12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6260 í B-deild Alþingistíðinda. (4314)

443. mál, skógrækt

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur verið hér þegar ég hóf mál mitt og kannski þá ekki tekið eftir einni setningu sem ég sagði um það mál sem hann fjallaði um. En á sl. ári óskaði ég eftir því við Landgræðslu ríkisins að hún benti á landsvæði innan sinna girðinga sem gætu verið heppileg til þess að þeir einstaklingar sem hafa áhuga á að planta skógi gætu þar fengið blett án þess að leggja þá í kostnað við girðingar og annað slíkt, en þeir hefðu það þá út af fyrir sig, a.m.k. í bili, og án þess að greiða fyrir það á meðan þeir ekki fara þar í aðrar framkvæmdir en að planta skógi. Landgræðslustjóri brást fljótt við og benti á nokkur svæði og síðan var eitt þeirra, sem talið var álitlegast, austur í Landssveit, mælt nánar út og þar ætlast ég til að unnt sé að benda þeim einstaklingum sem hafa slíkan áhuga, einstaklingum eða félagasamtökum, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. ræddi um, á þessa staði til að geta fengið þar bletti sjálfum sér til ánægju og landinu til góðs. En það getur vel verið að það sé rétt að ákvæði um það ættu að fara inn í frv. og verða þannig í lögum. En framkvæmd á því getur hafist án slíkrar lagasetningar.