14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6400 í B-deild Alþingistíðinda. (4396)

295. mál, öryggis- og björgunarbúnaður í skipum

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í framhaldi af svari mínu og í framhaldi af því sem hv. þm. nú sagði er rétt að hér komi fram að nýlega hefur farið fram á vegum Siglingamálastofnunar ítarleg rannsókn á björgunarbúningum, sem seldir voru hér á landi áður en kröfur um þær reglur voru komnar, vegna orðróms um að vissir búningar gætu verið hættulegir. Þessar rannsóknir hafa leitt í ljós að ákveðnir búningar standast engan veginn þær kröfur sem gerðar eru til björgunarbúninga í dag. Það er unnið að frekari athugun á þessu máli og ég er alveg sammála hv. þm. að það er aldrei of vel að gætt í þessum efnum og mun að sjálfsögðu beita mér til þess að fyllsta öryggis verði gætt í þessum efnum.