04.11.1987
Sameinað þing: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

1. mál, fjárlög 1988

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði vænst þess að hæstv. fjmrh. væri hér í salnum. (Forseti: Forseti hefði vænst þess líka að hæstv. fjmrh. væri í salnum. En forseti spyr hvort það mundi nægja að hæstv. viðskrh., sem er hér, selflytji það sem hæstv. fjmrh. þarf að heyra af því sem ræðumaður kann að segja.) Já.

Ég geri ráð fyrir að allir hv. alþm. séu á einu máli um að það sé mjög æskilegt að afgreiða fjárlög hallalaus. Hitt er annað mál hvernig það er gert. Ef fjárlagafrv. er skoðað kemur í ljós hvaða stefna það er sem fjárlagafrv. boðar þjóðinni. Það er samdráttarstefna þrátt fyrir það að góðæri sé í landinu. Og þessi samdráttarstefna er fyrst og fremst á kostnað landsbyggðar og þó sérstaklega á kostnað strjálbýlisins í landinu. Það kemur kannski fáum á óvart að svo sé ef menn miða við þær ræður sem hæstv. fjmrh. hefur flutt á undanförnum árum um þessi málefni.

Ég ætla ekki að fara mikið inn á þessa liði vegna þess að það er verið að vinna í þessum málum og það er ákaflega erfitt að átta sig á því hvernig þetta verður leyst við 2. og 3. umr. Ég tók eftir því að t. d. hv. 2. þm. Norðurl. v. gerði ráð fyrir því að þar yrðu einhverjar breytingar á.

En það er annað sem er athyglisverðara í þessu frv. og það er sú stefna sem boðuð er í framhaldi af þessu fjárlagafrv. sem er fyrsta skrefið sem er stigið í þá átt. Og þar á ég við söluskattinn á búvörur sem er boðað að verði settur á um áramót og manni skilst að þegar virðisaukaskatturinn verður settur á verði það sami skattur og á öðru sem þýðir þá, ef maður tekur mark á frv. fyllilega, 21–22%. En jafnframt er boðað að tollar á innfluttum matvælum verði af lagðir og tollar á ýmsu öðru verði lækkaðir úr 80% í 30%. Hvað er verið í raun og veru að boða hér? Það er verið að boða að það eigi að knýja fram neyslubreytingu í landinu, að þjóðin eigi í vaxandi mæli að lifa af innfluttum vörum, matvælum, þó það sé kannski ekki kjötvörur og þess háttar nema það sem smyglað er, og sýnilega er það líka stefnan að minnka eða afnema niðurgreiðslur á búvörur. A.m.k. í sambandi við þennan söluskatt er gert ráð fyrir að því sé mætt á þann veg að auka barnabætur, persónuafslátt og tryggingabætur. Sem sagt: Það liggur alveg fyrir að stefnan er sú að hækka landbúnaðarvörurnar en lækka innfluttar matvörur. Svona einfalt er það. Ég er alveg undrandi á því að þeir flokkar sem bera ábyrgð á þessari stefnu skuli ætla sér að skrifa á víxil hæstv. fjmrh. að þessu leyti.

Ég beini því sérstaklega til þeirra sem eru í fjvn. og raunar allra stjórnarþm. að hugleiða hvað er verið að gera. Hæstv. fjmrh. lét óánægju sína í ljós með að búvörusamningarnir skyldu ná svo langt, þ.e. til ársloka 1992, en það er alveg greinilegt að ef þeir verða ekki framlengdir þýðir það að strjálbýlið hrynur saman á stórum svæðum. Það verður ekki búið að byggja upp annan atvinnurekstur á þessu tímabili sem mundi koma í staðinn fyrir þá fækkun sem mönnum sýnist nú að muni fara fram á þessu árabili. Það sýnir hvað hæstv. fjmrh. skilur lítið í þessum málum að hann skuli halda því fram hér í sinni fyrstu fjárlagaræðu að það hefði þurft að vera miklu skemmri tími sem það tekur að minnka framleiðsluna. Ég get frætt hæstv. ráðherra á því að þó það sé nú ekki farið harðar í sakirnar er mikil spurning hvort t.d. þær byggðir sem eingöngu byggja afkomu sína á sauðfjárrækt standa þetta af sér nema það verði stóraukið fjármagn til að byggja upp annað. Og það er ekki nóg með það. Sumum þéttbýliskjörnunum verður hætt ef sveitirnar í kring hrynja. Ég ætla að láta þetta nægja um þetta atriði.

Það sýnir líka, þó að hæstv. fjmrh. hafi aðeins nefnt það, að við hafnirnar þurfi að gera átak. Inni í fjárlagafrv. eru til þess 250 millj., voru 218,5 millj. á yfirstandandi ári. Í sumar kom dýpkunarskip, mjög gott tæki, sem er að dýpka hafnir og það er mikil þörf á því víða. Ef það hefur ekki verkefni missum við það aftur úr landinu. Það þarf sérstaklega að huga að því. Ég varð vitni að því t.d. að það var að koma loðnuskip í eina höfn og það tók niðri nokkrum sinnum þegar það var að fara inn í höfnina. Ef ekki verður bætt úr þessu þýðir það að stærri skipin fara fram hjá þeim höfnum sem þannig er ástatt með.

