnir lofuðu fyrir fjórum árum, að reyna að jafna aðstöðuna í landinu? Er þetta það? Og finnst ekki hv. þm. að það sé dálítið undarleg stjórn að það skuli ekki verða notuð 10% af þeirri raforku sem til er í landinu? Það er 10% meiri framleiðsla en notað er á sama tíma sem fólk er að velta því fyrir sér að breyta aftur yfir í olíu. Hvaða vit er í þessari stjórn? Hvaða vit er í þeirri stjórn að Landsvirkjun skuli hafa greiðsluáætlun sína þannig að það sé búið að borga þessar skuldir um aldamót allar, en níðast svona á fólki sem býr við þá aðstöðu að vera á köldum svæðum? Það er ekki nóg með að það sé lægra kaup víða úti um land heldur er hitunarkostnaður hærri. Ég hef séð tölur sem eru fjórfaldar á við það sem ég þarf að borga fyrir svipaða íbúð hér. Hvers vegna er þetta? Þetta er líka fyrir hitamun. Það er kaldara fyrir norðan og vestan yfirleitt en hér. Það er margt sem kemur til greina.

Hæstv. orkumálaráðherra verður að segja allan sannleikann, ekki bara sumt af honum þegar hann kemur hér í ræðustól og fer að ræða um þessi mál. (Iðnrh.: Hvað kostar það á Húsavík?) Það kostar minnst á Húsavík. Það er alveg rétt. En hvað kostar það hér? 68 aura kwst. En hvað kostar það á Vestfjörðum? Er það ekki 2,40? Og svo er hæstv. ráðherra að tala um 12% hækkun. En honum dettur ekki í hug að taka á málinu eins og maður, bara eins og maður og neyða Landsvirkjun til að breyta þessu greiðslufyrirkomulagi. Það dettur ekki þessari ríkisstjórn í hug. Það þýðir ekkert fyrir hvorki ráðherrann né aðra að koma upp í ræðustól og reyna að afsaka þetta ástand. Það eru ýmis úrræði til. Það er bara að reyna að taka á þeim. Það þarf vilja. Það er ekki nóg að koma og segja: Það er ekkert hægt.

Tíma mínum er víst lokið, virðulegi forseti, sem ég má tala hér. Ég er ekki kominn nema með þriðjunginn af því sem ég hefði viljað segja. En að lokum vil ég segja: Það er alveg tilgangslaust í sjálfu sér að flytja þáltill. um þetta mál. Staðreyndirnar liggja fyrir. g hef t.d. upplýsingar um hvernig þetta er á Norðurlandi, Vestfjörðum og víðar. Það er bara að taka á þessum málum. Það er það sem þarf. Ég vona að það komist í verk að koma þessu máli öðruvísi fyrir á Alþingi en með þessum hætti.