14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6411 í B-deild Alþingistíðinda. (4417)

383. mál, greiðsla fæðingarorlofs

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef e.t.v. ekki talað nógu skýrt. Ég hélt þó að það hefði verið alveg ljóst að með þessari reglugerðarsetningu er málum þannig fyrir komið í dag að það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að viðkomandi einstaklingur sem þiggur fæðingarorlofið þurfi að greiða staðgreiðslu af þeim orlofsgreiðslum ef hann á ónýttan persónuafslátt. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það tekur þessi reglugerð öll tvímæli af um héðan í frá þannig að hugsanleg fæðing fyrir tíma hefur engin áhrif þar á. Viðkomandi á þennan rétt og fær sinn persónuafslátt nýttan svo að það mál er því betur í höfn.

Síðan var aðeins hitt um reglugerðina að það er ekki heilbrrh. sem setti þá reglugerð. Hann getur því ekki breytt henni. Hann gerir það ekki. Það er hæstv. fjmrh. sem setti þessa reglugerð og ég lýsti því áðan að ég hefði þegar rætt það við hann að hann breytti gildistíma þessarar reglugerðar og það mál er sem sagt í skoðun.