12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6198 í B-deild Alþingistíðinda. (4258)

260. mál, brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég held að hér sé hið ágætasta mál á ferð, en hafði hugsað mér að spyrja hæstv. ráðherra nánar út í hvað líður framkvæmd þál. sem samþykkt var á Alþingi 22. maí 1984 um lagahreinsun og samræmingu gildandi laga. Á þinginu 1983 var flutt þáltill. af Árna Gunnarssyni, Birgi Ísl. Gunnarssyni, Stefáni Benediktssyni, Davíð Aðalsteinssyni og Guðrúnu Agnarsdóttur um það að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að sinna þessari lagahreinsun. Þessi þáltill. var samþykkt og það var ákveðið að kjósa nefnd níu manna til ráðuneytis um framkvæmd þessa verkefnis. Ég mun ekki lesa ítarlega upp þessa þál., sem er í þrem liðum og nokkuð ítarleg um það hvernig að þessu skyldi standa, en meginefnið er sem sé að undirbúa hreinsun úreltra ákvæða úr núgildandi lögum og gera tillögur um niðurfellingu lagabálka sem engum tilgangi þjóna lengur.

Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. dómsmrh. að því hvað starfi nefndarinnar liði.