14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6409 í B-deild Alþingistíðinda. (4415)

383. mál, greiðsla fæðingarorlofs

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Eins og kom fram í lokaorðum hv. fyrirspyrjanda hefur nú þegar verið reynt að gera nokkra bragarbót á því ástandi, sem hún lýsti réttilega, sem hefði gilt varðandi greiðslu fæðingarstyrks og dagpeninga og áhrif staðgreiðslukerfis skatta þar á.

Til að lýsa ástandinu vil ég vitna hér til bréfs sem mér hefur borist frá Tryggingastofnun ríkisins sem greinir frá því hvernig málum er nú háttað.

Hjá Tryggingastofnun ríkisins er útborgunardagur 10. dagur hvers mánaðar og verða umsóknir að jafnaði að hafa borist fyrir 20. dag næsta mánaðar á undan. Þetta greiðslufyrirkomulag hefur fallið illa að reglum um greiðslu í fæðingarorlofi.

Þegar um greiðslur í fæðingarorlofi er að ræða er fyrsti greiðslumánuður fæðingarmánuður barns. Ef kona sækir um fæðingarorlof eftir fæðingu barns getur greiðslan átt sér stað 10. dag næsta mánaðar eða þar næsta mánaðar á eftir. Það ræðst af því hvenær í mánuðinum hún sækir um. Hugsanlegt er að hún fái þar af leiðandi 2–3 greiðslur saman sem er einmitt það ástand sem fyrirspyrjandi lýsti.

Nú er hins vegar sú breyting á hvað varðar staðgreiðslukerfið að það hefur verið tekið tillit til þess og hér eru sett upp tvö dæmi sem lýsa því hvernig þetta getur þá farið fram. Í fyrra dæminu er gert ráð fyrir því að barn fæðist 10. mars 1988. Konan sækir um greiðslu fyrir 20. mars. Greiðsla fer fram 10. apríl og er þá fyrir tvo mánuði, þ.e. fæðingarmánuð barnsins, mars, og aprílmánuð. Hafi kona lagt inn 100% skattkort með umsókn þar sem persónuafsláttur er ónýttur í mars og skattkortið er áfram í vörslu Tryggingastofnunar nýtist hinn uppsafnaði persónuafsláttur konunni í greiðsluna sem kemur 10. apríl þannig að það verður enginn skattfrádráttur á greiðslunni. Þetta er sem sagt nýmælið að þessi uppsafnaði persónuafsláttur nýtist.

Ef svo færi nú, sem í öðru dæmi sem hér er tekið, að barn fæðist eins og áður, í fyrra dæminu, 10. mars, en konan sækir um greiðslu eftir 20. mars, þá fer greiðsla ekki fram fyrr en 10. maí, þ.e. fyrir þrjá mánuði, fæðingarmánuð barnsins, marsmánuð, apríl og maí. Hafi konan eins og í fyrra dæminu lagt inn 100% skattkort með umsókn þar sem persónuafsláttur er ónýttur, í mars, og skattkortið er áfram í vörslu Tryggingastofnunarinnar nýtist hinn uppsafnaði persónuafsláttur í greiðsluna 10. maí og eins og í fyrra dæminu engin staðgreiðsla opinberra gjalda.

Framangreind framkvæmd á staðgreiðslu skatta hófst eftir 15. febr. en þá tók reglugerð nr. 79/1988, um persónuafslátt og sjómannaafslátt, gildi. Fyrir setningu reglugerðarinnar var persónuafsláttur ekki millifæranlegur milli mánaða, sbr. 7. gr. laga nr. 92 1987, og hefði konan í dæmi 1 og 2 að ofan orðið að greiða opinber gjöld af fæðingarorlofsgreiðslum þar sem aðeins eins mánaðar persónuafsláttur nýttist og það var einmitt það dæmi sem hv. fyrirspyrjandi lýsti.

Reglugerðin nr. 79/1988 er ekki afturvirk þannig að ekki var talið heimilt að beita henni á greiðslur fyrir gildistöku hennar, þ.e. tímabilið 1. jan. 1988 til 14. febr. 1988.

Þetta eru sem sagt þær upplýsingar sem koma fram í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins. Til viðbótar þessu langar mig að geta þess að ég hef nú rætt það við hæstv. fjmrh. hvort ekki sé mögulegt að breyta gildistöku reglugerðarinnar, gera hana afturvirka á þann hátt að hún gildi frá áramótum, og að það verði þá hægt að taka tillit til þeirra foreldra sem fengið hafa fæðingarorlofsgreiðslur á þessu tímabili, í janúarmánuði og fram í miðjan febrúarmánuð. Það mál er sem sagt í athugun. Ég veit að þarna er um einhverja einstaklinga að ræða. Þeir munu ekki vera margir. Ég hef ekki þá tölu, en þarna getur ekki verið um stórar upphæðir að ræða. Ég er sammála því sem kom fram í fsp. hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, 3. þm. Reykv., að þetta er auðvitað óviðunandi framkvæmd, enda hefur henni verið breytt, en því miður með þessum annmarka að reglugerðin gilti ekki nema frá þeim degi sem hún var sett, þ.e. um miðjan febrúar, í staðinn fyrir að gilda frá áramótum. Þá hefði verið hægt að taka tillit til þeirra sem höfðu áður þurft að greiða staðgreiðsluskatt af þessum fæðingarorlofsgreiðslum.