04.11.1987
Sameinað þing: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

Frumvarp til fjárlaga 1988

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Við höfum hlýtt á eina lengstu hrollvekju sem nokkur fjmrh. hefur flutt svo lengi sem ég hef verið hér á þingi, það er síðan 1974.

Ég kem hér upp og ræði um þingsköp til þess að komast hjá væntanlegum misskilningi, ef um misskilning er að ræða, sem gæti haft alvarlegar afleiðingar. Því vil ég spyrja hæstv. forseta hvort þessari hrollvekju, eða þessari ræðu hæstv. fjmrh., verði ekki dreift á þessum fundi eins og hefð hefur skapast um — ég gerði það í minni tíð og aðrir fjmrh. frá því að ég kom á þing — til þess að við höfum ekki rangt eftir honum því að ég gat ekki betur heyrt en að hæstv. ráðherra væri að boða m. a. að kannað yrði nú þegar hvort fella eigi niður skattfrelsi af sparifé landsmanna, opna bankana fyrir upplýsingagjöf um einstaklinga, en það er vitað mál að það er helst gamla fólkið sem á sparifé. Það er óþarfi að hræða það. Þess vegna óska ég eftir því að ræðu hæstv. fjmrh. verði dreift nú þegar vegna þess að Borgarafl. er með opinn borgarafund í kvöld sem ég veit að verður fjölmennur og ég kem til með að halda þessu á lofti ef þetta reynist rétt. Þess vegna óska ég eftir því að fá afrit af ræðu hæstv. fjmrh.

Ég vil líka segja það að þessi fundur í sameinuðu þingi er ekki á hefðbundnum fundardegi og Borgarafl. var búinn að auglýsa fund í kvöld. Ég geri því ekki ráð fyrir að nokkur þm. Borgarafl. hafi tíma til að vera á þessum óvænta þingfundi í kvöld af þeirri ástæðu sem ég hef lýst og þar með er verið að útiloka Borgarafl. frá þátttöku í umræðu um fjárlagaræðuna á þessu stigi.