Ástandið er líka víða þannig að skipin eru í stórhættu ef nokkuð er að veðri. Þetta eru dýr tæki og dýrt að standa þannig að málum að þau geti orðið fyrir miklu tjóni og jafnvel að hljótist mannskaðar af eins og hefur gerst nýlega, en ég ætla ekki að rifja það upp frekar hér. Hafnamálastjóri telur að það hefði þurft þrisvar sinnum meira fjármagn í hafnirnar og það í nokkur ár til að bæta úr því neyðarástandi sem víða er þannig að ég held að það sé alveg óhætt fyrir ekki einungis hæstv. fjmrh. heldur þm. almennt að huga að þessum málum. Það hefur verið blátt áfram til skammar undanfarin ár hvernig staðið hefur verið að þessum málum. En þetta er svo sem ekkert nýtt. Það vil ég taka fram.

Við sjáum nú hvar fjármagnið safnast saman. Það er alltaf verið að tala um að það þurfi að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir þá miklu fólksflutninga sem eiga sér stað í þjóðfélaginu. Það er eins og menn átti sig ekkert á því hvers vegna þeir eiga sér stað. Það er vegna þess að framleiðslustörfin eru vanmetin. Þetta fólk hefur allt of lág laun og það nær ekki tekjum öðruvísi en vinna langan vinnudag sem nálgast að vera þrældómur. Það er ástæðan. Þess vegna fer það annað í þeirri von að það fái meiri laun og það er trú fólks að hér séu möguleikar á því. Það sem er að í þessu þjóðfélagi er fyrst og fremst hvernig fjármunum er skipt.

Ég var að þreifa á átakanlegu dæmi í dag. Bændurnir fá 15 kr. fyrir kg af kartöflunum núna. Búðirnar fyrir norðan selja kg á 36 kr. Hagkaup selur það á 39 kr., en Sláturfélag Suðurlands á 44,50 kr. ef það er í kílóapakkningum. Ef það er í 2 kg poka er það selt á 43,50 og ef það er í 3 kg poka á 41,50 kr. kg. En bændurnir fá 15 kr. Ef verslunin öll er svona er ekkert undarlegt þó að rísi upp hallir hér, þó að fólkið flýi þrældóminn af landsbyggðinni vegna þess að það getur ekki lifað öðruvísi en að vinna tvöfaldan vinnudag a.m.k. Þannig er nú þjóðfélagið í dag. Og svo segja menn hér, hæstv. fjmrh. m.a., að rauntekjur, kaupmáttur launa láglaunafólksins hafi vaxið um fjórðung. Hver trúir þessari vitleysu? Hver trúir því? Ekki ég. Mér dettur það ekki í hug. Ég fullyrði að það er erfiðara fyrir fólkið að lifa nú á þessum launum, rúmum 30 þús., en það eru margir sem hafa ekki meira; t.d. ýmsar konur sem eru að baksa einar með börn. Og það eru til líka ýmsir aðrir sem hafa ekki meira en lægstu laun. Þeir eru fleiri en menn vilja viðurkenna. Það sjá allir sem sjá vilja. Það getur hver og einn litið bara í eigin barm. Vilja menn lifa af svona launum? Telja þeir að það sé hægt að komast af miðað við t.d. húsnæðiskostnaðinn?

Það væri margt hægt að segja í sambandi við þessi mál og í sambandi við þá stefnu sem hæstv. fjmrh. boðaði án þess að nefna það. Það er auðvitað feimnismál að það skuli vera vegið að landsbyggðinni og sérstaklega strjálbýlinu. Ég er ekkert hissa á því. Menn tala um annað og reyna að sýna glansmyndir.

Svo er boðað að það eigi að hverfa t.d. ríkisábyrgð af atvinnulánasjóðunum. Finnst hv. alþm. ekki vera nógu háir vextirnir í landinu og á þessum sjóðum þó að ríkisábyrgðin á þessum sjóðum verði áfram? Hæstv. ráðherra boðaði að þeir ættu að taka fjármagnið sjálfir. Ef þeir fara á erlenda markaði fá þeir það ekki fyrir minna en a.m.k. 2% hærra en ríkisbankarnir geta fengið. Ég hef reynslu fyrir því. Og mér finnst þeir vera nógu háir. Það kann að vera að þeir sem styðja þessa ríkisstjórn séu annarrar skoðunar.

Ég ætla ekki að tefja tímann mikið meira. En hæstv. fjmrh. taldi upp ýmislegt í sambandi við landbúnaðinn sem væri verið að reyna að fella niður og sagði: Er þetta og hitt eðlilegt? Er eðlilegt að borga niður áburð? Hvað þýðir það ef hann er ekki borgaður? Það þýðir að mjólkið og kjötið hækkar. Er nokkur betri tekjujöfnunarleið en að borga niður þessar nauðsynjar, búvörurnar? Er hún til eða skilur ekki hæstv. fjmrh., eins einfalt eins og það er, að þá sem eyða öllum sínum fjármunum í matarkaup og húsnæðiskostnað munar auðvitað mest um það. Okkur munar kannski ekki mikið um það sem hér erum. En fátækara fólkið munar um það, tekjulága fólkið.

Nei, það er kannski eins gott að fara upp í Öskjuhlíð og tala þar við grjótið eins og að halda svona ræðu hér. Það er oft búið að tala við hæstv. fjmrh. um þessi mál. Ég ætla að geyma mér að lesa upp hans rökstuddu dagskrá sem hann flutti þegar búvörulögin voru hér til umræðu. Ég á hana í tösku minni og get gripið upp hvenær sem ég vil. Það er táknrænt fyrir þá hugsun sem þá var hjá hæstv. ráðherra og mér sýnist að lítil breyting hafi orðið á, a.m.k. ef á að marka ræðu hans.

Herra forseti. Ég ætla að segja það í lokin, ætla að endurtaka það, og segi það við hv. stjórnarþm.: Þið skuluð athuga að þið berið ábyrgð á afgreiðslu þessara fjárlaga og verðið dregnir til ábyrgðar ef það fer á þann veg sem mér sýnist í þessum málum.