24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6143 í B-deild Alþingistíðinda. (4200)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal lofa því að eyða ekki hér löngum tíma í þessa umræðu. Hún hefur verið allítarleg og þá um leið allnokkuð sérstæð. Það verð ég nú að segja. En ég kem hér fyrst og fremst upp vegna þess að ég er einn af flm. þessarar till. og ég kem hér til þess að mótmæla því sem hér hefur komið fram hjá fleiri en einum og fleiri en tveimur sem hér hafa talað að þessi tillaga sé sýndarmennskutillaga. Ég vil mótmæla því mjög eindregið. Mig undrar það í sjálfu sér þegar við tölum um slíkt mál eins og þetta hvernig menn tala í þessu máli út og suður. Ég held að menn hefðu getað sparað sér hér margar og stórar fullyrðingar og eins og nafni minn, hv. þm. Stefán Valgeirsson, sagði hér rétt áðan við ráðherra að menn skildu ekki að það væri aðeins kaldara fyrir norðan en sunnan. Ég held að menn viti nú þetta allt saman. En það mál sem hér er til umræðu er ekkert auðleyst mál og það skulum við viðurkenna. Það er ekkert auðleyst mál.

Megintilgangur okkar með því að flytja þessa till. er auðvitað að ná árangri og vekja hér upp umræðu þannig að menn verði þess áskynja að það er þungi í mönnum og menn vilja fá úrlausn í þessum málum. Ég get sagt það hér að við erum ekki bara að flytja þessa till., við munum einnig krefjast þess að það verði gerðar aðgerðir í þessum málum. (HG: Hvenær?) Hvenær? Ég persónulega, og ég held ég tali fyrir alla flm. þessarar till., við viljum að það verði gert strax. En það er enginn hókus pókus til í þessu nú frekar en þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var ráðherra.

Ég vil spyrja, vegna þess að ég reikna með því að hæstv. iðnrh. eigi eftir að tala hér, það kom hér fram ... (Forseti: Það skal vakin athygli á því að iðnrh. hefur þegar talað tvisvar og það er ekki leyfilegt að tala nema tvisvar nema gera þá örstutta athugasemd.) Já, ég hef séð það á svip hæstv. ráðherra að hann muni ætla að gera örstutta athugasemd, hæstv. forseti. Það er auðvelt að lesa það úr svip ráðherrans. Það kom fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálma Jónssonar hér áðan að það væri nefnd að starfa í þessum málum. Mig langaði aðeins til að fá vitneskju um það hjá ráðherra hvaða nefnd það er sem hér er verið að tala um.

Auðvitað brennur það á mönnum að það skuli gerast á einu ári að orkuverð til húshitunar skuli hækka um 51%. Það þarf enginn að vera hissa á því þó að mönnum svíði undan slíku. Það þarf enginn að vera hissa á því. Ég vil brýna menn á því, og eins og ég segi er það megintilgangur okkar að fara fram á aðgerðir og fá umræðu um þetta mál. Það er ljóst af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að það er meira en áríðandi að heildarendurskoðun á þessum málum fari öll fram, bæði á þætti Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins. Það er mjög brýnt að ráðherra beiti sér fyrir því að slík vinna fari þegar í stað fram.