12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6274 í B-deild Alþingistíðinda. (4324)

293. mál, áfengislög

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þennan fund með langri ræðu, enda orðið hér fáliðað.

Ég er ein af þeim sem hafa svarað fjölmiðlum og lýst því jafnan yfir að ég væri eindreginn andstæðingur bjórsins og ég skal gera grein fyrir í nokkrum orðum hvers vegna. Ég hef, eins og ég geri ráð fyrir flestir sem komnir eru á minn aldur, séð mörg heimili illa leikin og illa farin, illa leikin af fátækt, sjúkdómum, en aldrei eins gjörsamlega í auðn eins og þar sem drykkjuskapurinn hefur ráðið ríkjum. Það hefur enginn neitað því, sem hefur talað hér með bjórnum, að hann verði viðbót við áfengið. Ég get ekki hugsað mér að vera þátttakandi í því að leiða aukið böl yfir heimili með því að fylgja bjórnum.

Ég hef líka annað í huga. Ég er viss um að bjórinn verður ákaflega mikill peningaþjófur og þá kannski ekki síður þar sem síst skyldi, á þeim heimilum þar sem er úr litlu að spila, því að þegar hann verður leyfður eða ef hann verður leyfður verður keppst við að hafa hann í ísskápnum. Þá verður boðinn bjór í staðinn fyrir kaffi. Við erum orðin allt of fínt fólk til að vera að bjóða þennan gamla þjóðardrykk okkar. Það verður boðinn bjór í staðinn fyrir kaffi. Og hann verður miklu, miklu meiri freisting fyrir unglingana, mér liggur við að segja börnin, en sterka vínið þó að það geti verið nógu slæmt á heimilum. Það er þess vegna samvisku minnar vegna sem ég er eindreginn andstæðingur bjórsins og mun greiða atkvæði gegn honum.