12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6245 í B-deild Alþingistíðinda. (4298)

423. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég skil vel áhuga og þörf fyrir þátttöku í Alþjóðabankanum og skil líka að það getur verið þörf á því öðru hverju að auka hlutafé sitt í erlendum stofnunum eða í hlutafélögum almennt, hvort sem þau eru innlend eða erlend. En ég álít að til þess að það sé vit í að fjárfesta í hlutafé, sem maður náttúrlega gerir ekki og síst af öllu fyrir annarra fé, þurfi að vera öruggt og tryggt að það hlutafé gefi meira af sér en peningarnir kosta sem notaðir eru til hlutafjáraukningarinnar.

Hér er verið að auka hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum um enga smáupphæð. Það er um það bil verið að tvöfalda hlutafjáreign Íslands, eða úr 68 millj. í 125,8 millj. bandaríkjadala og það er miðað við gullgengi dalsins eins og það var 1. júlí 1944, en síðan er mikið vatn runnið til sjávar.

En það er annað sem ég vildi gjarnan fá fram hjá hæstv. ráðherra: Fyrir hvaða peninga erum við að auka hlutafé? Nú hefur það verið stefna ríkisstjórnarinnar að minnka eins mikið og mögulegt er erlendar lántökur og innan lands eru ekki til peningar til að fjárfesta í nauðsynlegustu hlutum. Verðmætin í peningum eru einfaldlega ekki til. Þess vegna höfum við þurft að taka í stórauknum mæli frá einu ári til annars meira og meira erlent lán. Til að seðja lánsfjármarkaðinn eins og hann er í dag án þess þó að seðja hann eða fullnægja þörfinni, þá eru risin upp ný fjárfestingarfélög sem hafa tekið að láni eða flutt inn erlent fé svo að milljörðum skiptir. Þetta er til viðbótar við það sem opinberar stofnanir og bankakerfið hefur þurft að nota. Þess vegna vil ég spyrja: Hvaðan fáum við lánsfé til að tvöfalda hlutafjáreign okkar í Alþjóðabankanum? Ég verð að segja alveg eins og er að ef það er bara til að halda einhverju hlutfalli í eign Alþjóðabankans, sem gefur okkur rétt á þeim mun hærri upphæð að láni frá bankanum sjálfum eða öðrum alþjóðastofnunum, sem er sama og segja við lánveitanda okkar að við eigum meira og séum ríkari en við erum raunverulega og slá út á þann „goodwill“ sem felst í því að hafa aðgang að lánsfé, þá er þetta röng ráðstöfun og ekki gert í neinum öðrum tilgangi en að halda andliti út á við til þess að það komi síður í ljós hvað við erum skuldug, hvað við erum háð öðrum en þurfum samt á þessum „goodwill“ að halda til að geta haldið hlutum gangandi hér heima fyrir á þann hátt sem orðið er, sem er langt umfram það sem eðlilegt er. Það kemur fram í stefnu ríkisstjórnarinnar að takmarka skal sem allra mest erlendar lántökur. Hér er verið að opna leið til að halda því áfram.

Ég held að eins hagfróður maður og hæstv. bankamálaráðherra er geti ekki annað en óttast afleiðingarnar af því að verða að leggja fram — ég hef enga trú á því að hann sé upphafsmaður að þessu tillögu sem þessa því að hún er stórhættuleg efnahag þjóðarinnar.

Ég vil því vara við þessari tillögu. Ég gerði það þegar ég var fjmrh. og verð að segja að ég var þá píndur til að taka þátt í hlutafjáraukningu hjá Alþjóðabankanum gegn mínum vilja, sem var þó mikið minni þátttaka en upphaflega var gerð tillaga um, en nú er verið að tvöfalda okkar hlutfjáreign í Alþjóðabankanum. Ég vil því spyrja um leið og ég vara við þessari tillögu: Fyrir hvaða peninga, hvar fáum við að láni þá upphæð sem við þurfum að fjárfesta í Alþjóðabankanum, þó svo það dreifist yfir nokkur ár, því erlendar skuldir okkar eru langt umfram það sem við höfum efni á að standa í skilum með öðruvísi en að taka meira og meira lán fyrir hærri og hærri vexti vegna þess að Ísland er að verða verri og verri lántakandi á alþjóðamarkaði? Það vitum við og er ekkert leyndarmál.