24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6159 í B-deild Alþingistíðinda. (4213)

373. mál, launajöfnun og ný launastefna

Ingi Björn Albertsson:

Virðulegi forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir það, eins og allir þm., að lágmarkslaun í landinu eru allt of lág og eru til háborinnar skammar í þessu þjóðfélagi og að sjálfsögðu erum við fúsir að leita leiða til að koma þeim í mannsæmandi horf.

En það sem rekur mig hér upp í pontu er þessi fyrsti liður þar sem talað er um að laun megi ekki vera meiri en fjórföld, þreföld og niður í tvöföld eða að lágmarkslaun séu sem sagt helmingur af hæstu launum. Ég sé ekki annað en að þessi till. í heild sé veruleg árás á einkaframtakið í landinu. Það er verið að búa til þjóðfélag lognmollunnar. Það er verið að drepa einkaframtakið nánast. Hér má enginn standa upp úr. Hér má enginn hagnast. Það er ekkert annað sem er verið að segja þarna. Hvað er með verslun og hvað er með lögfræðinga og hvað er með endurskoðendur? Hvað eiga þeir að gera við umframtekjurnar? Kemur það fram hér? Ég held að það ætti frekar að fara inn á tekjuöflunina. Hvernig er tekið á hjónum t.d. þar sem fyrirvinnan er ein? Það kemur ekkert fram hér. Síðan koma hér upp kvennalistakonur, eða ein kvennalistakona sem notar þennan stað, þennan vinnustað virtasta vinnustað þjóðarinnar, og nota hann sem æfingabúðir. Hér skipta þær inn og út lon og don. Þetta er bara tvískinnungsháttur og ekkert annað.

Ég sakna þess að sjá hérna í till. hvernig á að taka á þeim umframhagnaði sem skapast í einkageiranum við svona tillögur. Hvað á að gera við hann, hv. 1. flm.? (SJS: Fyrirgefðu, viltu endurtaka spurninguna?) Hvað á að gera við þann hagnað sem skapast í einkageiranum við það að negla niður launin? Það skapast óneitanlega meiri hagnaður þegar þú þarft að borga minni laun. (SJS: Það má hækka botninn.) Það er nú þannig að það er ekki láglaunafólk í öllum stéttum. Það eru til hellar stéttir þar sem er fólk sem er yfir þessum launum og ef þú ætlar að draga þau niður þá hlýtur að skapast hagnaður í fyrirtækinu. Er það ekki rétt ályktað? Hvað á að gera við hann? Þessi till. er rugl.